Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Útivistarperlur allt um kring

Suðurland er stútfullt af náttúrusvæðum þar sem hægt er að fá sér göngu, anda að sér hreinu lofti og njóta þess að komast í tengingu við umhverfið. Hér verða taldir upp einstaklega fallegir útivistarstaðir.
Landslagið á Þingvöllum er engu líkt. Ljósmyndari Páll Jökull Pétursson.
Landslagið á Þingvöllum er engu líkt. Ljósmyndari Páll Jökull Pétursson.

Á Suðurlandi eru ótal náttúrugersemar sem hreinlega bíða eftir þér.

Það er fátt betra en að fá sér göngu með nesti í bakpoka og leyfa huganum að reika á meðan gengið er um falleg svæði landshlutans. Setjast svo niður, fá sér bita og njóta útsýnisins.

Hér að neðan má finna úrval af einstökum útivistarsvæðum sem vert er að skoða.

Þingvellir – Þar sem hjarta þjóðarinnar slær

 

Það er einstakt að heimsækja Þingvelli við Öxará, virða fyrir sér stórbrotið landslagið og glöggva sig á sögunni. Þar var Alþingi stofnað árið 930, eitt elsta starfandi þjóðþing heims, sem kom saman á Þingvöllum allt til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum Íslendinga.

Þjóðgarðurinn, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, er staðsettur á hinum vinsæla Gullna hring og liggur á mörkum Evrasíu- og Norður-Ameríku flekanna. Þar má sjá djúpar sprungur og gjár sem myndast hafa við jarðskorpuhreyfingar. Þingvallavatn, stærsta náttúrulega stöðuvatn Íslands, er ótrúlega fallegt og stútfullt af dýralífi. Fyrir ævintýragjarna er vinsælt að snorkla eða kafa í Silfru, gjá með tæru jökulvatni sem hefur tekið áratugi að síast neðanjarðar í gegnum hraunið. Í þjóðgarðinum má einnig finna yfir 170 plöntutegundir.

Margir segja að Þingvellir séu eitt fegursta svæði landsins og að þar slái hjarta þjóðarinnar. Náttúrufegurðin er einstök og lætur engan ósnortinn.

 

Úlfljótsvatn – Heimili útivistar og skátastarfs

Úlfljótsvatn er eitt af skemmtilegustu útivistarsvæðum landshlutans. Þar er fjölskyldutjaldsvæði sem er rekið af Bandalagi íslenskra skáta og staðurinn hefur verið hornsteinn í skátastarfi síðan 1941.

Á Úlfljótsvatni er hægt að skemmta sér við ýmsa iðju svo sem klifra í klifurturni, sigla á kajak, skjóta af boga og ganga um fjölmargar gönguleiðir svæðisins. Aðstaðan er til fyrirmyndar með góðum tjaldsvæðum, þjónustumiðstöð, leikvelli og aðgengi fyrir hjólastóla. Svæðið er einnig vettvangur fyrir skóla- og sumarbúðir, þar sem börn og unglingar fá tækifæri til að tengjast náttúrunni, takast á við áskoranir og styrkja félagsfærni sína.

Úlfljótsvatn er einnig vinsælt meðal veiðimanna, þar sem í vatninu veiðist urriði og bleikja. Veiðitíminn er frá 1. maí til 30. september. Úlfljótsvatn er staðsett steinsnar frá þjóðgarðinum á Þingvöllum. Það er því er stutt að fara í bíltúr að helstu gullmolum Íslands eins og Gullfossi og Geysi á innan við klukkustund og Kerið er í um 15 mínútna akstursfjarlægð.

Reykjadalur – Heitur lækur og ganga á háhitasvæði

 

Reykjadalur er án efa eitt vinsælasta útivistarsvæðið í Ölfusi. Þar er að finna margar merktar gönguleiðir um stórbrotið háhitasvæðið og hægt er að baða sig í heitum læk í dalnum. Svæðið er staðsett rétt fyrir ofan Hveragerði og tilheyrir virka eldstöðvakerfinu við Hengil.

Gangan að heita læknum er um 3 kílómetrar hvor leið og tekur venjulega 45–60 mínútur. Á leiðinni má sjá kraumandi leirhveri, gufustróka og víðáttumikla fjallasýn. Þegar komið er nær dalnum má sjá gufuna rísa, merki um hlýja ánna sem liðast um landslagið. Hitastig vatnsins er mismunandi eftir staðsetningu og hver og einn getur fundið sinn uppáhaldsstað til að slaka á. Engir búningsklefar eru á svæðinu og því er mælt með því að klæðast sundfötum undir göngufötunum.

