Frönsk blaðamannferð á Suðurlandi – samstarfsverkefni Markaðsstofu Suðurlands, Íslandsstofu Icelandair
Eldfjallaleiðin var meginþema ferðarinnar þar sem ferðast var vítt og breytt um Suðurlandið, og voru miðlarnir handvaldir út frá eðli upplifunarinnar sem unnið var með. Að endingu voru það fulltrúar frá fjórum stórum miðlum sem fengu að njóta hluta af því sem Suðurlandið hefur upp á bjóða dagana 4.-8. október sl. Má þar fyrst nefna hinn kunna miðil Lonely Planet Frakklandi, síðan var það Courrier Cadres sem dreifist til stjórnenda í Frakklandi, ferða- og náttúrumiðillinn Geo.fr og síðast en ekki síst kvennatímaritið Marie France sem hefur milljónir lesenda í Frakklandi. Er því ljóst að umfjöllun vegna ferðarinnar mun berast til fjölmargra og ólíkra lesenda hjá franska markhópnum. Einnig var með í för fulltrúi PR skrifstofunnar, fulltrúi frá Íslandsstofu og starfsmaður Markaðsstofu Suðurlands.
Lagt var upp með að bjóða upp á góða blöndu af náttúru, menningu, gistingu og matarupplifun á svæðinu, og er svo sannarlega ekki komið að tómum kofanum hjá okkar frábæru fyrirtækjum hér á Suðurlandinu. Eins og áður sagði var heimsóknin unnin útfrá hugmyndinni um Eldfjallaleiðina, eða The Volcanic Way eins og hún kallast á ensku. Ferðaleiðin miðar að því að bjóða gestum okkar upp á að njóta fremur en að þjóta með því að staldra lengur við á hverju svæði og uppgötva hvað það hefur upp á að bjóða. Við fengum allar tegundir af veðri í ferðinni og var því frábært að geta boðið upp á spennandi afþreyingu innandyra. Viljum við þakka Caves of Hella, Lava Show, LAVA centre fyrir einstakar móttökur og virkilega góða upplifun. Einnig fengum við að heimsækja hið glæsilega Laugarás Lagoon sem áætlað er að opna síðar í þessum mánuði.

Náttúran og kraftar hennar heilluðu gestina okkar líkt og aðra sem hingað koma. Má þar t.d. nefna Skógafoss, Reynisfjöru, Gullfoss, Geysi og Þingvelli – en einn af hápunktunum var að fá tækifæri til að heimsækja Þórsmörk þar sem haustlitirinir skörtuðu sínu allra fegursta. Þökkum við félögum okkar í Volcano Huts Þórsmörk kærlega fyrir að bjóða upp á ævintýralega upplifun á þessum magnaða stað. Engu líkt að draga frá gluggunum að morgni og fá náttúrufegurðina beint í æð.



Aðrir gististaðir í ferðinni voru ekki heldur af verri endanum en hófu þær ferðina á að gista á hinu fallega og rómaða Umi Hótel þar sem væsti svo sannarlega ekki um neinn. Lokanóttina á Suðurlandinu var síðan dvalið á Hótel Geysi sem er bæði einstaklega staðsett og býður upp á góða blöndu af glæsileika og hlýju. Konurnar fengu forsmekkinn af heimsókninni strax við komuna þegar Bjarki yfirkokkur á Geysir Restaurant hýfði nýbakað hverabrauð upp úr einum hvernum og bauð upp á með íslensku smjöri, eggi og síld. Góðgætinu var síðan að sjálfsögðu skolað niður með vænu staupi af íslensku brennivíni. Var upplifuninni síðan fylgt eftir með glæsilegum veitingum á roof top sal hótelsins.
Það er gaman að segja frá því að veitingarnar í ferðinni vöktu mikla lukku og höfðu blaðakonurnar orð á því að Ísland væri sannkallaður sælkera áfangastaður, en það var upplifun sem kom þeim skemmtilega á óvart.

Maturinn var allsstaðar bæði góður og fallegur, auk þess sem víða var boðið upp á hágæða matvörur úr héraði. Átti það t.d. við um glæsilegan smakkseðil á veitingastaðnum Rótin á Stracta hótel og nýopnaðan veitingastað hjá Laugarás lagoon sem nefnist Ylja. Þar var t.d. hægt að fá tómata carpaccio sem sló svo sannarlega í gegn, og var úrvalið af tómötum fengið frá þremur mismunandi ræktendum í nágrenninu. Einn þeirra er Friðheimar en þar höfðum við fyrr um daginn fengið góða kynningu á starfseminni og bragðað á ljúffengum drykkjum. Nálægðin við hráefnið var því mjög áþreifanleg og er slík vitneskja um uppruna hráefnisins vottur um þau gæði sem í boði eru. Hamborgararnir á Smiðjan brugghús voru ljúffengir að vanda og mjög kærkomnir eftir útiveru í nágrenni Víkur. Sama má segja um virkilega góðar veitingar á veitingastaðnum á LAVA centre þar sem plokkfiskurinn sló í gegn. Voru þær ekki lengi að fá finna uppskriftir af góðgætinu til að prófa eftir að heim yrði komið. Að lokum er vert að minnast á það metnaðarfulla og fjölbreytta úrval sem íslenskir veitingastaðir bjóða upp á fyrir grænkera, en tvær úr hópnum eru grænmetisætur. Höfðu þær á orði að Ísland væri einstaklega framarlega hvað framboð á slíkum veitingum varðar enda var þeim hvarvetna boðið upp á ljúffenga og mettandi máltíð.
Við megum svo sannarlega vera stolt af þeirri glæsilegu upplifun og þjónustu sem Suðurlandið hefur upp á að bjóða og hlökkum við til að deila með ykkur þeim umfjöllunum sem heimsóknin hefur í för með sér.
Markaðsstofan þakkar öllum samstarfsaðilum fyrir sitt framlag til ferðarinnar og við hlökkum til að bjóða upp á fleiri slíkar um landshlutann enda enn af nægu að taka.