ÞORLÁKSHÖFN / Ölfusi
- vinalegur sjávarbær
Sjávarbær við Suðurströndina. Um 40 mínútna akstur frá Reykjavík og 15 mínútna akstur frá Hveragerði. Kauptúnið dregur nafn sitt af Þorláki helga Skálholtsbiskupi (1133-1193). Útræði hófst snemma frá Þorlákshöfn. Meðan gert var út á áraskipum var ekki óalgengt að róið væri á 20-30 skipum frá Þorlákshöfn og hafa íbúarnir þá verið um 3-400 yfir vertíðina.
Núverandi þéttbýli myndaðist um og upp úr miðja síðustu öld í kjölfar uppbyggingar öflugrar útgerðar á vegum Meitilsins hf. Mikil fjólksfjölgun varð einnig á áttunda áratugnum í kjölfar eldgossins í Heimaey. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Þorlákshöfn á síðustu árum. Íþróttahús og sundaðstaða eru til fyrirmyndar og glæsilegir íþróttavellir í næsta nágrenni auk leikaðstöðu fyrir börn. Tjaldstæði er við íþróttahúsið en einnig er gisitheimili í bænum, upplýsingamiðstöð á bókasafninu, íþróttagolfvöllur og 18 holu sandgolfvöllur rétt utan við bæinn.
Sett hafa verið upp nokkur söguskilti á svonefndu hverfisverndarsvæði þar sem enn er hægt að greina minjar frá fyrri tímum verstöðvarinnar. Hægt er að ganga á milli skilta frá Þorlákskirkju. Ferðaþjónusta er ung atvinnugrein í Þorlákshöfn en er mikið stunduð í dreifbýli Ölfuss. Þar eru ýmsir gististimöguleikar, veitingastaðir, kaffihús og boðið upp á hestaferðir. Gerðar hafa verið góðar reiðleiðir um Ölfusið. Víða er veiði í vötnum og í ósum Ölfusár. Selvogurinn vestan við Þorlákshöfn, jarðhitasýning í Hellisheiðarvirkjun og strandlengjan að veitingastaðnum Hafinu Bláa eru vinsælir viðkomustaðir fyrir ferðamenn.