Reykjadalur er aðgengilegur allt árið um kring. Á sumrin blasir gróskumikil náttúra við, en á veturna skartar dalurinn snævi þöktum fjöllum. Rétt við dalinn er hægt að skella sér í lengstu sviflínu landsins með MegaZipline. Orkuveita Reykjavíkur hefur merkt gönguleiðir í dalnum sem og á Hengilssvæðinu öllu.

 

Þrastaskógur - Friðsæll skógur við bakka Sogsins

Þrastaskógur er gróskumikill og friðsæll skógur staðsettur í Grímsnes- og Grafningshreppi. Skógurinn var upphaflega ræktaður snemma á 20. öld, að frumkvæði Ungmennafélags Íslands, og hefur með tíð og tíma þróast í gróskumikinn birkiskóg.

Gestir geta gengið eftir göngustígum sem liðast í gegnum kyrrlátt svæðið. Þrastaskógur er kjörinn til léttra gönguferða, fuglaskoðunar og náttúruljósmyndunar. Nálægðin við Sogið eykur enn frekar á fegurð staðarins og gott er að staldra við og njóta útsýnis við árbakkann.

Skógurinn nýtur einnig mikilla vinsælda á haustin, þegar berjatínsla og sveppaleit blómstra á svæðinu. Þrastaskógur er aðgengilegur allt árið um kring og er kjörinn áfangastaður fyrir þau sem vilja njóta stundarinnar innan um tré og fuglasöng.

Best er að fara inn á svæðið frá veitingastaðnum Þrastalundi og tilvalið að fá sér að borða þar eftir gönguna.

Snæfoksstaðir - Náttúrufegurð og jólaandi

Snæfoksstaðir eru sannkölluð náttúruperla í Grímsnesi. Þar er hægt að ganga um stóran og fallegan skóg Skógræktarfélags Árnesinga. Svæðið er steinsnar frá Selfossi og þar er auðvelt að láta áhyggjur lönd og leið, anda að sér fersku lofti og njóta kyrrðarinnar.

Um skóginn liggja merktar gönguleiðir sem liðast í gegnum birki og barr. Þar er tilvalið að taka léttar göngur og skoða fuglalífið. Leiðirnar eru auðveldar yfirferðar og henta fólki á öllum aldri.

Í desember breytast Snæfoksstaðir í sannkallað jólaland . Þá sækja margir svæðið heim til að velja sér jólatré og stemningin er einstök. Hátíðarandinn svífur yfir öllu og ekkert jafnast á við ilminn af jólatrjánum í vetrarfrostinu.

Snæfoksstaðir eru þó ekki aðeins ævintýrastaður á veturna því á vorin og sumrin fyllist skógurinn af fuglasöng og lífi. Þar er yndislegt að gleyma sér í náttúrunni, allt árið um kring.

 

Sólheimar – Vistvænir lífshættir í gróðursæld

Sólheimar eru einstakt sjálfbært samfélag í Grímsnesi, stofnað árið 1930 af Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur. Í Sólheimum búa og starfa einstaklingar með og án fötlunar í anda jafnréttis, virðingar og náttúruverndar.

Sólheimar eru þekktir fyrir umhverfisstefnu og sjálfbærni. Samfélagið leggur áherslu á vistvæna framleiðslu og hringrásarhagkerfi og gestir fá tækifæri til að kynnast þessari einstöku sýn.

Fjölbreytt starfsemi fer fram á Sólheimum svo sem rekstur skógræktar- og garðyrkjustöðva sem stunda lífræna ræktun. Einnig eru á staðnum bakarí, matvinnsla, verslun, listhús, kaffihús og gistiheimili. Fjöldi listvinnustofa er á Sólheimum sem leggja meðal annars stund á kertagerð, listasmiðju og keramik. Svæðið er gróskumikið og þar eru fallegir göngustígar innan um gróðurinn sem er yndislegt að ganga.

 

Fuglafriðlandið í Flóa – Heimili fugla við Ölfusárós

 

Fuglafriðlandið í Flóa er sannkölluð náttúruperla við Eyrarbakka, þar sem fjölbreytt fuglalíf og votlendisgróður skapa einstakar aðstæður fyrir náttúruunnendur og útivistarfólk.

Friðlandið er staðsett við austurbakka Ölfusár og nær yfir um 5 ferkílómetra svæði sem einkennist af flæðiengjum, tjörnum og mýrum. Vorið 1997 fékk Fuglaverndarfélag Íslands styrk úr Umhverfissjóði verslunarinnar til að hefjast handa við endurheimt votlendis og uppbyggingu friðlandsins. Eftir sameiningu sveitarfélaga í vestanverðum Flóa tók Sveitarfélagið Árborg við samstarfinu og síðan þá hefur markvisst verið unnið að uppbyggingu í friðlandinu fyrir fuglaskoðara.

