Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Hengill

Eldstöðvakerfi Hengils er um 60 km langt og hefur verið tiltölulega virkt en það hefur gosið níu sinnum á nútíma. Hengilskerfið er staðsett þar sem Vesturgosbeltið og Suðurlandsbrotabeltið mætast. Misgengi sem myndast í goslotum einkenna svæðið. Næststærsta jarðhitasvæði Íslands er í Hengli.

Grímsnes

Eldstöðvakerfi Grímsness er á austurjaðri Vesturgosbeltisins og hefur ekki verið virkt í 7000 ár. Það er 12 km langt og allt að 5 km breitt, sem gerir það að einu smæsta og minnst virka eldstöðvakerfi landsins. Á því eru 12 litlar gosstöðvar sem hafa myndað lítil, basísk hraun og gjóskulag með takmarkaða útbreiðslu.

Langjökull – Prestahnúkur

Virkni eldstöðvakerfis Prestahnúks hefur verið þó nokkur og á nútíma hefur gosið sex sinnum. Síðast gaus þar um árið 900. Kerfið er á vesturjaðri Vesturgosbeltisins. Það er um 90 km langt og 15 km breitt og í því er megineldstöð sem einkennist af ríólíti. Þar er jarðhitavirkni og sprungusveimur, með áberandi misgengjum. Eldstöðin er að hluta undir 300 m þykkum ís.

Hekla

Hekla er eitt virkasta og þekktasta eldfjall heims. Fyrr á öldum töldu menn Heklu vera fordyri vítis. Eldstöðvakerfi hennar hefur verið mjög virkt á nútíma. Hekla gaus síðast árið 2000. Á síðustu 1000 árum hefur gosið þar 23 sinnum, sem gerir eldstöðvakerfi Heklu að þriðja virkasta kerfi landsins.

Lengd undanfarandi goshlés ræður kísilinnihaldi kvikunnar sem fyrst kemur upp (stærð upphafsfasa) og rúmmáli gosefna – sem þýðir að því styttra sem goshléið er því minna er gosið. Hekla gýs allt frá hreinum sprengigosum til hreinna flæðigosa.

Eldstöðvakerfi Heklu er á Austurgosbeltinu. Sprungusveimurinn er u.þ.b. 60 km langur og megineldstöðin Hekla rís hæst 1490 m hæð yfir sjávarmáli. Gostíðni er hæst í megineldstöðinni en eldgos þar eru venjulega blandgos gjósku og hrauns. Hraunið er kísilríkt og/eða ísúrt. Upphafsfasi Heklugosa er stuttur, þeytigos og því fylgir svo hraunrennsli.

Vestmannaeyjar

Virkni í eldstöðvakerfinu Vestmannaeyjum hefur verið lítil á nútíma. Goshrina varð á árunum 1963-73, fyrst í og við Surtsey 1963-67 og í Heimaey árið 1973. Allt kerfið er 30-35 km langt og 20-25 km breitt og myndar eyjaklasa 10-30 km frá suðurströnd Íslands, sem nær mest 283 m hæð á Heimakletti. Yngsta gosið fyrir umrædda goshrinu, er talið hafa verið í Helgafelli fyrir um 5900 árum. Eyjaklasinn samanstendur af um 15 eyjum og 30 skerjum sem eru leifar eldgíga og eyja frá síðkvarter til nútíma.

Heimaeyjargosið

Gosið í Heimaey var sprungugos, sem kom upp í jaðri bæjarins, sem síðar varð að gosi í einum gíg, Eldfelli. Allflestir íbúar bæjarins, um 5000 manns, voru fluttir í land sömu nótt og gosið hófst. Um 400 hús fóru undir gjósku og hraun. Gosið stóð í tæplega fimm og hálfan mánuð. Aðeins einn maður lést í gosinu, eitraðar gufur í kjallara húss urðu honum að aldurtila. Um tíma óttuðust menn, að hraun lokaði höfninni, en nú er höfnin bara betri en hún var fyrir gos. Heitt hraunið var nýtt til að hita upp hús í Eyjum í um 15 ár eftir að gosinu lauk og er það líklega eina hraunhitaveita sem þekkt er í heiminum.

Eyjafjallajökull

Megineldstöðin Eyjafjallajökull hefur verið tiltölulega virk á nútíma eða síðustu 8000 ár. Síðast gaus í eldstöðinni árið 2010 en þá mynduðust u.þ.b. 0,27 km3 af gjósku og 0,023 km3 af hrauni. Eyjafjallajökull er 1651 m hár og er hann á Austurgosbeltinu og telst megineldstöðin vera sjálfstætt eldstöðvakerfi. Efst í fjallinu er 2,5 km breið, ísfyllt askja. Efri hluti megineldstöðvarinnar er að mestu hulin jökli sem er allt að 200 m þykkur.

