Fara í efni

Matarauður Suðurlands er matartengt verkefni hjá Markaðsstofu Suðurlands unnið í samvinnu við Matarauð Íslands.

Suðurland er auðugt að fjölbreyttu hráefni, hvort sem er af sjó eða landi og styrkir verkefnið ekki aðeins stoðir undir ferðaþjónustuna heldur einnig landbúnaðinn og sjávarútveginn. Með því að draga enn betur fram þær matarhefðir sem eru og hafa verið á Suðurlandi, ásamt því að kortleggja þá matvælaframleiðslu sem á sér stað á Suðurlandi, er komin heildræn mynd yfir þann fjölbreytileika matarauð sem landshlutinn hefur upp á að bjóða. Með kortlagningu á þessu er hægt að vinna meira og markvissara í vöruþróun og nýsköpun í matvælaframleiðslu sem og ímyndaruppbyggingu svæðisins.

Kort af veitingastöðum á Suðurlandi:

Kort af matvælaframleiðendum á Suðurlandi:

Matarhefðir
Landfræðileg lega landsins mótar að mestu leiti matvælaframleiðslu Íslands. Hér er temprað rakt sjávarloftslag og mikill munur á birtu eftir árstíðum. Landkostir eru misjafnir eftir svæðum, til dæmis vegna veðurfars, fjarlægð frá sjó og aðgengi að undirlendi og skapar því hverju svæði sérstöðu bæði í matarræði og framleiðslu. Einnig hafa hlunnindi, hefðir og saga þar mikið að segja.

Til dæmis hafa verið bökuð hverabrauð á hverasvæðum í Árnessýslu, hvönn og melur nýtt í Skaftafellssýslu og fýlaveiðar undir Eyjafjöllum og í Mýrdal.

Margir tengja ákveðin matvæli við sérstaka staði, til dæmi humar og Höfn eða lundi og Vestmannaeyjar. Nú til dags er reynt að ýta enn meira undir slíkar hefðir með matarhátíðum. Þannig er hægt að efla ákveðnar hefðir og draga fram þá matvælaframleiðslu sem er á hverjum stað og mikilvægi hennar. Það getur verið erfitt að gera út ákveðnar matarhefðir og hráefni á hverju landssvæði með tilliti til matarferðamennsku vegna þess að oft er meiri breytileiki innan landshluta heldur en milli þeirra. En mögulega væri hægt að tengja saman marga þætti til að skapa sérstöðuna, til dæmis tengja sögur af skipsströndum og áhrif erlendra sjómanna (koníakslegin hreindýralifur og bygg-bisquit) og selja jöklakartöflur, humarolíu og reyktan ál í Hornafirði.

Breytt matvælaframleiðsla og neysla 
Á síðustu öld hefur íslensk matvælaframleiðsla og neysla breyst mikið, margir hefðbundnir réttir dottið út og nýjir komið inn. Framboð er orðið allt annað og fjölbreyttara áður fyrr, samgöngur og varðveisla matvæla betri og breytingar á búsetu gerir það að verkum að erfitt er að tengja margar hefðir við eitt ákveðið svæði.  Ef endurvekja á einhverjar af þessum hefðum þarf að athuga vel neyslumynstur og hvernig smekkur neytenda hefur breyst. Því þyrfti mögulega að aðlaga og skapa nýjar hefðir.

Matarauður Gullna hrings svæðisins
Á Gullna hrings svæðinu er landbúnaður stundaður mikið þar sem mikil hefð er fyrir mjólkurframleiðslu, grænmetisrækt þar sem jarðhitinn er nýttur og kjötframleiðsla, sjómennska er stunduð út frá Þorlákshöfn og veiði er í ám og vötnum. Árborg, Flóinn og Ölfus  Sjórinn og landbúnaður Við Þorlákshöfn hefur ávallt verið besti náttúrulegi lendingarstaður á suðurströndinni og því ætíð verið útræði þaðan. Stutt er þaðan á fengsæl fiskimið og var oft róið á 30 – 40 skipum frá Þorlákshöfn og dvaldi margt aðkomufólk þar yfir vertíð. Enn þann dag í dag er höfnin í Þorlákshöfn mikilvægasti hlekkurinn í atvinnustarfsemi bæjarins. Þar er einnig veitinga- og verslunarrekstur sem bæði ferðamenn og heimamenn eru duglegir að nýta sér. Rófur eru ræktaðar á Hrauni í Ölfusi og þar er einnig stunduð sölvatekja. Ásamt því að sölvatekja hefur verið í Ölfusinu hafa söl verið nytjuð í Flóanum frá aldaöðli þar sem margir höfðu atvinnu á sölvatínslu. Kom fólk meðal annars austur úr Skaftafellssýslum til að kaupa söl. Eyrarbakki var mikilvægur verslunarstaður fyrir allt Suðurland á öldum áður og útgerðarstöð. Um tíma var Eyrarbakki stærsti bær landsins, stærri en Reykjavík, og leit lengi út fyrir að Eyrarbakki yrði höfuðborg Íslands. Nú hefur atvinnan þróast í þjónustustörf og iðnað. Mikil fiskvinnsla og útgerð hófst í byrjun síðustu aldar og störfuðu þrjú fiskvinnslufyrirtæki þar fram undir síðustu aldamót. Höfnin á Eyrarbakka var aflögð árið 1988 og síðan þá hefur mikilvægi sjávarútvegs