Fara í efni

Fyrsti morgunfundur Markaðsstofunnar haustið 2021 - samantekt

Þriðjudaginn 26. október hélt Markaðsstofa Suðurlands fyrsta rafræna morgunfundinn eftir sumarfrí. Á fundinum kynntu Ragnhildur Dagbjört Pétursdóttir og Kristófer Orri Guðmundsson niðurstöður rannsóknarinnar "Kófið tæklað – Rannsókn á bjargráðum ferðaþjónustu". Ásamt því fór Dagný H. Jóhannsdóttir yfir samantekt um ferðasýninguna Vestnorden.

Þriðjudaginn 26. október hélt Markaðsstofa Suðurlands fyrsta rafræna morgunfundinn eftir sumarfrí. Á fundinum kynntu Ragnhildur Dagbjört Pétursdóttir, sem hefur klárað B.S. í ferðamálafræði og M.A. í Tourism Destination Management frá Hollandi, og Kristófer Orri Guðmundsson nemi í B.S. í ferðamálafræði niðurstöður rannsóknar "Kófið tæklað – Rannsókn á bjargráðum ferðaþjónustu". Verkefnið var unnið fyrir tilstuðlan Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála í samstarfi við Markaðsstofu Suðurlands með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna hjá Rannís. Íris Hrund Halldórsdóttir sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála hafði yfirumsjón með rannsókninni.

Til að nefna brot af niðurstöðunum þá sýndi rannsóknin að úrræði stjórnvalda og íslenskir ferðamenn hafa verið afar mikilvægir ferðaþjónustufyrirtækjunum sem rætt var við. Úrræði stjórnvalda var mikilvæg forsenda þess að fyrirtækin héldu floti. Einnig nýsköpunin sem átti sér stað hjá fyrirtækjum til að aðlaga vöruúrvalið fyrir innlenda ferðamenn. Uppbyggingarsjóður Suðurlands og Ratsjáin nýttust vel til að hugsa fram á við á erfiðum tímum. Einnig kom í ljós að ferðaþjónustufyrirtækin þurftu að vera skapandi og lausnamiðuð í hugsun til að komast í gegnum ástandið. 

Dagný H. Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri MSS, fór yfir hvernig undirbúningur, framkvæmd og eftirfylgni vegna ferðasýningarinnar Vestnorden fer fram. Þar fór hún m.a. yfir mikilvægi þátttöku samstarfsfyrirtækja þegar kemur að því að taka á móti gestum sýningarinnar og hvernig fyrirtæki geta nýtt sér þátttöku MSS á sýningunni. 

Í heildina var mikill hugur og bjartsýni með framhaldið og árið 2022, og er Ísland ennþá "heitur áfangastaður". 

Þau samstarfsfyrirtæki sem vilja nálgast upptöku af fundinum geta haft samband á netfangið info@south.is og við sendum ykkur upptökuna.

Morgunfundir Markaðsstofu Suðurlands eru fyrir samstarfsfyrirtæki markaðsstofunnar. Næsti fundur verður þriðjudaginn 9. nóvember kl 9.00 á Zoom. Á þeim fundi mun verða farið yfir markaðssetningu almennt og hvernig samstarfsfyrirtæki geta fengið meira úr samstarfinu við MSS.

Ertu búin(n) að skrá þig? Hlekkur á skráningu er hér!