Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Er langt síðan þú hefur farið út í náttúruna bara til að njóta? Hvernig væri að skilja símann eftir, ganga, hjóla, keyra, hlaupa stefnulaust og njóta.  Njóta náttúrunnar og samveru með vinum. Í Skaftárhreppi er langt frá upphafi til enda sveitarinnar og frá fjöru til fjalla en þar á milli er náttúran síkvik og alltaf von á einhverjum ævintýrum.

Gisting: https://eldsveitir.is/
Hótel, gistihús, smáhýsi, tjaldstæði og sumarhús. Fjölbreyttir möguleikar fyrir pör eða vinahópa. Hægt að leigja sumarhús þar sem hópurinn er einn eða vera á stærri hótelum sem bjóða alla þjónustu.

Afþreying:
Í Skaftárhreppi hafa verið stikaðar styttri göngleiðir nærri Kirkjubæjarklaustri til dæmis Ástarbrautin, Hæðargarðsleið um Landbrotshólana og leið inn í dalinn hjá Geirlandi þar sem er gömul rafstöð og lítil sýning sem segir sögu heimarafstöðvanna. Þeir sem vilja sögur geta lesið eldsveitir.is þar er sagt frá systrum og munkum, listamönnum og bændum, eldgosum og skiptströndum. Fyrir þá sem vilja klífa fjöll er Lómagnúpur alltaf í leiðinni. Það er skemmtileg gönguleið upp á Gjátind sem gnæfir yfir Eldgjána og Laki og Sveinstindur eru viðráðanlegir fyrir flesta.

Á Kirkjubæjarklaustri er gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs þar er sýning um mosa í öllum myndum og fleira spennandi. Á Klaustri er, sundlaug með tveimur heitum pottum, líkamsrækt og íþróttasalur sem hægt er að leigja.

Áhugaverðir staðir:
Friður og frumkraftar eru einkenni Skaftárhrepps þar sem svæðið er mjög stórt og náttúruhamfarir hafa sett mark sitt á mannlíf og náttúru.  Þeir sem eru á jeppa ættu að gera sér ferð inn að Langasjó, upp í Eldgjá, inn að Laka, inn á Mælifellssand eða niður á fjörurnar. Allir þessi staðir eru paradís ljósmyndara. Það er auðveldast að komast á fjöru við Skaftárósvita þar sem er safn sem segir sögu Skaftfellings og verslunar á þessum stað langt frá byggð.

Matur:
Margir veitingastaðir bjóða upp á grænmetisrétti eða þrírétta máltíðir með öllu tilheyrandi. Nokkrir veitingastaðir bjóða upp á rétti úr heimabyggð t.d.  bleikju, lambakjöt og nautakjöt. Svo er skemmtilegt að kaupa hráefni úr Skaftárhreppi og matreiða þegar heim er komið.

Skaftárhreppur er ævintýri fyrir þá sem vilja stjórna ferðum sínum sjálfir og fyrir þá sem vilja leggja meira upp úr því að njóta en þjóta.

Kirkjubæjarklaustur

AÐ VERA OG NJÓTA - EKKI FARA OG ÞJÓTA

Skaftárstofa – Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri
Skaftárstofa er glæsileg ný gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs við þjóðveg eitt, við Sönghól, í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Þar er jafnframt upplýsingamiðstöð fyrir Skaftárhrepp. Á meðan unnið er að nýrri fræðslusýningu um þjóðgarðinn í rýmið býðst gestum að skoða sýningu Jöklarannsóknafélags Íslands, Vorferð. Sýningin var gerð í tilefni af 70 ára afmæli félagsins og varpar meðal annars ljósi á sögu félagsins, segir frá skálabyggingum, vorferðum á jökli, sporðamælingum, rannsóknarverkefnum, jöklabakteríunni og tímaritinu Jökli. Stuttmyndir:Eldgosið í Grímsvötnum 2011Vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs Opnunartímar gestastofu Þátttakandi í VAKINN - gæða og umhverfiskerfi íslenskrar ferðaþjónustu.
Sundlaugin Kirkjubæjarklaustri
Eina sundlaugin með útsýni á foss úr heita pottinum ! Íþróttamiðstöðin á Kirkjubæjarklaustri er í miðju þorpsins þar sem einnig er Kirkjubæjarskóli á Síðu. Í Íþróttamiðstöðinni er sundlaug með heitum potti og vaðlaug, tækjasalur og íþróttasalur. Íþróttasalurinn er til útleigu. Vinsamlegast hafið samband í síma 487 4656. Opnunartímar og gjaldskrá á klaustur.is