Lómurinn er einkennisfugl friðlandsins, en auk hans verpa þar álftir, grágæsir, endur og fjölmargir vaðfuglar á borð við lóuþræl, jaðrakan og óðinshana. Á fartíma má einnig sjá fjölbreyttar tegundir, þar á meðal grágæsir, blesgæsir og ýmsar andategundir.

Aðstaða til fuglaskoðunar er til fyrirmyndar, með fuglaskoðunarhúsi við Stakkholt sem veitir skjól og gott útsýni yfir svæðið. Aðgengi að friðlandinu er gott, með bílastæði og merktum gönguleiðum sem henta bæði fjölskyldum og einstaklingum.

 

Hallskot – Friðsæld og fuglalíf

Hallskot er friðsælt og fjölskylduvænt útivistarsvæði rétt norðan við Eyrarbakka. Síðan 2015 hefur Skógræktarfélag Eyrarbakka séð um svæðið, sem hefur vaxið og dafnað sem vinsæll sælureitur fyrir heimamenn og gesti sem vilja njóta íslenskrar náttúru og menningarviðburða.

Í Hallskoti er að finna bekkja- og borðaðstöðu og svæðið er tilvalið fyrir fjölskyldur og hópa til að eiga góðar stundir saman. Á svæðinu er einnig lítið hús, oft kallað bragginn, þar sem haldnir hafa verið fjölbreyttir viðburðir.

Nálægðin við Friðlandið í Flóa gerir Hallskot að frábærum stað til fuglaskoðunar. Friðlandið er mikilvægt votlendisbúsvæði sem hýsir fjölbreytt fuglalíf, þar á meðal lóm, álftir, grágæsir og ýmsa vaðfugla.

Hallskot býður upp á fjölbreytta útivistarmöguleika og er kjörinn staður til að tengjast náttúrunni og slaka á í rólegu umhverfi.

Fjaran á Stokkseyri og Eyrarbakka - Fjársjóður hafsins

 

Fjaran á Stokkseyri og Eyrarbakka er sannkölluð náttúruparadís, þar sem svartur sandur, fjölbreytt dýralíf og gersemar hafsins gleðja skilningarvitin. Strandlengjan býður upp á frábæra möguleika til gönguferða, fuglaskoðunar og gæðastunda.

Svæðið einkennist af víðáttumiklum svörtum sandströndum, hraungrýti og gróskumiklum grasbölum. Við fjöru má sjá fjölbreytt lífríki, þang, skeljar og ýmsar lífverur sem lifa í fjörunni. Fuglalíf er fjölbreytt, álftir verpa á litlum eyjum og grágæsir og vaðfuglar sjást þar oft. Einnig má sjá seli hvíla sig á steinum eða synda nálægt ströndinni.

Fjörurnar eru aðgengilegar allt árið um kring og henta vel fyrir fjölskyldur, göngufólk og þá sem vilja njóta kyrrðar og náttúrufegurðar. Hægt er að taka með sér nesti og koma sér fyrir á grasbala meðan fylgst er með lífinu allt í kring.

Niðurinn í hafinu hefur heilandi áhrif og krafturinn í öldunum fyllir vitin af andagift. Það er fátt skemmtilegra en að fara í fjársjóðsleit í fjörunni og aldrei að vita hvaða dýrgripi maður finnur.

 

Hellisskógur – Friðsæll skógur og náttúruhellir

Hellisskógur er friðsælt og gróskumikið útivistarsvæði vestan við Selfoss. Um skóginn liggja rúmlega átta kílómetrar af merktum gönguleiðum sem liðast í gegnum fjölbreyttan trjágróður, svo sem birki og víði. Á leiðinni má finna borð og bekki sem henta vel til lautarferða og aðstaða hefur verið bætt til að nýtast einnig yfir vetrartímann, meðal annars með troðnum göngubrautum sem breytast í gönguskíðabrautir þegar snjór liggur yfir og aðstæður leyfa.

Eitt af áhugaverðustu kennileitum Hellisskógar er Stóri-Hellir, náttúrulegur hellir sem myndaðist við lok síðasta jökulskeiðs. Hellirinn hefur verið útbúinn sem áningarstaður með bekkjum og eldstæði og dregur að bæði börn og fullorðna. Sögusagnir herma að draugur með bláan trefil haldi til í hellinum, sem bætir dulúð við staðinn og vekur forvitni ungra gesta.

