Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Framlag til ferðaþjónustu 2025

Viðurkenninguna um framlag til ferðaþjónustu fyrir árið 2025 hlaut fyrirtækið Öræfaferðir – frá fjöru til fjalla, sem rekið er af hjónunum Einari Rúnari Sigurðssyni og Matthildi Unni Þorsteinsdóttur í Hofsnesi. Er sú viðurkenning veitt fyrir áralangt, ötult starf og framlag í þágu ferðaþjónustu á Suðurlandi.
Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, veitir þeim Matthildi og Ei…
Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, veitir þeim Matthildi og Einari hjá Öræfaferðum viðurkenningu fyrir framlag sitt til ferðaþjónustu 2025.

Einar hóf að leiðsegja ferðamönnum á Vatnajökli árið 1994, en fjórum árum fyrir það hafði Sigurður Bjarnason, pabbi Einars, byrjað að fara með ferðamenn á heyvagni í fugla- og söguferðir í Ingólfshöfða. Voru þeir báðir frumkvöðlar á sínu sviði sem ruddu veginn fyrir hina myndarlegu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustu í Öræfasveit.

Er við hæfi að minnast á að langafi Einars, Páll Einarsson, var árið 1891 fyrsti maðurinn til að klífa Hvannadalshnúk og þá til að fylgja erlendum ferðamanni á toppinn, en ætli ferðirnar hans Einars á hnúkinn séu nú ekki að nálgast 350 talsins. Á hann þar með heimsmet hvað það varðar. Á þessum sterku stoðum hefur fyrirtæki þeirra byggst upp og taka afkomendur þeirra Einars og Matthildar nú virkan þátt í starfseminni.

Þakkar Markaðsstofan þeim kærlega fyrir sitt framlag til ferðaþjónustunnar á Suðurlandi og óskar þeim áframhaldandi velfarnaðar í sínum störfum.