Gosmökkurinn í gosinu 2010 var úr svo fíngerðri ösku, að hann gat haft slæm áhrif á þotuhreyfla og var flugleiðum og flugvöllum um stóran hluta Evrópu lokað í um vikutíma uppúr miðjum apríl. Þó var flogið frá Keflavík til Ameríku á þessum tíma. Þetta voru mestu takmarkanir á flugi í heiminum frá seinna stríði.

Torfajökull

Virkni í Torfajökli hefur verið nokkur á nútíma. Síðast gaus þar árið 1477 á um 40 km langri gossprungu norðaustur af Landmannalaugum. Þá mynduðust Veiðivötn, Laugahraun, Námshraun, Norðurnámshraun, Ljótipollur og mikill hluti vikursandsins sem þekur stór svæði á norðurhluta Friðlands að Fjallabaki. Torfajökull er á Austurgosbeltinu.

Eldvirkni á svæðinu var mikil á síðasta kuldaskeiði Ísaldar, en þá mynduðust m.a. móbergsfjöllin Löðmundur og Mógilshöfðar, svo og líparítfjöllin Bláhnúkur, Brennisteinsalda og Kirkjufell. Líparíthraun frá síðast hlýskeiði ísaldar má m.a. finna undir Norður-Barmi og í Brandsgiljum. Í Friðlandi að Fjallabaki má finna þekkt jarðhitasvæði eins og Landmannalaugar, Hrafntinnusker, Kaldaklof, Jökultungur og Reykjadali.

Katla

Eldstöðvakerfi Kötlu, sem er að hluta hulið Mýrdalsjökli, hefur verið mjög virkt á nútíma og á síðustu 11 öldum hafa orðið þar a.m.k. 21 eldgos. Síðasta gos sem braust upp úr jökli varð árið 1918 og var það talið stórgos. Beðið hefur verið eftir gosi í Kötlu nú um skeið; einhver smágos hafa orðið, sem ekki hafa náð uppúr jöklinum.

Katla er stór megineldstöð, ein af stærstu og virkustu megineldstöðvum landsins. Kötlueldstöðin er um 30 km í þvermál og rís hæst í 1480 m hæð yfir sjó. Í miðju eldstöðvarinnar er Kötluaskjan, um 100 ferkílómetrar að stærð og allt að 700 metra djúp. Í henni er víðast 400-700 m þykkur ís. Askjan skiptist í þrjú vatnasvæði: vatnasvæði Kötlujökuls, Sólheimajökuls og Entujökuls.

Bárðarbunga

Bárðarbungukerfið hefur verið mjög virkt á nútíma og a.m.k. 26 eldgos hafa orðið þar á síðustu 11 öldum. Yngsta gosið var stórt sprungugos (rúmmál hrauns >1,5 km3) frá ágúst 2014 til febrúar 2015 í Holuhrauni norðan Vatnajökuls. Nokkur minni eldgos undir jökli kunna að hafa átt sér stað tveimur vikum fyrir aðalgosið.

Grímsvötn

Á nútíma hafa gos verið tíðari í eldstöðvarkerfi Grímsvatna en í öðrum kerfum landsins. Kerfið samanstendur af megineldstöð og sprungusveimi. Það er um 100 km að lengd og allt að 20 km að breidd. Hæsti punktur er á Grímsfjalli í 1722 m hæð. Síðast gaus árið 2011 og þá komu upp u.þ.b. 0,8 km3 af basískri gjósku. Grímsvatnakerfið er hluti af Austurgosbeltinu og liggur að stórum hluta undir þykkri ísþekju Vatnajökuls. Grímsvatnaaskjan er að mestu hulin jökli. Önnur megineldstöð eldstöðvakerfis Grímsvatna er Þórðarhyrna, þar suðvestur af. Hún hefur haft hægt um sig, gaus síðast 1903.

Öræfajökull

Öræfajökull hefur verið nokkuð virkur á nútíma. Síðast gaus meðalstóru sprengigosi árið 1727. Eldstöðvakerfi Öræfajökuls er á gosbelti utan megingosbeltanna og er eitt fárra eldstöðvakerfa á landinu sem hefur ekki sprungusveim, heldur aðeins megineldstöð. Megineldstöðin er um 20 km í þvermál og er hæst 2110 m hæð yfir sjávarmáli í Hvannadalshnjúki, sem er jafnframt hæsti tindur landsins. Eldstöðin er hulin ísi.

Hrómundartindur, Hofsjökull, Tindafjallajökull og Esjufjöll eru allt eldstöðvar á Suðurlandi, sem lítið hafa gosið á nútíma.