fyrir afkomu íbúenda minnkað til muna. Sama má segja um Stokkseyri, blómatími sjósóknar þar hófst rétt fyrir aldamótin 1900 með uppskipunarbryggju og almennilegri bryggju um miðja öldina. Vélbátar voru helsta atvinnutæki þorpsins. Eftir að Óseyrarbrú var tekin í notkun hefur höfnin verið lítið notuð eins og á Eyrarbakka. Hraðfrystihús Stokkseyrar, síðar þekkt sem Menningarverstöðin þegar hraðfrystihúsið var aflagt og húsið nýtt undi listir og menningu, setur stóran svip á ásýnd bæjarins. Í og við Ölfusá voru stundaðar veiðar á ál. Suðurlandið hentar vel til veiða á ál og er hægt að veiða hann í gildrur. Álaveiðar eru bannaðar síðan sumarið 2019.   Á síðustu öld hefur margt breyst í Sandvíkurhreppi og þá helst búskaparhættir. Sauðfjárræktin efldist undir lok 19. aldar. Um 1890 voru seldir sauðir á fæti til Englands en lagðist af eftir 6 ár. Eftir það voru búskaparárin erfið þangað til að bændur fóru að stofna rjómabú. Sláturfélag Suðurlands var stofnað 1907 og gerðust flestir bændur stofnendur. Eftir að rjómabúin hættu fóru menn að hafa mest út úr því að selja haustlömb til slátrunar. Eftir að Mjólkurbú Flóamanna var stofnað 1929 fóru bændur að selja kúamjólk þangað. Garðrækt var aðeins fyrir heimilið en gulrófnarækt var á nokkrum bæjum. Eins og á flestum stöðum hefur hefðbundinn landbúnaður verið á undanhaldi en þau bú sem eru eftir stækka. Flest eru kúabú, fjárbú eru á undanhaldi, einn er í kjúklingarækt, eitt svínabú og einn bóndi er með æðarvarp og laxveiði. Í upphafi 20. aldar voru rjóma- og smjörbú mörg á Íslandi. Rjómabúið á Baugsstöðum var samvinnufélag og mikilvægur hluti af hagkerfi bænda í kring. Blómaskeið þess var frá aldamótum til 1920 og var starfrækt til 1952. Framleitt var smjör og ostar úr rjóma sem bændur komu með á hestum og var megnið af framleiðslunni selt til útlanda og til Reykjavíkur. Á Selfossi eru öflugar afurðavinnslur sunnlensks landbúnaðar og þjónusta við hann. Þar er til dæmis stærsta mjólkurbú landsins og sláturhús, Sláturfélags Suðurlands með úrbeiningu og pökkunarstöð. Mikla nýsköpun og vöruþróun við vinnslu landbúnaðarafurða á Selfossi má eflaust þakka áratuga reynslu, þekkingar og fagmennsku á svæðinu. Milli laxveiðiánna Hvítár og Þjórsá liggur sveitarfélagið Flóinn. Eitt af mikilvægustu framfaraskrefum Flóans á síðustu öld var Flóaáveitan. Hún náði yfir 12 þúsund hektara lands og boðaði mikil umskipti í búskap og atvinnuháttum á svæðinu. Landbúnaður er enn helsta atvinnugrein svæðisins með vaxandi ferðaþjónustu. Hveragerði Ylrækt Um 1929 fór þorpið Hveragerði að myndast eftir að samvinnufélag um Mjólkurbú Ölfusinga var stofnað. Á sama tíma hófst ylrækt og eru fjölbreyttar tilraunir til nýtingar varmans einkennandi fyrir sögu bæjarins. Að hafa jarðhitasvæði í miðjum bænum er mjög einstakt á landsvísu og jafnvel þó víðar væri leitað. Dæmi um nýtingu jarðhitans má nefna Þangmjölsverksmiðju þar sem þangmjöl var framleitt og Garðyrkjuskóli ríkisins á Reykjum útskrifaði fyrstu nemendur árið 1941. Margar garðyrkjustöðvar risu á næstu árum og fóru Reykvíkingar að venja komu sínar til Hveragerðis til að kaupa afurðir garðyrkjubænda. Árið 1946 hóf Hverabakarí starfsemi sína sem heitir nú Almar bakari. Enn þann dag í dag er gufa nýtt til baksturs í Hveragerði. Áður fyrr voru hverir litnir hornauga enda slysagildrur fyrir menn og fé. Erlendir garðyrkjumenn sáu þó möguleika í að nýta heita vatnið og upp úr 1900 voru einstaklingar og áhugafélög farin að gera ýmsar ræktunartilraunir. Stofnun Garðyrkjuskóla ríkisins hraðaði þróun garðyrkju á Íslandi, þar sem mikilvæg starfsemi er í gang, enda byggist meðal annars okkar framtíð á að nýta þær auðlindir sem landið hefur upp á að bjóða. Garðyrkjuskóli ríkisins sem er nú undir Landbúnaðarháskóla Íslands er enn starfræktur á Reykjum. Hann er opinn almenningi sumardaginn fyrsta hvert ár og er þá hægt að skoða framandi hitabeltisgróður eins og kakóplöntur og bananaplöntur. Bananauppskeran er um tonn á ári sem má ekki selja og njóta því starfsmenn og nemendur góðs af henni.  