Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Framtíðarsýn Suðurlands – Áfangastaðaáætlun DMP

Áfangastaðaáætlun DMP er heildstætt ferli sem þar sem litið er til skipulags og samþættingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað. Áætlun sem vinnur að ábyrgri þróun ferðamála þar sem tekið er tillit til: íbúa, umhverfis, fyrirtækja og ferðamanna; með sjálfbærni að leiðarljósi.
Vinnufundur á Vestursvæði
Vinnufundur á Vestursvæði

Áfangastaðaáætlun Suðurlands er unnin út frá þrískiptingu svæðisins sem dregin var fram í Markaðsgreiningu Suðurlands. Vestursvæðið samanstendur af sveitarfélögum Árnessýslu auk Ásahrepps og Rangárþing ytra, miðsvæðið samanstendur af sveitarfélögum Kötlu jarðvangs auk Vestmannaeyja og austursvæðið sem er sveitarfélagið Hornafjörður.

Frá því í á haustmánuðum 2017 hafa verið haldnir fundir með vinnuhópum á hverju svæði. Þar var tekið saman hver staðan væri á Suðurlandi í sambandi við ferðaþjónustu, hver framtíðarsýn svæðisins væri og hvaða markmiðum svæðið þarf að ná svo að framtíðarsýnin verði að veruleika.

Gögn vinnufundanna og samtöl við ýmsa hagsmunaaðila sýna fram á sterk tengsl milli náttúru, samfélags og ferðaþjónustu sem ekki er hægt að slíta hvert frá öðru. Þó svo að verið sé að vinna framtíðarsýn og áætlun út frá ferðaþjónustunni þá koma samfélagsmál mikið inn í umræður á fundum, sem dæmi þá eru bæði ferðamenn og íbúar sem nýta sér vegakerfið, heilbrigðisþjónustu og ýmislegt annað eins og síma og net.

Helstu línur

Áður en farið var af stað með vinnufundina fóru verkefnastjórar um svæðin og hittu aðila í vinnuhópum sem og aðra hagaðila til að heyra hvað það væri sem helst brynni á fólki. Úr þeim samtölum drógu verkefnastjórar fram umræðuramma til að vinna með á fyrsta vinnufundi. Umræðuramminn samanstóð af; opinberir aðilar, innviðir, náttúran, ímynd og gæði, samtal og samvinna og samfélagið.

Eftir fyrsta vinnufund voru greind þemu sem síðan hefur verið unnið með áfram. Þetta voru þrjú yfirþemu; ferðaþjónusta, samfélag og náttúra. Undir þessum flokkum voru síðan greind 12 undirflokkar.

Ferðaþjónusta

Þegar rætt var um ferðaþjónustuna var mikið rætt um þörfina á virkri stefnu og stefnumótun, skýru og virku regluverki, markvissri uppbyggingu, góðri samvinnu, mikilvægi gæða og gæðamála og síðast en ekki síst góðri upplýsingagjöf og fræðslu.

Samfélag

Undir samfélaginu var talað um mikilvægi þess að bæta og viðhalda vegakerfinu, huga að uppbyggingu á heildrænum áningarstöðum, að íbúar finni fyrir jákvæðum áhrifum af ferðaþjónustu og að grunnþjónusta sé góð þar sem einnig er tekið tillit til fjölda þeirra gesta sem eru á svæðinu en ekki aðeins íbúafjölda.

Náttúra

Í samhengi við náttúruna kom verndun náttúrunnar sterkt inn og einnig aðgengi að náttúrunni.

Framtíðarsýn

Ef framtíðarsýn fyrir ofangreind þemu á hverju svæði eru dregin saman er hægt að draga fram framtíðarsýn fyrir Suðurland í heild sinni í ferðamálum. Í janúar og febrúar verður haldið áfram að vinna þessa vinnu og verða meðal annars haldnir opnir fundir á hverju svæði þar sem íbúum gefst tækifæri að koma sínum hugleiðingum á framfæri inn í verkefnið.

Nánar má lesa um gerð áfangastaðaáætlunar á Suðurlandi á heimasíðu Ferðamálastofu og Markaðsstofu Suðurlands.

Opnir íbúafundir verða haldnir á hverju svæði í lok jan og byrjun febrúar.

  • Höfn 24. jan. – Nýheimar kl. 20.00
    • Austursvæði (Hornafjörður)
  • Vestmannaeyjar 29. jan. – Þekkingarsetur Vestmannaeyja kl. 17.00
      • Miðsvæði (Vestmanneyjar)
  • Selfoss 31. jan.- Tryggvaskála kl. 18.00
        • Vestursvæði (Árnessýsla, Ásahreppur og Rangárþing ytra)
  • Hvolsvöllur 5. feb. - Midgard kl. 20.00

         Miðsvæði (Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur)