Fara í efni

Mælum með sumarfríi á Suðurlandi

Íslendingar hafa alltaf verið duglegir að ferðast um landið sitt. Líklega er algengasti ferðamáti Íslendinga innanlands með þeim hætti að keyra um landið, fara í útilegur með fjölskylduna eða í sumarbústaðinn. Notalegt er að grilla í bústaðnum og á tjaldsvæðum vítt og breitt um landið og frábært að skella sér í sund á fjölmörgum stöðum.
Kajak á Jökulsárlóni
Kajak á Jökulsárlóni

Íslendingar hafa alltaf verið duglegir að ferðast um landið sitt. Líklega er algengasti ferðamáti Íslendinga innanlands með þeim hætti að keyra um landið, fara í útilegur með fjölskylduna eða í sumarbústaðinn. Notalegt er að grilla í bústaðnum og á tjaldsvæðum vítt og breitt um landið og frábært að skella sér í sund á fjölmörgum stöðum.

Á Íslandi er fjölbreytt afþreying í boði. Á Suðurlandi er til að mynda fjölbreytt afþreying á borð við hellaferðir, fjórhjólaferðir, rib bátaferðir, kajak, zipline, hestaferðir, köfun, hjólaferðir, jeppaferðir, íshellaferðir, snjósleðaferðir, gönguferðir með leiðsögn, fuglaskoðun, skoðunarferðir á margvísleg söfn, heimsókn í húsdýragarða og margt fleira. Matarupplifun á fjölbreyttum veitingastöðum er víða að finna á Suðurlandi þar sem boðið er upp á mat úr sunnlensku hráefni. Einnig er hægt að finna fjölbreytta gistingu um allt Suðurland eins og gistihús, hótel, íbúðagistingu, tjaldstæði, hostel og sumarhús í útleigu. Þetta fjölbreytta framboð af veitingastöðum, afþreyingu og gistingu er hluti af þeim jákvæðu áhrifum sem ferðaþjónustan hefur á samfélagið.

LEYFUM OKKUR AÐ PRÓFA ALLSKONAR

Gleymum við að upplifa Ísland á sama hátt og við leyfum okkur að upplifa þegar við erum erlendis? Við erum vön því að geta gert skemmtilega hluti á Íslandi þar sem við getum séð að mestu um okkur sjálf, eins og að fara í útilegu og sund, og leyfum okkur oft á tíðum ekki að kaupa afþreyingu og upplifun á Íslandi líkt og við gerum erlendis. En hvað gerum við þegar við ferðumst erlendis? Við kaupum okkur gistingu, förum út að borða, förum jafnvel í leiðsagðar ferðir þar sem við fáum tækifæri til að heyra um sögu staðarins, við förum á söfn og kaupum okkur allskonar afþreyingu. Sem sagt leyfum okkur að upplifa og kynnast svæðinu sem við heimsækjum og hvað það hefur upp á að bjóða. Hvernig viljum við hafa sumarfríið okkar í sumar þegar við komumst ekki af landi brott? Viljum við ekki fá aukna upplifun í ferðalagið, hvort sem það er langt eða stutt? Það gerum við með því að upplifa matinn og veitingastaðina, ferðast um landið með augum ferðamannsins og jafnvel með leiðsögumann okkur við hlið sem segir okkur sögur svæðisins og fræðir okkur, við nýtum okkur hestaleigur, skoðum ævintýraheim jöklanna í íshellaferð, ísklifri eða snjósleðaferð, við heimsækjum flottu söfnin okkar sem minnir okkur á sögu lands og þjóðar eða skellum okkur í ferð sem fær adrenalínið af stað eins og bátsferð, zipline, fjórhjól eða svifflug.

HUGUM AÐ KOLEFNISSPORINU

Varðandi kolefnissporið þá er mun umhverfisvænna fyrir okkur sem búum á Íslandi að ferðast um Ísland heldur en að taka flugið á erlenda grundu. Í því samhengi má bæði nefna samgöngumátann og það staðbundna hráefni sem við getum notið á ferðalagi okkar um landið. Ekki svo að við hættum að ferðast erlendis en við gætum stefnt að meira jafnvægi í ferðalögunum okkar og um leið minnkað flugviskubitið svokallaða. Við mælum með því að fólk ferðist um Suðurland og landið allt í sumar og leyfi sér að upplifa allt það sem íslensk ferðaþjónusta býður upp á. Hægt er að nálgast upplýsingar um fjölbreytta afþreyingu, viðburði, veitingastaði og gistingu hér á www.sudurland.is.