Hverju skila áfangastaðir?
Áfangastöðum ferðamanna má líkja við fiskinet: Það hagnast fáir á sjálfu netinu en án þess væri enginn afli. Yfir 97% erlendra ferðamanna segja að náttúra landsins hafi haft mikil áhrif á ákvörðun þeirra um að koma til Íslands. Til þess að geta notið náttúrunnar versla gestir okkar svo gistingu, mat, afþreyingu og aðra þjónustu sem skilar tekjum inn í samfélagið. Þétt net góðra áfangastaða skiptir ferðaþjónustuna því jafn miklu máli og góð veiðafæri gera í sjávarútvegi.
Náttúruperlur hafa ekki alltaf verið aðgengilegar
Hingað hefur fólk ferðast um aldir og virt fyrir sér eldfjöll, fossa, gljúfur, jökla og hveri, enda er Suðurland auðugt af áfangastöðum af náttúrunnar hendi. Það er þó ekki þar með sagt að náttúruperlurnar hafi alltaf verið eins aðgengilegar almenningi og þær eru nú. Það er ekki fyrr en seint á tuttugustu öldinni sem heimafólk og ferðamenn fóru að geta notið landsins á þann hátt sem við gerum í dag. Stórir áfangar í bættu aðgengi ferðafólks um landshlutann eru sem dæmi:
1907 – Konungsvegurinn var lagður. Markar fyrstu drög að Gullna hringnum. Englendingar falast eftir Gullfossi til virkjunarframkvæmda sama ár.
1928 – Barátta Sigríðar í Brattholti gegn virkjun Gullfoss bar loks árangur og leigusamningur um nýtingu hans féll niður. Þingvallaþjóðgarður var stofnaður sama ár.
1945 – Íslenska ríkið keypti Gullfoss.
1974 – Hringvegurinn var kláraður með opnun Skeiðarárbrúar.
1975 – Ferðafélag Íslands hófst handa við að byggja upp Laugaveginn. Sama ár var Gullfoss formlega friðlýstur.
1979 - Friðland að Fjallabaki var stofnað.
2008 – Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður. Þjóðgarðurinn hefur stórbætt aðgengi að helstu perlum og samtímis stuðlað að náttúruvernd.
Í seinni tíð hafa byggst upp stæði, stígar, salerni og aðrir innviðir við okkar helstu náttúruperlur sem bæta öryggi, vernda náttúruna og auðvelda ekki síst börnum, öldruðum og hreyfihömluðum að njóta þeirra.
Nauðsynlegt að líta út fyrir nánasta umhverfi áfangastaðarins
Öll uppbygging er kostnaðarsöm en hún er um leið ábatasöm fjárfesting. Til að átta sig á verðmætinu sem skapast af góðum áfangastöðum er nauðsynlegt að líta út fyrir nánasta umhverfi þeirra. Þótt aðgangseyrir eða bílastæðagjald geti hjálpað til við rekstur áfangastaðar eru það smáaurar í stóra samhenginu. Lítum á erlenda fjölskyldu sem heimsækir Jökulsárlón: Hvar gista þau? Hvernig komst þau á staðinn? Fara þau í siglingu á lóninu eða jöklagöngu í nágrenninu? Eflaust borða þau skyr í morgunmat og bleikju með íslenskum kartöflum og tómötum í hádeginu. Versla jafnvel íslenskt handverk. Hvar býr fólkið sem hefur atvinnu af því að þjónusta þessa fjölskyldu, framleiða matinn og byggja upp innviðina? Hvert renna tekjurnar? Þetta er raunverulegt virði áfangastaðarins. Viðeigandi uppbygging, með náttúruvernd, aðgengi og öryggi í huga er fjárfesting fyrir samfélagið í heild.
Tekjur af ferðaþjónustu gera okkur kleift að styrkja innviði
Ferðaþjónustan skilar tekjum til íbúa, ríkis og sveitarfélaga, sem gerir okkur kleift að vernda náttúruperlurnar okkar og gera þær aðgengilegar almenningi. Þannig voru 1,3 milljarðar eyrnamerktir framkvæmdum við áfangastaði á Suðurlandi á árunum 2023-2025, ýmist í gegn um Framkvæmdasjóð Ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða til til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Að þessu sinni hlutu aðeins tveir sunnlenskir áfangastaðir úthlutun úr Framkvæmdasjóði en líklega skýrist það af sérstakri áherslu ársins 2025 á að byggja upp minna sótt svæði og lengja ferðatímabil. Þá má einnig benda á að þótt fáir styrkir hafi komið til Suðurlands þetta árið, rann um 70% fjármagns síðustu Landsáætlunar til uppbyggingar á lykil áfangastöðum Suðurlands.
Styrkir bæta öryggi og vernda náttúru
Göngufólk í Þórsmörk. Mynd: Volcano Trails.
Við fögnum þeim styrkjum sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti til Suðurlands að þessu sinni en þeir snúa að bættu öryggi og náttúruvernd við Sigöldugljúfur og í Reykjadal. Við óskum styrkþegum innilega til hamingju og þökkum öllu því góða fólki sem hefur unnið að vernd og uppbyggingu áfangastaða síðustu ár. Uppbygging áfangastaða veltur nefnilega fyrst og fremst á eljusömu hugsjónafólki. Takk fyrir að þétta og efla net áfangastaða á Suðurlandi og styðja þannig við atvinnuuppbyggingu á Suðurlandi.
Að lokum
Hér að neðan má sjá lista yfir þá staði sem hafa hlotið styrki úr Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða síðastliðin þrjú ár. Þar á eftir fylgir listi yfir staði á Suðurlandi sem eru á Landsáætlun fyrir árin 2024-2026. Við bendum líka á Kortasjá Ferðamálastofu þar sem hægt er að finna frekari upplýsingar um verkefnin.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða
Úthlutun til Suðurlands 2025
- Sigöldugljúfur – Rangárþing ytra
- Reykjadalur – Ragnar Atli Guðmundsson
Verkefni í vinnslu frá 2024
- Ölfusdalir – Icebike Adventures
- Heimaklettur – Vestmannaeyjabær
- Reiðleið frá Dalakofa að Landmannahelli – Hestamannafélagið Geysir
- Múlagljúfur – Sveitarfélagið Hornafjörður
- Haukafell – Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu
Verkefni í vinnslu frá 2023
-
Hrunalaug –
Hrunalaug ehf - Rauðabotn - Skaftárhreppur
- Fimmvörðuháls – Ferðafélagið Útivist
- Reynisfjall – Mýrdalshreppur
Staðir á Landsáætlun 2024-26
Gullna-hrings svæðið
- Þingvellir – þinghelgi
- Þingvellir – þingvallahraun
- Geysir
- Gullfoss
- Kerlingarfjöll
- Háifoss
- Þjórsárdalur
- Þjórárdalur – Gjáin
- Þingskálar
- Friðland að Fjallabaki
- Friðland að Fjallabaki – Laugahringur
Katla jarðvangur
- Skógafoss – láglendi
- Skógaheiði
- Dyrhólaey
Ríki Vatnajökuls
- Skaftafell
- Skaftafell – Magnúsarfoss
- Sandfell í Öræfum
- Jökulsárlón
- Heinabergslón