Skyrgerðin í Hveragerði var sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi þegar hún var reist 1930. Var skyr aðalframleiðsluvaran en einnig var fyrsta jógúrtin á Íslandi framleidd þar, nefndist heilsumjólk. Í dag er enn verið að framleiða þar skyr upp á gamla mátann og er það nýtt í matargerð, bakstur og í blöndun á drykkjum hjá veitingastaðnum Skyrgerðin. Auk grænmetisframleiðslu og blómaframleiðslu er eitt stærsti ísframleiðandi landsins staðsettur í Hveragerði, fjölskyldufyrirtækið Kjörís sem hóf starfsemi 1969. Uppsveitir Árnessýslu Jarðhiti, landbúnaður og lífræn ræktun Í uppsveitum er mikið um jarðhita og er hann forsenda helstu þéttbýliskjarna á svæðinu. Vitundarvakning um ylræktun á Íslandi og uppbyggingin á garðyrkjustöðvum hófust á 4. áratugi síðustu aldar og er garðyrkja stærst á Suðurlandi, eða um 67% ef horft er til rekstrartekna. Hekluvikur er einnig mikið notaður, jarðhitinn og vistvæn framleiðsla þar sem engin eiturefni eru notuð og býflugur frjóvga plöntur. Daglega eru sendar út ferskar vörur til neytenda. Á árum áður voru hverir notaðir til eldamennsku og til að hita kaffi. Enn má sjá hleðslur við hveri þar sem var eldað og bakað og voru þá notuð sérhæfð áhöld til þess. Snemma fóru menn að nýta hitann til húshitunar, gróðurhúsa og til að baða sig, mikil baðmenning á svæðinu. Flúðir hefur byggst upp vegna jarðhitans, þar er elsta sundlaug á Íslandi og var baðstaður í aldaraðir á undan. Flúðaskóli var stofnaður þar sem hægt var að nýta hveri til að elda fyrir skólabörn. Mesta svepparækt Íslands er á Flúðum. Flúðasveppir rækta lífræna sveppi úr íslensku hráefni. Margar garðyrkjustöðvar eru á Flúðum, fjölskyldufyrirtæki sem stunda bæði ylrækt og útiræktun á grænmeti. Byggðakjarnarnir Laugarvatn, Laugarás og Reykholt byggðust einnig upp vegan jarðhitans. Héraðskólann var ákveðið að staðsetja á Laugarvatni vegna jarðhitans sem þar er, og þaðan þróaðist þorpið í menntasetur með öll skólastig. Hverabrauð er bakað í hvernum niður við vatnið. Einnig er veitt í ám og vötnum í nágrenninu. Í Reykholti var hver virkjaður og byggð reis upp í kringum hann, upp úr 1945 fóru garðyrkjustöðvar að rísa þar. Í Laugarási byrjaði einnig uppbygging um 1946 vegna jarðhitans. Við Laugarvatn er veiði í ám og vötnum mikil í grenndinni og einnig er jarðhiti. Þar er til dæmis bakað hverabrauð.   Upphaf lífrænnar ræktunar á Íslandi hófst á Sólheimum í Grímsnesi og eru enn einn stærsti framleiðandi á lífrænu grænmeti í glerhúsi á Íslandi. Í Skaftholti er einnig sjálfbær lífræn og lífefld ræktun þar sem einstaklingar með þroskahömlum búa. Þar er kúabú, hænsnabú og fjárbú. Einnig er fjölbreytt grænmetisræktun og unnar afurðir t.d. ostagerð og jurtavinnsla. Í Þingvallavatni má finna urriða og 4 tegundir af bleikju. Vatnið er vinsælt til veiða og á marga fastagesti. Í Skálholti er boðið upp á miðaldamálsverði: krydduð vín, grænmeti, gæsasúpa, svartfugl o.f. Þar sem fólk notaði ekki skeiðar á miðöldum er súpan drukkin úr skálum og þjónar klæða sig í miðaldastíl. Rangárþing ytra og Ásahreppur Veiði í ám og vötnum, hrossakjöt og kartöflur Ásahreppur hefur fjölbreytta náttúru, mýrlent með ásum og holtum á milli þar sem bæjir standi í þyrpingum. Landbúnaður, verslun og þjónusta eru aðal atvinnuvegir og stærsta varpland grágæsa á Íslandi er við Frakkavatn. Veiðivötn á Landmannaafrétti er vinsæll staður fyrir stangveiði. Þangað fara þúsundir veiðimanna árlega og eru vötnin gjöful af bleikju og urriða. Hella er ungur kaupstaður sem var byggður í kringum þjónustu við landbúnað og verslun. Hella stendur við eina bestu laxveiðiá landsins, Ytri Rangá. Á Hellu eru nokkrar matvinnslur: Reykjagarður/Holtakjúklingur framleiðir álegg, pylsur, eldaðar afurðir, heita rétti, frosinn og ferkan kjúkling. Fiskás er fiskbúð og vinnsla á Hellu. Var stofnað árið 2010 og vinnur aðallega með afurðir úr lax enda milli tveggja mikilla laxáa, Ytri- og Eystri- Rangár. Fiskás þjónustar veiðimenn og kaupir einnig ferskan fisk á markaði fyrir fiskbúð sína. Villt og alið er kjötvinnsla sem úrbeinar og pakkar kjöti af nautgripum, hrossum, lömbum og hreindýrum. Selja einnig vörur úr nágrenni, til dæmis svínakjöt frá Korngrís í Laxárdal Sláturhúsið Hellu Í kringum Gunnarsholt var mikill sandblástur hér áður fyrr. Eftir mikla baráttu við sandinn