Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Opnun _ Rebekka Kühnis, “Um skamma hríð” Transient

7. febrúar - 23. ágúst
Verið velkomin á opnun sýningar Rebekka Kühnis, Um skamma hríð – Transient
Maður fór í göngu. Hann hefði getað tekið lest og ferðast langt í burtu, en hann vildi aðeins ráfa um nágrennið. Það sem var nærri virtist honum mikilvægara en stór og mikilvæg fjarlæg fyrirbæri. Þannig varð hið ómerkilega að hinu merka. Við viljum ekki neita honum um þetta.
– Robert Walser, Walking, 1914
Nýjustu málverk Rebekku Kühnis kanna tilveruna í náttúrunni. Svissnesk-íslenska listakonan hefur ferðast víða um Ísland og reynsla hennar af gönguferðum hérlendis er mikilvægur sjónrænn innblástur og uppspretta fyrir þau málverk sem hún vinnur. Hún finnur fegurð í náttúrunni og leitast bæði við að fanga hana og magna, til að tjá mögulega veru í náttúrunni, einkum ástand flæðis og umbreytinga.
Fyrir Kühnis, sem flutti til Íslands árið 2015, fólst aðdráttarafl landslagsins í byrjun í þeirri „verðandi“, sem virðist einkenna hrjóstrugt landslag eyþjóðarinnar. Þetta er mikil andstæða við fjalllent og skógi vaxið landslag Sviss, með skipulögðu og snyrtu borgarumhverfi, sem hún skildi eftir sig.
Tilvitnunin í svissneska rithöfundinn Robert Walser (1878–1956) veitir innsýn í listræna iðkun Kühnis. Setningin „Maður fór í göngu“ er svo hlutlæg í einfaldleika sínum að hún verður meira en hversdagsleg; hún lýsir meðvitaðri ákvörðun um að ganga, að hægja á sér og finna merkingu og vægi í smáatriðum í næsta nágrenni, fremur en stórum og yfirþyrmandi hlutum í fjarska sem teljast mikilvægir. Sú upplifun að vera í rými og skrá draumkenndar sviðsmyndir – sem listakonan telur mögulegar – er iðkun sem við viljum ekki neita henni um. Hún er einstök leið til að vera í heiminum sem gagnrýninn áhorfandi og deila þeirri stöðu með öðrum með skapandi hætti. Eldri verk Kühnis voru mun trúari hraun- og hálendislandslagi Íslands, með litlum eða engum trjám. Reynslan af því að ganga um íslenskt landslag hefur verið lykilatriði í þróun þeirra verka sem hún sýnir í Hveragerði, því að á göngu um þetta sérstæða landslag, með sínum sterku andstæðum – til dæmis mosa á hraunbreiðum – getur hún veitt því sem er nærri athygli og ljáð því merkingu.
Flæði, nálægð, fjarlægð, fókus og yfirborð eru allt þættir sem Kühnis vinnur með á þann hátt að hún fer út fyrir hefðbundið landslagsmálverk. Keilir birtist úr fjarlægð sem hefðbundið eða jafnvel punktamálverk, í anda Georges Seurat (1859-1891), en við nánari skoðun sundrast yfirborðið, verður frumkennt eða frumulíkt, þar sem litirnir nálgast abstrakt form. Ofan á yfirborð málverksins liggur mynsturlag sem minnir á völundarhús. Neðst á striganum minnir mynstrið á fingrafar eða sandöldur, en efst breytast línurnar í smáa punkta sem líkjast vatnsdropum á gleri. Mynd Keilis er því óljós frá sumum sjónarhornum og skýr frá öðrum, rétt eins og mynstrið kemur í ljós eða hverfur eftir því hvar áhorfandinn stendur og hverju hann veitir athygli. Verkið krefst þess að áhorfandinn hreyfi sig í rýminu til að sjá þætti þess skýrar.
Nýjustu verk sýningarinnar sýna gróður: runna, mosa og tré, afturhvarf í skóginn. Listakonan nefnir þessi verk Gróður. Skóglendi er sjaldgæft á Íslandi; landnám víkinga leiddi til nær algerrar skógeyðingar á eyjunni. Gróður-verkin tengjast upplifun Kühnis af Íslandi, sérstakri birtu landsins og andrúmslofti. Hún sækir innblástur í búsetu sína á Vaðlaheiði og í Kjarnaskóg. Skógurinn í málverkunum er dulúðugur og hvetur ímyndunaraflið. Litapallettan er dökk, þrátt fyrir ljósgul, gulgræn, skærrauð og jafnvel logandi appelsínugul blæbrigði. Hlýir ljósir litir í bland við dökkbláa og svarta minna á svalari mánuði á norðurslóðum, á haustið og snögg umskipti þess yfir í vetur. Samkvæmt Kühnis, sem er hrifin af samtímalistamönnum á borð við Peter Doig, er sjaldgæft, í nútímalist, að finna málverk af landslagi án fólks eða manngerðra bygginga. Hins vegar er náttúruheimurinn eldri en maðurinn, og heldur lífi í manninum, og þar getur listamaðurinn fundið takmarkalausa fjölbreytni.
Uppsetningu verkanna er háttað þannig að myndaður er ákveðinn ás í sýningarsalnum. Á gagnstæðum veggjum kallast verkin á og sýna landslag af svipuðum toga. Annað veggjaparið hefur að geyma verk undir íslenskum áhrifum, en hitt parið sýnir tré og gróður úr Gróður-seríunni.
Í Um skamma hríð býður Kühnis áhorfendum að velta fyrir sér efni í stöðugri breytingu. Hún sýnir myndir sem eru frystar í tíma, en viðfangsefni þeirra og skynjun vísa til sívirkrar og takmarkalausrar umbreytingargetu náttúrunnar og stöðu okkar innan hennar.
Texti eftir dr. Craniv Boyd.

GPS punktar

N63° 59' 47.303" W21° 11' 5.839"

Staðsetning

Austurmörk 21

Sími