Fara í efni

Fréttir af Matarauði Suðurlands

Í lok maí og byrjun júní voru haldnar 4 vinnustofur víðsvegar um Suðurlandið með aðilum sem starfa við matvælaframleiðslu, matreiðslu og matarferðaþjónustu á Suðurlandi.

Fréttir frá Matarauð Suðurlands

Í lok maí og byrjun júní voru haldnar 4 vinnustofur víðsvegar um Suðurlandið með aðilum sem starfa við matvælaframleiðslu, matreiðslu og matarferðaþjónustu á Suðurlandi.

Hver vinnustofa var áætluð um 2 tímar, þar sem fyrri klukkutíminn fór í erindi og seinni klukkutíminn í hópumræður og spurningar. Í upphafi hverrar vinnustofu héldu Gísli Matt matreiðslumaður á SLIPPNUM og Kristín María upplifunarhönnuður erindi, auk þess sem Bjarki Þór Sólmundsson í Bragganum var með erindi í Úthlíð Biskupstungum og Hlöðueldhúsinu Þykkvabæ, Arndís Soffía frá Hótel Fljótshlíð var með matarsóunarerindi í Vestmannaeyjum og Berglind og Svavar í Havarí með erindi um sína starfssemi á Hoffelli Hornafirði.

Eftir erindin var þáttakendum skipt í hópa og þeir fengnir til að svara spurningum tengdum kostum þeirra svæðis, vannýttum tækifærum og hvers væri ábótavant í sambandi við mat og matarframleiðslu á sínu svæði. Á öllum svæðum var nefnt að bæta mætti samvinnu milli mismunandi hagaðila og bæta aðgengi að matvælum, til dæmis með matarmörkuðum og betri dreifingu innan sveitarfélags án þess að vara þurfi að fara fyrst til Reykjavíkur, betra aðgengi að ferskum fiski og vörum beint frá bónda. Einnig væri erfitt fyrir utanaðkomandi aðila að finna upplýsingar um matvæli sem eru í boði á svæðinu. Þáttakendur voru sammála um að gæði hráefnis og úrval veitingastaða væri gott, og allstaðar var náttúran og nálægðin við hana talin einstök og mikill kostur. Einnig að matvælaframleiðsla væri mikil og nálægð við framleiðendur. Hinsvegar væri hægt að fullnýta afurðir betur, nota mætti meira villtar jurtir og að markaðssetning og vöruþróun mætti vera betri.

Með þeim gögnum og upplýsingum sem fengust á vinnustofunum er kominn góður grunnur til að vinna verkefnið lengra og finna út hvert við viljum stefna með það. Niðurstöður vinnustofa sýna að mikilvægt er að halda áfram að vera með mismunandi vinnustofur með breiðum hópi hagaðila matar: fólki sem vinnur í veitingageiranum og framleiðendum sem og fólki sem hefur áhuga á mat almennt. Setja saman mismunandi vinnustofur þar sem þessir aðilar koma saman með það að markmiði að auka samvinnu og þekkingu milli mismunandi hagsmunahópa auk þess að vera með hvetjandi og fræðandi fyrirlestra.

Fljótlega munu tvö kort koma á vef Markaðsstofunnar sem sýna kortlagningu matar á Suðurlandi. Annað kortanna verður ætlað veitingaaðilum og hitt fyrir ferðamenn. Áherslur kortanna verða því eilítið mismunandi eftir því hvort lesandi er ferðamaður eða tengist framleiðslu að einhverju leiti. Einnig var stofnaður hópur á facebook sem ætlaður er fyrir alla þá aðila sem vinna tengt mat á Suðurlandi, til að skapa tengslanet og vettvang fyrir umræður tengdar mat á Suðurlandi. Hvetjum við alla hagaðila matar á Suðurlandi til að ganga í hópinn og taka virkan þátt í umræðum. Hópurinn heitir Matarauður Suðurlands.

Við þökkum öllum þeim sem hafa nú þegar tekið þátt í vinnunni og vonumst til áframhaldandi góðu samstarfi.

Frekari upplýsingar varðandi verkefnið og ábendingar varðandi kortin má senda á helga@south.is verkefnastjóra.

Verkefnið er styrkt af Matarauði Íslands.

Frá vinnustofu í Úthlíð, Biskupstungum. 

Vinnustofa SLIPPNUM Vestmannaeyjum

Frá vinnustofu í SLIPPNUM, Vestmannaeyjum. 

Vinnustofa Hoffelli Hornafirði

 Frá vinnustofu í Hoffelli Hornafirði. 

 Frá vinnustofu Hlöðueldhúsinu, Þykkvabæ.