Framlag til ferðaþjónustu 2025

Einar hóf að leiðsegja ferðamönnum á Vatnajökli árið 1994, en fjórum árum fyrir það hafði Sigurður Bjarnason, pabbi Einars, byrjað að fara með ferðamenn á heyvagni í fugla- og söguferðir í Ingólfshöfða. Voru þeir báðir frumkvöðlar á sínu sviði sem ruddu veginn fyrir hina myndarlegu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustu í Öræfasveit.
Er við hæfi að minnast á að langafi Einars, Páll Einarsson, var árið 1891 fyrsti maðurinn til að klífa Hvannadalshnúk og þá til að fylgja erlendum ferðamanni á toppinn, en ætli ferðirnar hans Einars á hnúkinn séu nú ekki að nálgast 350 talsins. Á hann þar með heimsmet hvað það varðar. Á þessum sterku stoðum hefur fyrirtæki þeirra byggst upp og taka afkomendur þeirra Einars og Matthildar nú virkan þátt í starfseminni.
Þakkar Markaðsstofan þeim kærlega fyrir sitt framlag til ferðaþjónustunnar á Suðurlandi og óskar þeim áframhaldandi velfarnaðar í sínum störfum.