Áfangastaðaáætlanir landshlutanna kynntar í gær.
Anna Valgerður Sigurðardóttir og Laufey Guðmundsdóttir, verkefnastjórar Áfangastaðaáætlun Suðurlands, kynntu í gær verkefnið og niðurstöður þess á kynningarfundi Ferðamálastofu á Hótel Sögu.
Þetta var fjölmennur og góður kynningarfundur þar sem voru kynntar áfangastaðaáætlanir allra landshlutanna. Markmiðið með áfangastaðaáætlun er að heimamenn setji sér framtíðarsýn og móti sinn áfangastað, ákveði hvernig haga eigi stýringu ferðamanna og hvernig sé hægt að fá ferðamenn til að dvelja lengur á áfangastöðum svo að ferðaþjónusta blómstri á svæðunum.
Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri setti fundinn og í kjölfarið kynntu verkefnastjórar áfangastaðaáætlana helstu niðurstöður sinna svæða. Dagný Arnarsdóttir, sérfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti fjallaði í kjölfarið um snertifleti Landsáætlunar um innviði við áfangstaðaáætlanir og að lokum ræddi Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, um hvernig hún sér að áfangastaðaáætlanir muni nýtast í framtíðinni.
Upptökur af fundinum eru aðgengilegar á heimasíður Ferðamálastofu. Samantektina og Áfangastaðaáætlun Suðurlands má finna á www.south.is/is/dmp