fór Gunnarsholt í eyði árið 1925. Sandgræðslan keypti bæinn ári seinna og fór strax í að girða og reyna að stöðva sandfok. Á fjórða áratug var búið að græða upp mela og sanda og hefur svæðið þungamiðja í landgræðslustarfi í Gunnarsholti. Nú eru þar stór og flöt tún með skjólbeltum og hægt að leiga þar land fyrir kornrækt. Í Gunnarsholti var fyrsta holdanautabú á Íslandi. Þykkvibær Þykkvibær er elsti þéttbýliskjarni á Íslandi og á sér mikla matarsögu og menningu. Þykkvabæjarþorpið mun hafa risið upp vegna þess, að útræði var gott úr Rangárósi og einnig hafa góð hlunnindi haft áhrif á sókn fólks þangað. Af hlunnindum má nefna sel, silungsveiði og reka. Þykkbæingar voru þekktir fyrir að borða hrossakjöt sem þótti hneykslanlegt og ókirkjuhæft en nágrannabændur ráku stóð til slátrunar í Þykkvabæ og fengu heimamenn að hirða kjötið. Oft var svo mikið af kjöti að ekki var nóg salt til að geyma það svo að ýldulykt var í kotunum en fólk át kjötið eins lengi og það hafði einhverja lyst á því. Alltaf var erfitt að stunda sjó frá Þykkvabæ vegna opins hafsins en síðast var farið þaðan á árabát árið 1955. Þykkbæingar notuðu melinn og bjuggu til þykkan graut úr því sem þeir kölluðu deig. Það kom í staðinn fyrir brauð, var sett á disk og smjör yfir. Var talið ljúffengt, saðsamt og hollt. Þykkvibær er nú þekktastur fyrir kartöfluræktunina. Hún hófst árið 1934 og tók seinna við af öðrum búskap. Bændur bjuggu sér til heimasmíðuð verkfæri til niðursetningar. Tunna var tekin og tréstautar festir á með jöfnu millibili og ekið um akurinn eins og með hjólbörur. Má segja að kartöfluræktunin sé helsti menningararfur Þykkbæinga. Sendni jarðvegurinn og flatlendið hentar vel til kartöfluræktunar. Einnig eru minni líkur á næturfrosti vegna hærri lofthita við strandlengjuna. Auk þess hentar vel að vera ekki fjarri höfuðborgarsvæðinu og helsta markaðnum. Kartöfluverksmiðja Þykkvabæjar var stofnuð 1981 og var leið til að nýta kartöflur sem annars hefði verið hent vegna offramleiðslu. Dreifing og sala fer fram í Garðabæ en verksmiðjan starfar enn í Þykkvabæ og er nú í eigu Sóma ehf. Í Þykkvabænum eru framleiddar skræður úr þurrkuðu hrossakjöti. Álfur brugghús er staðsett í Kópavogi en bruggar bjór úr íslensku kartöfluhýði og byggi. Um helmingur hráefnisins er hýði frá Þykkvabæjarkartöflum. Frá árinu 2005 hafa Þykkbæingar haldið Kartöfluballi sem kom til í kjölfar þess að fella varð niður þorrablót á staðnum vegna lítillar þátttöku.
Matarauður Kötlu jarðvangs & Vestmannaeyja
Á svæði Kötlu jarðvangs og Vestmannaeyja er hefð fyrir landbúnað ýmiskonar, kornrækt, ræktun rótargrænmetis og sjávarútvegur sem dæmi. Helstu sérkenni svæðisins er nýting á fugli og eggjatínsla. Rangárþing eystra Hvolsvöllur er aðal þéttbýli Rangárþings eystra og byggðist upp sem miðstöð fyrir þjónustu við landbúnað á seinni hluta síðustu aldar. Þar búa nú um 1000 manns og eru aðal atvinnuvegir þjónusta við landbúnað, verslun og ferðaþjónusta. Einnig er Sláturfélag Suðurlands með eina af stærstu kjötvinnslu landsins þar. Hún var flutt austur úr Reykjavík árið 1991. Smáratún í Fljótshlíð er eitt af stofnfélögum Beint frá býli. Ýmsar afurðir er þar unnar t.d. sultur úr ýmsum berjum og rabarbara, brauð og flakökur, kindakæfa, egg úr landnámshænum, lambakjöt, kartöflur og gulrófur og nautakjöt. Smáratún rekur einnig hótel og veitingastað sem eru svansmerkt og eru nú að fara af stað með “zero waste” prógram. Vísi Gísli sem var uppi á 17. öld bjó í Fljótshlíð , var fyrstur Íslendinga til að stunda náttúrufræðinám í háskóla, frumkvöðull í garðækt á sinni öld og frá honum kemur kúmen sem nú vex villt í Fljótshlíð. Í Fljótshlíð var á tyllidögum sett kúmen í kaffi, pönnukökur og rabarbarasultu. Þar voru einnig ræktaðar gulrófur, sendinn og góður jarðvegur fyrir neðan veg. Undir Eyjafjöllum hefur fýlaveiði verið stunduð. Sú veiði sem er stunduð í dag er frekar til að viðhalda gömlum venjum heldur en að fólk hafi fjárhagslega hagsmuni af henni. Áður fyrr sigu menn í björg en nú til dags fara menn gangandi eða keyrandi og rota fuglinn sem á sléttunum undir björgunum. Kornrækt hefur verið stunduð á Íslandi frá landnámsöld og má finna um helming