Hellisskógur á sér einnig djúpar rætur í samfélagslegu starfi. Frá stofnun hefur Skógræktarfélag Selfoss unnið að uppbyggingu hans með áherslu á sjálfbærni og náttúruvernd. Fjölmargir sjálfboðaliðar, nemendur og bæjarbúar hafa komið að gróðursetningu og viðhaldi svæðisins. Einnig hefur verið unnið markvisst að verndun votlendis og búsvæða fugla, meðal annars með því að halda hluta svæðisins óplöntuðum og skapa votlendi með áveitukerfum.

 

Lækjargarðurinn – Útivist og leikgleði fyrir alla fjölskylduna

 

Lækjargarðurinn á Flúðum er fjölskylduvænt útivistarsvæði sem sameinar náttúru og leiktæki í hjarta Hrunamannahrepps. Garðurinn er umvafinn gróðri og býður upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir gesti á öllum aldri.

Á svæðinu er að finna ærslabelg, aparólu, strandbolta- og frisbígolfvöll sem öllum er frjálst að nota. Svæðið er stórt og afar skjólgott og þar er upplagt að fara í lautarferð og flatmaga á rúmgóðum grasflötum. Stutt er í verslun og veitingastað frá garðinum og einnig er grillaðstaða á svæðinu. Fyrir þau sem vilja rólegri útivist er hægt að ganga meðfram læk og leita að uglum úr endurvinnsluhráefni sem fela sig í trjágróðrinum. Gangan er einstaklega falleg og leitin að uglunum gerir hana enn skemmtilegri.

Lækjargarðurinn er kjörinn staður til að njóta náttúrunnar, hvort sem er í rólegheitum eða með fjölskyldunni í leik og gleði. Aðstaðan er góð með borðum og bekkjum og garðurinn er aðgengilegur allt árið um kring.

 

Tumastaðaskógur – Jarðtenging á líkama og sál

Við Tumastaði í Fljótshlíð má finna myndarlegt skóglendi sem heimamenn hafa byggt upp. Þar eru fallegir göngustígar ásamt borðum og bekkjum þar sem gestir geta gengið um og tyllt sér, notið kyrrðarinnar og hlustað á fuglasönginn.

Svæðið er gróið, skjólgott og afar fallegt. Gönguleiðir eru mislangar og henta fólki á öllum aldri. Kort af leiðunum má finna á þremur stöðum við skógarjaðarinn, sem auðveldar hverjum og einum að velja sína leið.

Saga skógræktar á svæðinu nær aftur til ársins 1944 þegar Skógrækt ríkisins hóf rekstur gróðrarstöðvar á Tumastöðum. Nokkrum árum síðar, árið 1951, tóku sveitungar höndum saman og hófu gróðursetningu í brekkunum í Tungulandi. Upp úr 1980 hófst formleg stígalögn, meðal annars með jarðýtu sem lagði aðalstíginn um brekkuna. Síðan þá hefur verið unnið markvisst að því að þróa svæðið enn frekar, meðal annars með grisjun og viðhaldi á gönguleiðum.

Skagaás – Unaðsreitur í náttúrunni

 

Skógræktin í Skagaási er gróskumikill trjálundur Skógræktarfélags Villingarholtshrepps. Þar eru kjöraðstæður til gönguferða, lautarferða og rólegrar útivistar.

Svæðið er skjólgóður unaðsreitur. Þar liggja gönguleiðir um skóginn og á opnari svæði, með borðum og bekkjum þar sem hægt er að staldra við og njóta náttúrunnar.

Staðurinn er paradís fyrir ljósmyndara, þar eru ekki margir á ferli og litirnir í umhverfinu ævintýralega fallegir þar sem hver árstíð hefur sinn sjarma.

Gestir eru vinsamlegast beðnir um að virða merktar gönguleiðir og ganga vel um svæðið. Vegna eldhættu er einungis leyfilegt að grilla á sérstaklega merktum grillstöðum.

 

Haukadalsskógur – Gróðursæld og aðgengi fyrir alla

Haukadalsskógur er eitt elsta og fegursta skógræktarsvæði landsins, staðsett í Haukadal í Biskupstungum. Skógurinn er einn stærsti þjóðskógur landsins og sá skógur sem mest hefur verið gróðursett í af þjóðskógum Íslands. Fjölmargar skógræktartilraunir fara fram á svæðinu, sem og skógvistarrannsóknir. Skógurinn hefur verið í stöðugri þróun frá því að fyrstu trén voru gróðursett þar árið 1906. Í dag býður svæðið upp á fjölbreytta útivistarmöguleika í gróskumiklu og fjölbreyttu skóglendi.

Fjölmargar merktar gönguleiðir liggja um Haukadalsskóg sem henta fólki á öllum aldri. Þar eru birkiskógar og barrtré auk opinna svæða með fallegu útsýni yfir dalinn. Á svæðinu má finna borð og bekki og víða eru upplýsingaskilti sem segja frá sögu skógræktarinnar og náttúru svæðisins.

