Faghópurinn fundaði á Flúðum
Faghópur sveitarfélaga á Suðurlandi um ferðamál fundar reglulega um málefni ferðaþjónustunnar, deilir fréttum af sínum svæðum og samræmir vinnubrögð. Hópurinn fundar reglulega yfir vetrartímann og hittist árlega í persónu. Að þessu sinni tók Lína Björg, byggðaþróunarfulltrúi Uppsveita Árnessýslu, á móti faghópnum á Flúðum.
Hlýjar móttökur sveitarstjóra
Fundurinn hófst í Félagsheimilinu á Flúðum en þar er góð aðstaða til funda og viðburða. Aldís Hafsteinsdóttir sveitarstjóri í Hrunamannahreppi bauð hópinn velkominn og sagði frá áherslum sveitarfélagsins til næstu ára. Þá sköpuðust m.a. umræður um hlut ferðaþjónustunnar í eflingu byggða, Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og áformaða uppbyggingu í Hrunamannahreppi.
Matvælaframleiðsla helst í hendur við ferðaþjónustu
Eftir hádegisverð á Farmers Bistro fræddi Ragnheiður Georgsdóttir faghópinn um svepparækt og þá atvinnuuppbyggingu sem Flúðasveppir hafa gefið af sér. Í kjölfarið fékk hópurinn skoðunarferð um Hill Hotel sem hefur hlotið afar vel heppnaða andlitslyftingu. Með viðkomu í fallegum hótelgarðinum sagði María E. Aleman frá vertíðinni framundan og framtíðaráformum hótelsins.
Verslun og heitar laugar í sókn
Allt var í blóma í Litlu Bændabúðinni þegar Halla Sif Svansdóttir bauð faghópinn velkominn. Þar er glæsilegt úrval matar og íslenskra afurða en greinilegt er að mikil sókn og metnaður er í starfseminni. Fáir fundargestir stóðust freistinguna að versla þar að lokinni heimsókn. Að síðustu var haldið að Hrunalaug þar sem Helena Eiríksdóttir stóð vaktina. Fyrir fáum árum var umgengni gesta við laugina orðin slík að ábúendur þurftu að týna rusl umhverfis hana daglega og ástandi laugarinnar farið að hraka. Með lágstemmdri uppbyggingu á aðstöðu og hóflegum aðgangseyri hefur þeim tekist að snúa þróuninni við svo mikill sómi er að.
Úr hótelgarði Hill Hotel
Í Litlu Bændabúðinni
Kyrrlát stemning við Hrunalaug
Farsælt samstarf Markaðsstofu og sveitarfélaga
Faghópur sveitarfélaga á Suðurlandi um Ferðamál hefur það markmið að efla samstarf sveitarfélaga og Markaðsstofu Suðurlands um ferðamá, gæta heildarhagsmuna svæðisins og þjónar sem tengslanet starfsmanna sem sinna ferðamálum innan sveitarfélaga á Suðurlandi. Hópurinn kemur meðal annars að útgáfu kortabæklinga og mótun áherslna inn í Áfangastaðaáætlun Suðurlands.
Við þökkum fyrir góðar mótttökur í Hrunamannahreppi og hvetjum fólk til að gera sér ferð þangað í sumarfríinu. Smellið hér til að kynna ykkur áhugaverða staði, afþreyingu og þjónustu í sveitarfélaginu