allra kornakra landins á Suðurlandi. Eyjafjöllin eru talin eitt besta svæðið til kornræktar auk láglendis Rangárvallasýslu. Á Þorvaldseyri hefur verið ræktað bygg, hveiti og repja síðustu ár, og úr repjunni hefur bæði verið gerð olía til manneldis sem og lífdísill. Kálgarðar voru vinsælir á öldum áður og lengi voru aðeins gulrófur ræktaðar. Þær þóttu mjög of góðar fyrir almúgan. Gulrófufræ fengust frá útlöndum. Vestmannaeyjar Vestmannaeyjar og sjávarbjörgin í kring eru með töluvert fuglalíf, ein stærsta lundabyggð heims er í Vestmannaeyjum, gjöful fiskimið eru allt í kring og fjöldi hvala. Eyjarnar hafa myndast við gos í sjó og jarðvegur er víða grunnur og því ekki góður fyrir túnrækt, víða er grýttur jarðvegur og stutt í hraun. Nokkrar sjaldgæfar plöntur vaxa m.a. í Herjólfsdal. Mataræði Vestmanneyinga var betra og fjölbreyttara en hjá öðrum sjávarþorpum hér áður fyrr þökk sé þeirri miklu matarkistu sem eyjarnar hafa upp á að bjóða. Mataræði var misjafn eftir árstíðum og varð einhliða á vertíð og vori. Almennt matarhæfi á seinni hluta 19. aldar: Fyrst var kaffi drukkið eða grasavatn. Morgunmatur var kl. 10 og samanstóð af saltfiski, trosfiski, ýsu, keilu (söltuð og verkuð), löngu, ufsa eða skötu. Miðdegismatur var kl 15, saltaður fugl eða nýr að sumri til, mjólkurgrautur, soðinn fiskur, súrt slátur og súr hvalur. Baunir heitar eða kaldar og bankabyggsgrautar. Mikið var borðað af harðfiski með smjöri. Kvöldmatur var kl 19. Fuglasúpa með söltuðum lunda eða fýl, oftast fýl með söxuðum hvannablöðum.  Þunnur mjólkurgrautur og var malað bankabygg oft sett út á. Á kvöldin var aftur drukkið kaffi. Söl voru borðuð og fjörugrös sett í brauð. Sauðakjöt og kaggar af söltuðum fýl og lunda voru vetarforðinn. Nýr fýll var soðinn í bútung (saltaður/þurrkaður óflattur), sjóða fuglinn með öllu innvolsi og þótti bestur þannig. Reyktur lundi og fýlsungi voru til hátíðarbrigða. Fýll var ekki mikið reyktur því þá nýttist ekki feitin af honum. Hausinn var einnig borðaður. Súlur voru einnig borðaðar, haus og vængir sviðnir og súlublóðmör úr lifrinni með rúsínum og kryddi. Hvönn og hvannarætur voru mikið notaðar, margir voru með hvannagarða. Um 1850 hófst kartöflurækt með blárauðar kartöflur frá Skotlandi. Smjörið kom af landi og var keypt með skreiðarvörum. Á sunnudögum var saltkjöt með kartöflum eða kjötsúpur, baunir og kjöt. Á haustin var nýtt kjöt, soðið eða steikt. Einungis sjómenn fengu brauðbita með morgunkaffinu. Seint á 19. öld fóru sjómenn að hafa með sér sjóbita með sér á sjóinn, þykkar rúgbrauðssneiðar eða rúgkökur með kjöti eða öðru áleggi. Einungis voru kökur og sætabrauð á hátíðisdögum. Búðarbrauð: hagldabrauð (kringlur), skonrok (hart brauð sem geymist lengi) með sírópi var haft með kaffinu. Fýlafeitarbræðingur var búinn til að feitinni sem rann af fýl við suðu, ekki mörinni sjálfri. Var einkum notað fyrir börn og unglinga. Kútmagar: Mjöl- eða lifrarmagar með tómri lifur eða mjöli hnoðað saman. Hrogn, greppar og lifraðir hausar voru í miklu uppáhaldi, sérstaklega nýir lúðuhausar og rafabelti af lúðu. Sundmagar voru súrsaðir og þorskhausar signir. Svil úr þorski voru notuð en þótti lélegur matur. Af fiski var yfirleitt nóg svo hver gat borðað af honum einsog hann vildi. Mörgum þótti hanginn eða visaður fiskur betri en nýr. Þorskur var ekki notaður til matar þar sem hann var aðal útflutningsvaran. Árstíðir Á vertíð var nýr fiskur þ.á.m. lúða. Á sumrin veiddist soðfiskur, stútungur og keila, lúða, skarkoli o.fl. Meðlæti voru gulrófur og kartöflur en þær var farið að rækta eftir miðja öld. Einnig soðkökur úr rúgi eða hveiti og hrognakökur sem voru gerðar úr hrognum og mjöli. Soðkökur voru einnig borðaðar með saltkjöti. Bræðingur var notaður sem viðbit (tólg og lýsi). Egg voru til framan af sumri, voru sett í salt og skömmtuð til manna meðan nóg var til í morgun- eða miðdegisverð, 3-4 egg á mann. Einnig voru gerðar eggjakökur. Veislur: Eftir fýlaferðir var veisla fyrir veiðimennina. Reyktur fýlsungi, rúsínugrautur með sírópi, kjötsúpa með nýju kjöti eða kindasteik. Óspart kaffi, brennivín og koníak út í. Julsaveisla var svipuð eftir lundaveiðar haldin af sókningsmönnum sem ferjuðu