Árið 2004 var opnaður stígur fyrir hjólastóla í skóginum. Þetta var gert í samstarfi við Sjálfsbjörg og er liður í því að gera útivistarsvæðið aðgengileg fyrir alla.

 

Þjórsárdalsskógur – Fagurt landslag og ár til að sulla í

 

Þjórsárdalsskógur er heillandi útivistarsvæði í Þjórsárdal. Náttúruleg umgjörð skógarins fylgir fjölbreyttu landslagi þar sem mætast miklar andstæður, allt frá blómlegum skógum að ógrónum öskuflákum úr Heklu. Skógurinn er að mestu birkikjarr, auk blandskóga af greni, furu og lerki.

Í Þjórsárdal teygir skógur sig langt upp í hlíðar. Landslag er fagurt, fjölbreytt og sannkallaður ævintýrabragur er á því. Í skóginum eru fjölmargir merktir og ómerktir stígar og slóðar fyrir ferðalanga og göngugarpa, ár til að sulla í og hraun til að skoða. Á svæðinu eru stígar sem henta hjólastólum, góð tjaldstæði og sundlaug.

Aðkoma að Þjórsárdalsskógi er góð; hægt er að komast í skóginn af afleggjaranum að Ásólfsstöðum eða um göngubrú yfir Sandá. Tjaldsvæðið í Þjórsárdal er vel merkt og staðsett á milli þessara aðkomuleiða. Fyrir þá sem vilja njóta frekari aðstöðu er sundlaug í Árnesi, um 15 kílómetrum neðar í sveitinni.

Þjórsárdalsskógur er kjörinn staður til útivistar fyrir alla aldurshópa, hvort sem er til göngu, hjólreiða eða einfaldlega til að njóta kyrrðarinnar og náttúrufegurðarinnar sem svæðið hefur upp á að bjóða.

 

Þórsmörk – Unaðsreitur á milli þriggja jökla

Þórsmörk er ein af náttúruperlum Íslands og vinsælt útivistarsvæði vegna stórbrotins landslags og fjölbreyttra gönguleiða. Svæðið liggur á milli þriggja jökla (Eyjafjallajökuls, Mýrdalsjökuls og Tindfjallajökuls) og dregur nafn sitt af þrumuguðinum Þór. Þessi einstaka staðsetning skapar gróskumikið, skjólgott og fjölbreytt landslag sem dregur að sér ferðalanga allt árið um kring.

Í Þórsmörk eru margar vinsælar gönguleiðir sem henta fólki á öllum aldri og í ólíku formi. Meðal þeirra eru Valahnúkur, Stakkholtsgjá og lengri og krefjandi leiðir eins og Fimmvörðuháls og Laugavegurinn. Þar má einnig finna styttri leiðir, til dæmis um Slyppugil og Þórsgötu, sem gefa innsýn í landslag, gróður og dýralíf svæðisins.

Til að komast í Þórsmörk þarf að keyra yfir Krossá sem er djúp og kraftmikil jökulá og aðeins fært fjórhjóladrifnum ökutækjum. Fjölmargar ferðaþjónustur bjóða upp á ferðir á staðinn og eins er í boði fjallabílaþjónusta fyrir gangandi ferðalanga yfir ánna.

Þórsmörk skilur eftir sig ógleymanleg spor í huga þeirra sem leggja leið sína þangað.

Landmannalaugar – Litskrúðugt landslag og gönguleiðir á hálendinu

 

Landmannalaugar er eitt af mögnuðustu náttúrusvæðum Íslands og vinsæll útivistarstaður á hálendinu. Svæðið er þekkt fyrir litskrúðugar líparítfjallshlíðar, heitar laugar og fjölbreyttar gönguleiðir sem laða að sér náttúruunnendur og göngufólk víðs vegar að.

Landmannalaugar draga nafn sitt af heitri laug sem kemur undan Laugahrauninu. Landmannalaugar hafa verið áningarstaður fólks um aldir og þar hafa fjallamenn á Landmannaafrétti hafst við í leitum svo lengi sem heimildir eru til um slíkar ferðir.

Gönguleiðir í Landmannalaugum eru fjölbreyttar og henta bæði byrjendum og reyndara göngufólki. Meðal vinsælustu leiðanna eru stuttar ferðir um Laugahraun, upp á Brennisteinsöldu og Bláhnjúk og þar er stórkostlegt útsýni. Lengri leiðir, eins og Laugavegurinn sem liggur í Þórsmörk og Hellismannaleið að Heklu, henta vel fyrir þau sem vilja lengri göngur.

