Kynningaferðir Markaðsstofu Suðurlands
Markaðsstofa Suðurlands bauð starfsfólki ferðaskrifstofa, bókunarskrifstofa og upplýsingamiðstöðva í kynningarferðir um Suðurland í byrjun júní. Tilgangur ferðanna var að kynna nýjungar í ferðaþjónustu á Suðurlandi.
Fyrri ferðin sem farin var 5 júní var einblínt á suðvestursvæði, þ.e.a.s. Þorlákshöfn, Ölfus, Árborg og Flóahrepp. Dagur byrjaði í Þorlákshöfn þar sem hópurinn heimsótti Black Beach Tours. Að lokinni kynningu og spjalli var farið í Rib-bátsferð út af strönd Þorlákshafnar. Þar gafst hópnum að kynnast Rib-bátsferð þeirra auks þess sem þeir útskýrðu nánar fjórhjólaferðir þeirra um nærliggjandi strendur Þorlákshafnar. Að lokinni bátsferð var haldið á Hendur í Höfn þar sem hópurinn gæddi sér á frábærri bleikju og dýrindis eftirrétt. Eftir frábærar móttökur á Hendur í Höfn var ekið á Stokkseyri og stoppað hjá Gunnari og Magga í Kayakferðum. Þeir sögðu frá starfsemi sinni og sýndu hópnum umhverfið og kayakbátana sína auk þess voru þeir að fjárfesta í nýjum fatbike hjólum og sögðu hópnum frá nýjum ferðum sem þeir bjóða núna uppá á fatbike hjólunum. Í hjólaferðunum er komið við í Knarrarósvita sem var einmitt næsta stopp hópsins. Hópurinn fékk að líta útsýnið af toppi vitans. Veðrið var mjög gott og sást mjög vel til allra átta.
Eftir að hafa ferðast meðfram ströndinni var ferðinni heitið í Ölvisholt þar sem hópurinn kíkti í gestastofu Ölvisholt Brugghús. Þar fékk hópurinn að sjá framleiðsluna og kynningu á henni. Að kynningu lokinni fékk hópurinn svo að smakka alls kyns bjóra. Eftir mikinn fróðleik um bjór var ferðinni heitið að 360° Hotel. Hótelið opnaði 1 ágúst 2018 og tók Ólafur hóteleigandi á hópnum og sýndi þeim herberginn, umhverfið og nýtt Spa sem þau eru að opna. Síðasta stopp dagsins var á nýju hóteli, Hotel South Coast. Þar tók Nuno á móti hópnum og sagði hópnum frá hótelinu og sýndi þeim einnig herbergi. Heimsóknin endaði í kjallara hótelsins þar sem til stendur að opna Spa.
Seinni kynningarferðin var farin 12 júní og var ekið um suðurströnd. Komið var við á Hvolsvelli, Vík og Kirkjubæjarklaustri. Fyrsta stopp hópsins var í LAVA Centre, Hvolsvelli. Hulda Kristjánsdóttir tók á móti hópnum og sagði frá safninu og þeirri þjónustu sem þar er. Hópurinn gekk um safnið og skoðaði það sem fyrir augum bar. Hópur fékk einnig að kíkja á útsýnispall ofan af þaki sýningarinnar. Þar er útsýnið magnað þar sem gestir sjá eldfjöllin sem eru í nágrenni Hvolsvallar. Ekið var áfram og stefnan tekin í Vík. Þar heimsótti hópurinn Icelandic Lava Show. Þar fékk hópurinn að sjá þá frábæru sýningu sem þar er í boði. Sýningin er fræðandi og spilar við skilningarvitin. Eftir sýningu spjallaði Júlíus við hópinn og svaraði spurningum hans. Þá var komið að því halda áfram og ekið var til Kirkjubæjarklausturs þar sem hópurinn heimsótti Hótel Klaustur. Sveinn hótelstjóri tók frábærlega á móti hópnum og sýndi þeim hótelið, herbergin og sagði hópnum frá sögu hótelsins. Að lokinni skoðun um hótel fékk hópurinn kynningar frá fulltrúm Hrífunes Guesthouse og Local Guides sem mætir voru á Hótel Klaustur. Eftir fræðandi kynningar og skemmtilegt spjall var haldið áfram. Næsta stopp var Iceland Bike Farm þar sem Mummi og Rannveig tóku á móti hópnum og sýndu þeim aðstöðu sína, hjólin og sögðu þeim frá hjólaferðunum sem þau bjóða uppá. Gestum ferðarinnar fengu að prófa hjólin og virtu fyrir sér hið fallega umhverfi hjólaferðana.
Þá var komið að því að keyra í átt til Reykjavíkur. Hótel Kría var næsti viðkomustaður hópsins. Hótelið var opnað síðasta sumar og tók Gytis á móti hópnum og sýndi hótelið, herbergin og svaraði spurningum hópsins. Að kynningu lokinni komu Þráinn og Samúel frá Zipline.is. Þeir sögðu hópnum frá sinni starfsemi og Zipline ferðunum sem þeir bjóða uppá. Þeir eru einnig með True Adventure sem bjóða upp á svifvængsferðir (Paragliding tours) í nágrenni Vík. Síðasta stopp dagsins var í Smiðjan Brugghús. Þar tók Sveinn eigandi brugghúsins á móti hópnum og sagði hópnum frá starfseminni og hvernig brugghúsið hefði orðið til. Hópurinn kíkti í bruggsal og fékk að smakka nokkra bjóra sem Smiðjan bruggar. Að lokinni kynningu settist hópurinn niður og gæddi sér frábærum hamborgurum. Frá Vík var ekið til Reykjavíkur.
Hér að neðan má sjá myndir frá kynningarferðunum
Suðurströnd - Hvolsvöllur, Vík og Kirkjubæjarklaustur - 12 júní 2019