veiðimenn í eyjarnar, og héldu veiðimennirnir sjálfir lundaveislu með góðum veitingum og víni. Kæst skata á sumrin og lundi var saltaður í tunnu. Hundasúrur voru sem salat með fiski og jafnvel stráð púðursykri yfir. Ekki þurfa Eyjamenn að gæða sér á súrsuðum eða reyktum mat í dag nema þá helst til að smakka á gamallri hefð. Í Vestmannaeyjum eru fjölmargir veitingastaðir þar sem boðið er upp á fiskmeti, kjöt, grænmeti og annað lostæti. Slippurinn hefur verið í Magna húsinu síðan 2012. Þar fær fyrri starfsemi hússins að njóta sín. Vinna með smábirgjum og framleiðendum, sjómönnum og bændum í nærumhverfi. Tína jurtir og sjávargrös og rækta það sem erfitt er að fá annarsstaðar. Staðbundin og árstíðarbundin matargerð þar sem matseðilinn breytist í hverri viku eftir því hvaða hráefni eru til. Gamlar aðferðir eru tvinnaðar við nýjar og ferskar og vilja gera íslenskum hversdagslegum hráefnum hátt undir höfði. GOTT er veitingarstaður sem leggur áherslu á heilsusamlegan mat þar sem allt er lagað frá grunni og notast er við ferskt og heilnæmt hráefni. Einsi Kaldi er veitingastaður sem rómaður er fyrir ljúffenga sjávarrétti ásamt öðru staðbundnu hráefnum. Mýrdalshreppur Byggðin í Vík myndaðist í kringum verslun sem hófst 1884 þegar hófst útræði, upp- og útskipun. Flestir sem fluttu til Víkur á fyrstu árum voru bændur úr nágrenninu sem héldu til hluta af bústofninu sínum, sauðfé sem fékk beitiland í Vík sem og flest heimili áttu sína kú til mjólkurframleiðslu. Voru kýrnar reknar saman í og úr þorpi kvölds og morgna. Mýrdælingar voru háðir húsdýrum sínum þar sem flest öll matvælaframleiðsla var heima fyrir. Mjólk og mjólkurafurðir voru unnar heima og sauðakjöt verkað. Bændur fóru í verstöð að hausti, til Reykjavíkur eða jafnvel á Snæfellsnes. Hlunnindi voru af því að vera staðsett við sjó og lífsnauðsynlega björg í bú. Mýrdælingar fóru að veiða fýl uppúr 1830 enda mikið af fýl í Mýrdalnum. Fyrst var háfur notaður eða reynt að skjóta fýlinn niður af færi. Einnig var reynt að klífa björgin sem var hættulegt enda menn með frumstæðan búnað við það. Fram á fyrsta áratug síðustu aldar var sigið eftir fugli, bæði vetrarfýl og ungum í lok sumars. Bjargsig var erfitt og mannfrekt. Oft voru svartfuglsegg tínd í leiðinni. Enn þann dag í dag er sigið eftir eggjum en nú eru einungis fýlsungar veiddi í lok sumars, 1 – 2 vikur. Þá eru ungarnir eltir og rotaðir. Fýllinn er reittur, sviðinn og saltaður í tunnur. Lundi var veiddur í háf um margra ára skeið, fyrst var hann grafinn upp úr holum sínum en seinna notaður háfur. Allt fram á 4. tug síðustu aldar var útræði stundað í Mýrdal. Róið var frá Dyrhólaey, Reynisfjöru, Pétursey og Maríuhliði við Jökulsá á Sólheimasandi. Útræðið var mikilvægt til að veita björg í bú. Engin höfn er á svæðinu og lendingarskilyrði voru erfið svo hættulegt og veiðar stopular. Veiðar voru mannfrekar því sex og áttæringarnir voru þungir og brimlendingarnar hættulegar. Skaftárhreppur Skaftárhreppur er staðsettur á suðurströnd Íslands milli tveggja sanda, Mýrdalssands og Skeiðarársands. Eini þéttbýlisstaður svæðisins er Kirkjubæjarklaustur. Af bæjum sem áttu land að sjó voru hlunnindi af sel, silungsveiði og reka. Eftir mikil brimveður fóru bændur oft á ströndina að ná í fisk sem brimið hafði kastað á land. Fiskinn þurfti að sækja áður en fugl komst í hann. Margar jarðir í Vestur Skaftafellssýslu voru landmikilar og hentuðu því vel til sauðfjárræktar. Bændur tóku þátt í sauðasölunni til Bretlands í gegnum Stokkseyrarfélagið. Langt var að fara í verslun fyrir Skaftfellinga, annars vegar til Eyrarbakka eða á Papós til að sækja vörur. Eftir að verslun hófst í Vík styttis ferðalagið töluvert og árið 1908 var farið að flytja vörur að Skaftárósi. Skaftártunguosturinn: Mjólk hituð svo verður nýmjólkurvolg og hleypir látinn í. Hrært í við hægan eld þegar búið er að hlaupa. Fyrst hægt en svo hratt þangað til að hlaupstykkin voru orðin smágerð líkt og mylsna. Þá var potturinn tekinn af eldinum og breitt yfir hann og látinn standa í 5 – 10 min. Osturinn hnoðaður saman og látinn í ílát í sólahring. Tekinn og saltaður og lagður í saltpækil og svo þurrkaður upp. Geymdur á þurrum og svölum