Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Horfir yfir hafið til móður sinnar í New York

Vængjuð heilladís prýðir miðbæjartúnið á Hvolsvelli. Listaverkið er afsteypa af höggmyndinni Afrekshuga sem hefur staðið við inngang hótelsins Waldorf Astoria í New York í rúm 90 ár.
Afrekshugur stendur keikur á Hvolsvelli
Afrekshugur stendur keikur á Hvolsvelli

Í miðbæ Hvolsvallar stendur tíguleg vera á háum stólpa, með útbreidda vængi eins og hún sé í þann mund að hefja sig til flugs. Veran heitir Afrekshugur og er höggmynd eftir Nínu Sæmundsson, fyrstu íslensku konuna sem lagði stund á höggmyndalist.  

 

Nína Sæmundsson – Brautryðjandi í höggmyndalist

 

Nína fæddist árið 1892 í Fljótshlíð og var langt á undan sinni samtíð. Hún var fyrsta íslenska konan sem lagði stund á höggmyndalist, grein sem hafði fram að þessu nánast einvörðungu verið í höndum karla. Þrátt fyrir margar hindranir og áskoranir í samfélaginu lét hún drauma sína rætast.

Hún stundaði nám í Kaupmannahöfn og bjó síðar í París. Árið 1926 hélt hún til Bandaríkjanna og varð fræg á einni nóttu þegar hún vann samkeppni um gerð listaverks fyrir hótelið Waldorf Astoria árið 1930 með höggmynd sinni Afrekshuga. Nú hefur afsteypu af þessu þekkta verki verið komið fyrir á Hvolsvelli.

Verk Nínu hlutu alþjóðlega viðurkenningu og hún varð ein farsælasta íslenska listakona þessa tíma. En staða kvenna í listum á fyrri hluta 20. aldar var erfið. Hún glímdi við fjárhagsörðugleika, takmörkuð tækifæri og fordóma í karlmiðuðum heimi listarinnar. En Nína gafst ekki upp og skildi eftir sig verk sem veita innblástur enn þann dag í dag.

Afrekshugur – Vængjuð heilladís

 

 

Eitt af þekktustu verkum Nínu er höggmyndin Afrekshugur sem hún skapaði árið 1931. Upprunalega höggmyndin hefur um árabil staðið við inngang hins reisulega hótels Waldorf Astoria í New York. Verkið táknar metnað, styrk og hugrekkið til að elta drauma sína. Eitthvað sem endurspeglar listaferil Nínu.

 

 

Afrekshugur afhjúpaður á Hvolsvelli

 

Árið 2023 var afsteypa af Afrekshugi afhjúpuð á Hvolsvelli og arfleifð Nínu færð heim til Íslands. Athöfnin fór fram þann 22. ágúst, á afmælisdegi Nínu, að viðstöddum forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, og nemendum úr grunnskólanum á Hvolsvelli. Styttan stendur nú keik í miðbænum og horfir yfir hafið í átt til móður sinnar í New York.

Hvolsvöllur – Heillandi bær við hringveginn

 

 

Hvolsvöllur er fallegur bær á Suðurlandi, staðsettur við hringveginn. Þar má finna fjölbreytta afþreyingu, svo sem söfn, veitingastaði, bakarí, bókasafn, hótel og gistiheimili. Afrekshugur setur svip sinn á bæjinn og eflir menningarlandslagið til muna. 

 

Arfðleifð sem lifir áfram

 

Ferill Nínu Sæmundsdóttur var magnaður. Hún sýndi ótrúlegt úthald og elju og í dag er hennar minnst sem eins áhrifamesta myndhöggvara Íslands.

Afrekshugur á Hvolsvelli er ekki aðeins minnisvarði um hæfileika hennar, heldur einnig áminning um mikilvægi þess að elta drauma sína, sama hvaða hindranir eru á leiðinni.

Gestir á Hvolsvelli eiga nú kost á að sjá þetta áhrifamikla listaverk með eigin augum og velta fyrir sér lífi og afrekum þessarar einstöku listakonu. Hvort sem styttan stendur í New York eða á Suðurlandi, heldur Afrekshugur áfram að veita innblástur og fegra umhverfi sitt.