Aðgengi að Landmannalaugum er aðeins mögulegt fyrir fjórhjóladrifin ökutæki þar sem leiðin liggur um fjallvegi og yfir ár. Ferðafélag Íslands rekur fjallaskála á svæðinu sem veitir gistiaðstöðu fyrir göngufólk. Frá og með sumrinu 2024 hefur Umhverfisstofnun innleitt bílastæðapöntunarkerfi til að draga úr umferð og tryggja betri aðstöðu fyrir gesti.

 

Álftaversgígar - Samspil kviku og vatns

Í Álftaverssveit liggja hinir ótrúlegu Álftaversgígar, þyrping gervigíga sem mynduðust í Eldgjárgosinu 934-940 þegar hraun rann yfir votlendi.

Gervigígar myndast þegar glóandi hraunkvika kemst í beint samband við vatnsósa undirlag og veldur hvellsuðu á vatninu. Hraunkvika rennur eftir hraunpípum en þar sem hraunkvikan brýst fram úr hraunpípunum myndast hraunsepar. Hraunsepar þessir belgjast út vegna kvikuflæðis inn í þá en smám saman afmarkast rennslið við fastmótaðar hraunpípur inni í hálfstorknuðu hrauninu. Þegar hraunseparnir belgjast út eykst þyngd þeirra og sekkur hraunið þá í undirlagið uns botnskorpan brestur undir hraunrásinni. Við það fer kvika að renna beint í vatnsósa undirlagið og veldur gufusprengingum þar sem gervigígar myndast á yfirborðinu.

Álftaversgígar hafa gert mikið gagn í Kötlugosum og verndað byggðina að miklu leyti fyrir jökulhlaupum úr þeim. Þeir eru stórkostlega fallegir á að líta og láta engan ósnortinn. Svæðið er aðgengilegt ferðalöngum eftir gönguleið sem liggur á merktum sandstíg að Dýralækjaskeri. Á svæðinu eru upplýsingaskilti sem veita innsýn í jarðfræði og sögu svæðisins.

 

Þakgil – Falinn náttúrugimsteinn

 

Þakgil er staðsett um 15 km norðaustur af Vík í Mýrdal. Þetta afskekkta og gróðursæla gil er umlukið háum grjótveggjum, grænum hlíðum og fossum, fullkomið fyrir þau sem sækjast eftir friði og gönguferðum utan alfaraleiðar.

Aðkoma að Þakgili er um Kerlingardalsveg. Þó vegurinn sé ekki formlega merktur sem fjallavegur getur hann verið grófur og krefst því hærri ökutækja. Best er að vera á fjórhjóladrifnum bíl eða jeppa.

Gönguleiðir í Þakgili eru fjölbreyttar. Meðal vinsælustu leiðanna er Rauða leiðin sem liggur yfir Mælifell og býður upp á stórfenglegt útsýni yfir Mýrdalsjökul og nágrenni. Hún er um 14 km löng og hugsuð fyrir reynda göngumenn. Gula leiðin, um 17 km, leiðir göngufólk í gegnum Austurafrétt og í átt að Huldujökli. Fjólubláa leiðin um Remundargil, sem er um 12,5 km löng, er hins vegar léttari og hentar vel fjölskyldum. Þar er fallegur gróður, fossar og tilkomumiklar klettamyndanir.

Í Þakgili er að finna vel útbúið tjaldsvæði með snyrtingum, rafmagni og eldhúsi í náttúrulegum helli sem hefur verið innréttaður fyrir ferðalanga. Þakgil er aðgengilegt yfir sumarmánuðina, venjulega frá byrjun júní og fram í lok september. Yfir vetrartímann er svæðið lokað vegna ótryggra veðurskilyrða og snjóalaga.

 

Fjaðrárgljúfur – Stórkostlegur minnisvarði um jökulskeið

Fjaðrárgljúfur er stórbrotið náttúruundur skammt frá Kirkjubæjarklaustri. Gljúfrið er um 2 kílómetrar að lengd og allt að 100 metra djúpt, með bröttum, hlykkjóttum klettaveggjum sem myndast hafa við rof Fjaðrár í gegnum móberg á síðasta jökulskeiði, fyrir um 9.000 árum.

Fjaðrá, sem á upptök sín í Geirlandshrauni, liðast um gljúfrið og skapar töfrandi samspil með umhverfinu; grænum mosa og dökkum bergveggjum. Innst í gilinu streymir fallegur foss niður klettaveggina, Mögárfoss, og þar er stór útsýnispallur þar sem hægt er að virða mikilfengleikann fyrir sér.

Aðgengi að Fjaðrárgljúfri er gott. Beygt er af þjóðvegi 1 inn á veg F206 og ekið um 3 kílómetra að bílastæði. Þaðan liggur stutt og auðveld gönguleið meðfram gljúfrinu, með útsýnispöllum sem bjóða upp á stórkostlegt útsýni yfir landslagið.