stað án dragsúgs. Daglega snúið og nuddað af honum með deigum klút. Tungukonum fannst þær ekki fá almennilega osta eftir að hætt var að nota sauðamjólk. Álaveiðar voru í Landbroti og Meðalland og þykir herramannsmatur víða um heim. Notaðar voru álagildrur við veiðarnar en þær voru mestar um 1960. Lengi var hægt að fá ál hjá Sægreifanum í Reykjavík enda var eigandinn Kjartan Meðallendingur. Állinn var saltaður eða reyktur og roðið notað í skóþvengi. Íslendingar voru ekki hrifnir af álnum og því var mest af honum flutt út. Ekki sést jafn mikið af ál nú einsog áður og lítil skipulögð veiði verið. Getur það verið vegna tilflutnings sands og framræslu á mýrum. Enn er þó hægt að sjá ál í Meðallandi og Landbroti ef vel er leitað. Melur var nýttur til matar í hreppnum og lengst af í Meðallandi og Álftaveri. Úr korninu var bakað brauð, kökur og grautur. Melur er nú til dags notaður í landgræðslu þar sem eru sandfok eða mikill uppblástur. Það væri gott að viðhalda gömlu skaftfellsku aðferðinni við vinna melinn og þróa aðferðir til að nýta hann til matar eða handverk í dag. Í lummum var allskonar korn og grjónagrautsafgangar nýttir og steiktar á pönnum. Skaftfellingar gerðu lummur úr mélmjöli. Skúmseggjaleit og fýll var veiddur í Álftaveri. Mikið af sjóbirting er í fljótunum, Kúðafljóti, Tungufljóti, Eldvatni og Grenlæk. Á Klaustri er bleikjueldi, Klaustursbleikja. Á Seglbúðum hefur verið handverkssláturhús og á Borgarfelli er kjötvinnsla. Lélegar upplýsingar eru til staðar um stöðu þeirra, hvort séu enn í gangi eða ekki.   Á Sandhól í Meðallandi hafa ýmsar nytjajurtir verði ræktaðar undanfarið, til dæmis hafrar, bygg og repja. Hægt að er kaupa repjuolíu, bygg, hafra og nautakjöt frá þeim.    Grasa Þórunn var grasalæknir og ljósmóðir, fædd í Skaftártungu og ljósmóðir í Fljótshverfi. Hún þekkti vel til plantna og hvaða plöntur var hægt að nota til ýmissa lækninga. Á Maríubakka var ræktuð rófa sem var gjörólík örðum norrænum rófustofnum. Fræ var fengið frá Kálfafelli og hafði afbrigðið aldrei farið úr sveitinni. Í Skaftafellssýslu var útbúin magálakæfa. Magálar voru soðnir með sem minnstu vatni og flotið tekið ofan af. Eitt lag lagt ofan á annað og salt á milli. Flotinu hellt yfir í lokin. Farg sett ofaná og geymt á köldum stað. Á þessum slóðum tíðkuðust rúllupylsur ekki.
Matarauður Ríki Vatnajökuls
Austur Skaftafellssýsla hefur ætíð verið landbúnaðarhérað. Það var heldur rýrt á árum áður en eftir 1980 var farið að auka ræktun og þá einkum á söndunum. Þó ekki hafi verið fjölmenni hér áður fyrr var landbúnaðurinn ekki nóg til að framfleyta íbúunum. Í allri sýslunni var sjósókn og átti hún það sameiginlegt að lendingarskilyrði voru slæm en fiskimið góð. Í Ferðabók Eggerts og Bjarna er sagt frá kolaveiðum í lónum innan við ósa í Lóni og Hornafirði og að í Öræfum og Suðursveit var þorskur veiddur. Fáum sögum fer af baunum hér á landi framan af, en á 18. öld er töluvert flutt inn af þeim. Á 19. öld og fram á þá 20. eru baunaréttir úr heilbaunum sums staðar hefðbundinn hátíðamatur t.d. smjörbaunir og pokabaunir sem voru Þorláksmessumatur á Suðausturlandi Ostagerði í A. Skaft: Mjólk hituð og hleypir látinn í. Hleypir var úr kálfsvinstur sem var blásinn upp og bleyttur með saltvatni.  Vandlega hrært í sundur þegar vel var hlaupið og látið setjast í botninn. Mysan ausin ofan af, ostur látinn í stórt ílát og mysan kreist úr honum. Osturinn er svo pressaður yfir nótt. Látinn í saltpækil og geymdur í nokkra mánuði og athuga að engin sól skíni á. Hornafjörður Miklar jökultungur setja svip sinn á svæðið og er fágætt að finna jökla svo nálægt byggðalagi. Hér má finna hreindýrahjarðir, sérstaklega á veturna og snemma á vorin, þá halda þær sig helst á láglendinu. Þetta er eitt vatnsmesta svæði landsins, bæði vegna úrkomu og vegna bráðnunar frá Vatnajökli. Making it pure, fresh and sustainable. Höfn er þekkt fyrir humarinn sinn en þar má einnig finna grænmeti ræktað í héraði, framleiddur sveitaís og kjötvörur. Í Austur Skaftafellssýslu hefur hert lúra eða koli verið vinsæl. Kolinn er þurrkaður, settur á eldvél og bakaður báðum megin. Næst var honum nuddað milli handanna og settur undir kalt vatn og