Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Aðalfundur og árshátíð Markaðsstofu Suðurlands 2025

Mikið var um dýrðir á Hótel Geysi föstudaginn 16. maí þar sem ferðaþjónustan á Suðurlandi fagnaði sem, fyrst með aðalfundi Markaðsstofu Suðurlands og síðar um daginn með árshátíð ferðaþjónustunnar. Markaðsstofan bauð upp á súpu og brauð í hádeginu og í framhaldi af því setti Guðmundur Fannar Vigfússon, formaður stjórnar, fundinn. Voru þau Helgi Kjartansson oddviti Bláskógabyggðar og Árdís Erna Halldórsdóttir, verkefnastjóri markaðsstofunnar, sett sem fundarstjóri og fundarritari.
Árshátíð Markaðsstofu Suðurlands á Hótel Geysi
Árshátíð Markaðsstofu Suðurlands á Hótel Geysi

Aðalfundurinn hófst með erindi Ragnhildar Sveinbjarnardóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðurlands, en þar kom m.a. fram markaðsstofan sé brúarsmiður á milli ólíkra hagaðila í ferðaþjónustu fyrir Suðurland. Fór hún yfir stoðkerfi ferðaþjónustunnar, helstu verkefni liðins árs og þau verkefni sem væru framundan. Kynnti hún vefinn www.south.is fyrir fundargestum, en hann er hjarta starfsemi markaðsstofunnar. Kom fram í tölfræði um vefinn að það eru að meðaltali um 616 nýir notendur daglega og að fjölgun sé í flettingum á milli ára.

Markaðsstofan hefur meðal annars stýrt samstarfi við áhrifavalda, fjölmiðla og ferðaþjónustuaðila og tekið þátt í alþjóðlegum vinnustofum og sýningum. Áhersla hefur verið lögð á sýnileika Eldfjallaleiðarinnar og matarmenningu Suðurlands. Einnig var spjallmennið „Sunna“, sem byggt er á gervigreind kynnt til leiks, en mun það styðja við þjónustu á vefnum. 

Þrír öflugir frambjóðendur buðu sig fram til stjórnarsetu Markaðsstofunnar og hlutu þeir Guðmundur Fannar og Sveinn Hreiðar Jensson kjör í stjórn fyrir hönd Ferðamálasamtaka Suðurlands eftir tvær atkvæðagreiðslur. Jelena Ohm tekur sæti í varastjórn stofunnar.

Að loknum aðalfundi var haldin vinnustofa á vegum Markaðsstofunnar og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar þar sem kastljósinu var beint að stafrænni hæfni og nýtingu gervigreindar í ferðaþjónustu. Lína Björg Tryggvadóttir stýrði deginum sem hófst á kynningu frá Ólínu Laxdal og Sólveigu Nikulásdóttur frá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, um stafrænt hæfnihjól ferðaþjónustunnar og skapalón fyrir starfsmannahandbók. Bæði er aðgengilegt á vef Hæfnisetursins.

Megináhersla vinnustofunnar var á nýtingu gervigreindar í ferðaþjónustu og var það í höndum Brynjólfs Borgar Jónssonar frá Datalab, sem var með fræðslu og leiddi vinnustofu. Var meðal annars farið yfir notagildi gervigreindar, hvernig hún þróast og hvernig hún getur m.a. búið til ferðaplön, veitt þjónustu á mörgum tungumálum og stutt við samskipti, upplýsingagjöf og efnisgerð. Ferðamenn nýta gervigreindina í auknum mæli til að skipuleggja ferðirnar sínar en göngum við nú öll með „sérfræðing“ í vasanum. Gagnsemi hans fyrir fyrirtækin eyskt eftir því sem hann veit meira um þau, og er því mikilvægt að gefa eins greinargóða lýsingu á þjónustunni og unnt er til að hún birtist þínum markhóp.

Að lokinni vinnustofu var lagt af stað vettvangsferð með rútu þar sem þátttakendur heimsóttu ferðaþjónustuna í Efstadal og Laugarás Lagoon sem er nýtt baðlón sem opnar í sumar. Sáu Viking Travel frá Vestmannaeyjum og Southcoast Adventure frá Hvolsvelli buðu upp á akstur í ferðinni og eiga þau öll þakkir skilið fyrir frábærar móttökur og þjónustu.

Að síðustu var komið að árshátíð ferðaþjónustunnar á Suðurlandi þar sem gestir nutu samverunnar og góðra veitinga á Hótel Geysi. Að venju voru veittar viðurkenningar fyrir Sprota ársins, sem féll í skaut Faxa Bakery að þessu sinni, og fengu Öræfaferðir viðurkenningu fyrir áralangt framlag sitt til ferðaþjónustu á Suðurlandi. Einnig var í boði veglegt happdrætti þar sem heppnir gestir fengu ýmsa upplifun á Suðurlandi í vinning.

Þökkum við öllum sem komu að deginum og kvöldinu fyrir frábæra samveru – Áfram ferðaþjónusta á Suðurlandi!