Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Keldur á Rangárvöllum

- Sýningar

Torfbærinn á Keldum á Rangárvöllum telst vera elsti torfbær á Íslandi og sá eini sinnar tegundar sem varðveist hefur á Suðurlandi. Auk bæjarhúsa og kirkju eru þar skemmur, smiðja,
myllukofi, fjós, hesthús, fjárrétt, jarðgöng o.fl.  

Bærinn á Keldum kemur við sögu í nokkrum af þekktustu bókum Íslendinga, m.a. Brennu-Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu en fyrsti ábúandi Keldna var landnámsmaðurinn Ingjaldur
Höskuldsson sem kemur við sögu í Njálu.  

Þar var jafnframt eitt af höfuðbólum Oddaverja. Síðasti ábúandinn í gamla bænum var Skúli Guðmundsson, sem bjó þar til dauðadags 1946. Allar götur síðan hefur bærinn verið hluti af
húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. 

Keldur draga nafn sitt af uppsprettulindum sem koma víða fram undan túninu. Bæjar- og útihúsin eru einstakar menjar um lífið fyrr á öldum.  

Kjarni húsanna er frá 19. öld en í þeim má finna eldra timbur sem skorið hefur verið í til skrauts. Á einum stað í skálanum hefur ártalið 1641 verið rist í syllu. Í mörgum bæjarhúsanna er timburgrindin jafnframt með fornu smíðalagi, svonefndu stafverki. Þá er í bæjarhúsunum að finna búshluti úr eigu fyrri ábúenda á Keldum. Úr skálanum liggja einnig jarðgöng niður að læk og hafa þau líklega verið grafin sem undankomuleið á ófriðartímum á 11.-13. öld.  

Mikil er saga Keldna og er staðurinn og fornbýlið dýrmætur hluti af þjóðararfi Íslendinga. Náttúran hefur sýnt bæjarstæðinu mildi þótt oft hafi ekki miklu mátt muna að Keldur hyrfu úr tölu byggðra býla, og eftir stæði húsalaus rúst horfin í sand. 

Opið er frá klukkan 10-17 alla daga frá 1. júní til 31. ágúst.

Hægt er að kaupa miða hér. 

Keldur á Rangárvöllum

Keldur á Rangárvöllum

Torfbærinn á Keldum á Rangárvöllum telst vera elsti torfbær á Íslandi og sá eini sinnar tegundar sem varðveist hefur á Suðurlandi. Auk bæjarhúsa og ki