borinn á borð. Þótti herramannsmatur. Öræfi Öræfin eru mótuð af rofi jökla og vatns, skriðjöklar koma niður af Öræfajökli og jökulárnar voru mikill farartálmi á árum áður. Tvö gos hafa sett mikinn svip sinn á svæðið, 1363 og 1727. Fyrir fyrra gosið hét svæðið Litla Hérað en gosið var mesta vikurgos á Íslandi eftir landnám. Mikil veðursæld er í Skaftafelli sem er í skjóli frá Öræfajökli og þar er gróðurfar fjölbreytt með birki, reyni og miklum botngróðri. Mikið af jökulaurum í Öræfum eftir hlaup úr jöklinum en eru þau óðum að gróa upp. Mikilvægustu varpstöðvar skúms við norðanvert Atlantshaf er þar. Skeiðará var brúuð 1974 en var áður mikill farartálmi. Í Ingólfshöfða er mikið fuglalíf, þar má meðal annars finna langvíu, álku, fýl og lunda. Voru fuglaveiðar og eggjatínsla til 1930. Einnig var róið frá Ingólfshöfða fram á miðja 18. öld. Enn má sjá rústir verbúða þar og einnig segja nokkur örnefni sína sögu, til dæmis Skiphellir og Árabólstorfa. Lendingarskilyrði við höfðann spilltust eftir Skeiðarárhlaup. Kaupfélag Skaftfellinga var stofnað 1918 og hófust þá vöruflutningar á 60 tonna vélbátnum Skaftfellingi frá Reykjavík til Víkur, að Skaftárós, Hvalsíki og Ingólfshöfða. Öræfingar voru með deild þar og komu upp vörugeymsluhúsi við Salthöfða í landi Fagurhólsmýrar. Þar voru bæði geymdar vörur en einnig var fé slátrað það. Húsið var kallað Búðin. Lyktin þar einkenndist af kryddvörum og ávöxtum: sveskjum og rúsínum. Lítið hefur verið um ferska ávexti til dæmis epli og appelsínur. Í vikursköflum sem komu úr gosi var saltkjöt í tunnum geymt. Vikurskaflarnir voru mjög einangrandi og þar var hægt að geyma kjötið þar til skip gátu flutt það á markaði næsta sumar. Engin mjólkurframleiðsla er í Öræfum. Meðan enn var smá mjólkurbúskapur kom upp sú hugmynd að vinna osta innan svæðið þar sem mikill kostnaður var fyrir MS að sækja mjólk í Öræfin. Það var þó ekki talið fýsilegt að hafa fullbúna framleiðslu en einn aðili gæti þó byrjað rólega og þreifað sig áfram á þessu sviði. Fólk borgar hátt verð fyrir sérstöðu og gæði og stór markaður er á svæðinu. Veitingarekstur í Skaftafelli: strembin útgerð, allt gert út frá Hornafirði. Langt að sækja alla aðdrætti, vilja hafa ferskan fisk og gera humarsúpuna úr eigin soði sem er löguð á Höfn (Glacier goodies). Í Skaftafelli hafa verið framleiddar og seldar hráverkaðar pylsur og vöðvi úr ærkjöti,  Skaftafell deilcatessen en lítið hægt að sjá á netinu hvort sé enn í gangi eða ekki. ÁRSTÍÐIR: Rúgbrauð/pottbrauð var soðið og bakað flatbrauð einu sinni í viku. Blóðmör frá árinu áður var enn étinn og góður í ágúst. Sulta gerð úr hausum og löppum og lifrapylsa en það geymdist ekki jafn lengi og blóðmörin. Geldingi slátrað í júlí svo ekki þyrfti að borða eldra saltkjöt. Sjóbirtingur í júní og fugl í Ingólfshöfða og var það nýtt öðru hverju allt sumarið. Ekki var mikið um nýjan fisk. Öræfingar stunduðu þorskveiði á vorin og sumrin frá Ingólfshöfða samkv. Ferðabók Eggerts og Bjarna. Suðursveit Sveitin er 50 km löng strandræma milli Vatnajökuls og Atlantshafsins. Á bæjum gáfu sauðkindin tekjur á heimilið. Þar sem haglendi sveitarinnar var hrjóstrugt var erfitt að fjölga þeim nema með því að fórna fallþunga. Fáar kýr og afurðalitlar. Smjör og mjólk var til heimilisnota. Á fráfærudaginn var stundum tilbreyting í mat og þá hafður rúsínuvellingur eða kaffi og sætabrauð. Byggðin notfærði sér margs konar hlunnindi eins og fisk- og hvalreka, eggjatöku, fuglaveiði, silungsveiði í ám og vötnum, lúruveiði við ósa og fiskveiði á sjó. Svo lengi sem menn muna hafa sjóróðrar verið stundaðir í Suðursveit enda stutt í góð fiskimið. Mörg bú voru lítil svo þröngt var um matbjörg á mörgum heimilum ef veiði brást. Á sumrin var silungsveiði og kríueggjaleit. Á veturna voru rjúpur veiddar ef þær komu niður á láglendi. Allir bændur áttu hlut í skipi sem var mikil björg í bú þegar vel áraði, einnig gat fiskreki hjálpað og sílahlaup á land. Fyrir aldamót 20. aldar voru hákarlaveiðar stór þáttur í sjósókn í sveitinni. Konur unnu að aflanum, slægðu og flöttu fisk. Harðfiskur var borðaður flesta daga á árinu og einnig hákarl meðan hann var veiddur. Hann var talinn mjög heilsusamlegur.