Í kjölfar aukinnar umferðar ferðamanna, sérstaklega eftir að gljúfrið birtist í tónlistarmyndbandi Justins Bieber árið 2015, hefur verið gripið til aðgerða til að vernda viðkvæmt gróðurfar svæðisins. Því er mikilvægt að gestir virði merktar gönguleiðir og fari ekki út fyrir afmörkuð svæði.

Landbrotshólar – Víðáttumesta gervigígasvæði landsins

 

Landbrotshólar, staðsettir í Landbroti rétt hjá Kirkjubæjarklaustri, eru víðáttumesta gervigígasvæði á Íslandi, um 50 km² að flatarmáli. Þetta einstaka landslag myndaðist þegar Eldgjárhraunið rann yfir votlendi á árið 934 sem leiddi til gufusprenginga og myndunar á fjölmörgum gervigígum.

Gervigígar myndast þegar glóandi hraunkvika kemst í snertingu við vatnsósa undirlag sem veldur hvellsuðu og sprengingum. Við þetta þeytist gjóska upp í loftið og hlaðast upp hólar og gígar sem eru fjölbreytilegir að lögun og stærð. Landbrotshólar eru því einstakt dæmi um samspil eldgosa og vatns í mótun landslags.

Svæðið býður upp á skemmtilega og auðvelda 9 km gönguleið sem hefst við Skaftárbrúna, liggur að Hæðargarðsvatni og þaðan inn í hólana. Þessi leið er við hæfi flestra og gefur gestum tækifæri til að njóta einstaks landslags og náttúrufegurðar.

Landbrotshólar eru ekki aðeins jarðfræðilegt undur heldur einnig mikilvægt náttúruverndarsvæði. Þeir eru friðlýstir sem náttúruvætti og njóta verndar samkvæmt náttúruverndarlögum sem tryggir að þetta einstaka svæði verði varðveitt fyrir komandi kynslóðir.

 

Skaftafell – Fegurð við rætur Vatnajökuls

Skaftafell er eitt af helstu útivistarsvæðum Íslands, staðsett í Vatnajökulsþjóðgarði. Svæðið er þekkt fyrir fjölbreytt landslag þar sem jöklar, fjöll, skógar og fossar mætast í óviðjafnanlegri náttúrufegurð.

Gönguleiðir í Skaftafelli eru fjölbreyttar og henta bæði byrjendum og reyndari göngufólki. Stuttar og auðveldar leiðir liggja að Svartafossi, sem er umkringdur svörtum stuðlabergssúlum, og að Skaftafellsjökli. Lengri og meira krefjandi leiðir, eins og upp á Kristínartinda eða í Morsárdal, bjóða upp á stórkostlegt útsýni og náttúruupplifun.

Aðgengi að Skaftafelli er gott allt árið um kring, svo lengi sem færð og veður leyfir. Gestastofan í Skaftafelli veitir upplýsingar um gönguleiðir, náttúru svæðisins og aðra þjónustu. Á svæðinu er einnig tjaldsvæði sem er opið allt árið og býður upp á aðstöðu fyrir bæði tjöld og húsbíla.

Breiðamerkursandur – Glitrandi demantaströnd

 

Breiðamerkursandur, einnig þekktur sem Fellsfjara eða Demantaströndin, er sandfjara alsett glitrandi ísmolum. Hún er staðsett rétt sunnan við Jökulsárlón þar sem ísbrot úr Breiðamerkurjökli berast með Jökulsá til sjávar og skolar síðan aftur á land með öldunum. Þegar sólin skín á ísmolana minna þeir helst á demanta á dreif um ströndina.

Svæðið er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og býður upp á einstaka upplifun fyrir náttúruunnendur, ljósmyndara og þau sem vilja njóta kyrrðarinnar. Á Breiðamerkursandi má oft sjá seli hvíla sig á ísnum eða synda nálægt ströndinni og fuglalíf er fjölbreytt með tegundum eins og skúm og margæs. Svæðið er einnig mikilvægt rannsóknarsvæði fyrir vísindamenn sem fylgjast með hraðri hopun jökla og landmótun sem henni fylgir.

Aðgengi að Breiðamerkursandi er gott þar sem hann er staðsettur við þjóðveg 1. Tvö bílastæði eru við ströndina og frá þeim liggja stuttir göngustígar að fjörunni. Þó er mikilvægt að gæta varúðar þar sem öldur geta verið óútreiknanlegar og ísinn getur verið sleipur og óstöðugur.

