STARTUP LANDIÐ - Nýr viðskiptahraðall fyrir frumkvöðla á landsbyggðinni
Nýsköpun er ekki bara fyrir tæknifyrirtæki
Þótt hugtakið „nýsköpun“ sé oft tengt við hátækni eða hugbúnað, snýst það í grunninn um að gera hlutina betur, á nýjan hátt eða fyrir nýjan markhóp. Fyrir ferðaþjónustufyrirtæki gæti það þýtt:
- Nýjar leiðir til að bóka, selja eða kynna þjónustu
- Sérsniðnar upplifanir byggðar á áhugamálum ferðamanna
- Betri nýtingu á gögnum til að auka ánægju gesta
- Sjálfbærar lausnir sem draga úr umhverfisáhrifum
- Samstarf milli ólíkra aðila á svæðinu til að bjóða heildstæða upplifun
Startup Landið er vettvangur til að taka slíkar hugmyndir úr orðum og setja þær í framkvæmd.
Hvernig fer þetta fram?
Hraðallinn hefst 18. september og lýkur með lokaviðburði á Akureyri þann 30. október. Þátttakendur hittast tvisvar í viku á rafrænum vinnustofum um hugmyndavinnu, rekstrargrundvöll, markaðssetningu og fjármögnun. Auk þess fá þau einstaklingsmiðaða handleiðslu frá sérfræðingum á sínu sviði.
Í lok september verður sameiginleg staðlota á Selfossi þar sem öll teymi hittast í eigin persónu með niðurgreiddum ferðakostnaði og gjaldfrjálsri gistingu, mat og fræðslu. Lokaviðburðurinn á Akureyri gefur svo öllum tækifæri til að kynna hugmyndir sínar fyrir fjárfestum, samstarfsaðilum og öðrum áhrifaaðilum í atvinnulífinu.
Ferðaþjónustan sem frumkvöðull
Ferðaþjónustufyrirtæki hafa einstaka möguleika til að skapa nýjar lausnir sem styrkja ekki aðeins eigin rekstur, heldur heilu samfélögin sem þau starfa í. Ný þjónusta, ný samstarfsform eða betri upplifun gesta geta haft margföldunaráhrif – bæði efnahagslega og samfélagslega.
Startup Landið býður upp á ramma þar sem slík verkefni geta dafnað, með stuðningi og hvatningu frá öðrum frumkvöðlum og sérfræðingum. Fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu er þetta því ekki bara tækifæri til að prófa nýja hugmynd – heldur líka til að festa sig í sessi sem leiðandi afl í þróun ferðaþjónustu á sínu svæði.
Hvort sem þú ert einstaklingur með stórar hugmyndir, sprotafyrirtæki á flugi eða hluti af rótgrónu fyrirtæki með nýsköpun í farteskinu, þá er Startup Landið vettvangurinn fyrir þig.
Við hvetjum sunnlenska ferðaþjónustuaðila til að kynna sér málið og taka þátt!
Umsóknarfrestur er til 31. ágúst og er sótt um á www.startuplandid.is
Startup Landið er samstarfsverkefni allra landshlutasamtakanna: SSNE, SSNV, Vestfjarðarstofu, Austurbrúar, SASS, SSS og SSV – og markmiðið er skýrt: Að efla og styrkja frumkvöðlastarfsemi á landsbyggðinni.