Hver árstíð hefur sinn sjarma. Á veturna er dulúð í andrúmsloftinu þar sem norðurljósin dansa yfir ströndinni og á sumrin glitrar sólarljósið á ískristöllunum. Þetta einstaka samspil ljóss og íss gerir Breiðamerkursand að ógleymanlegum stað til að heimsækja.

 

Heinaberg – Friðsælt náttúrusvæði við jökullón

Heinaberg er friðsælt útivistarsvæði í Vatnajökulsþjóðgarði. Svæðið samanstendur af Heinabergsjökli, jökullóni sem nefnist Heinabergslón, og fjölbreyttu landslagi með fossum, giljum og eldstöðvum. Heinabergslón er aðgengilegt á bíl og er oft skreytt stórum ísjökum sem brotna af Heinabergsjökli.

Á svæðinu eru kjöraðstæður fyrir göngufólk. Þar eru áhugaverðar gönguleiðir þar sem hægt er að sjá fossa, gil, eldstöðvar og jafnvel hreindýr. Á sumrin er boðið upp á kajakferðir á Heinabergslóni þar sem hægt er að róa á milli ísjaka og njóta stórbrotins útsýnis.

Aðkoma að Heinabergslóni er frá þjóðvegi 1 milli Skálafells og Flateyjar. Ekið er um 8 km langan malarveg að lóninu, en vegurinn er torfær fólksbílum og því er mælt með fjórhjóladrifnu ökutæki. Við lónið er þurrsalerni sem er opið allt árið um kring.

Haukafell – Kyrrð, veðursæld og berjarunnar

Haukafell er friðsælt og fjölbreytt útivistarsvæði í Austur-Skaftafellssýslu, austan við Fláajökul. Svæðið er vinsælt meðal heimamanna og ferðalanga sem leita að kyrrð, náttúrufegurð og fjölbreyttum gönguleiðum.

Skógrækt hófst í Haukafelli árið 1985 og síðan þá hefur svæðið þróast í gróskumikinn skóg með fjölbreyttum trjágróðri, þar á meðal birki og barrtrjám. Undir skóginum þrífast berjarunnar, sem bera ávöxt í ágústmánuði, og er svæðið því einstakt til berjatínslu og náttúruskoðunar.

Fjölbreyttar gönguleiðir liggja um Haukafell sem henta bæði byrjendum og reyndara göngufólki. Ein af áhugaverðustu leiðunum er merkt gönguleið að Fláajökli þar sem gengið er yfir nýja göngubrú sem þverar Kolgrafardalsá. Þessi leið býður upp á stórkostlegt útsýni yfir jökulinn og umhverfið.

Á svæðinu er einnig vel útbúið tjaldsvæði í fallegu umhverfi sem býður upp á góða aðstöðu fyrir ferðalanga. Tjaldsvæðið er vinsælt meðal þeirra sem leita að rólegri og náttúruvænni upplifun.

 

Hoffell – Náttúruparadís með heitum pottum og stórbrotnu útsýni

Hoffell er einstakt náttúrusvæði skammt norðvestan við Höfn. Það er staðsett við rætur Hoffellsjökuls og sameinar stórbrotið landslag, fjölbreyttar gönguleiðir og jarðhitaböð í kyrrlátu umhverfi. Hoffell er kjörinn staður fyrir þau sem vilja njóta náttúrunnar á eigin forsendum, fjarri fjöldanum.

Svæðið einkennist af jökulruðningi, víðáttumiklum hlíðum og dökkum gabbrófjöllum. Fjölmargar merktar gönguleiðir liggja um svæðið fyrir mismunandi getustig. Þar má meðal annars ganga að Hoffellsjökli eða upp á Geitafell þar sem útsýnið yfir jökulinn, fjöllin og láglendið er stórkostlegt.

Í Hoffelli er hægt að fara í heita náttúrupotta sem eru staðsettir í hlíðinni með útsýni yfir jökul og víðerni. Þeir eru opnir daglega yfir sumartímann og ekkert betra en að baða sig í hlýju vatninu eftir göngu á svæðinu.

Hoffell er aðgengilegt frá þjóðvegi 1 og hentar vel bæði sem dagsferð eða hluti af lengra ferðalagi um Suðausturland. Á svæðinu er einnig gistiheimili sem býður upp á næturgistingu, mat og aðgang að heitu pottunum.

 

Jarðtengdu þig

 

Það er fátt sem jafnast á við það að reima á sig gönguskóna og stíga út í einstaka náttúru Íslands.

Landið býður upp á óteljandi staði til að kanna, sumir villtir og ósnortnir og aðrir mótaðir með alúð.

Farðu út, jarðtengdu og leyfðu náttúrunni að setja mark sitt á þig.

Góða ferð og njóttu.