Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Svæðið á sér ríka sögu með þingstaðinn Þingvelli og gamla höfuðstað landsins, Skálholt, í forgrunni....

Konubókastofa
Konubókastofa er fræðslu- og varðveislusafn tileinkað íslenskum kvenrithöfundum og verkum þeirra. Formleg stofnun var í apríl 2013. Markmið Konubókastofu er að halda til haga þeim ritverkum sem íslenskar konur hafa skrifað í gegnum tíðina og kynna höfundana og verk þeirra innanlands sem utan. Hægt er að heimsækja safnið og kynna sér þau verk sem íslenskar konur hafa ritað og komið að útgáfu. Opnunartími: Eftir samkomulagi Facebook síðan okkar
Húsið á Eyrarbakka - Byggðasafn Árnesinga
Byggðasafn Árnesinga er með sýningar sínar í Húsinu á Eyrarbakka, Eggjaskúrnum og Kirkjubæ. Fjölbreytt, fjölskylduvænt og fróðlegt safn um menningu og mannlíf í Árnessýslu með áherslu á líf og aðbúnað verslunarstéttarinnar á 18. og 19. öld.  Opnunartími:Opið alla daga í sumar kl. 10 til 17.
Sjóminjasafnið Eyrarbakka
Austast á Kaupmannstúninu er Sjóminjasafnið á Eyrarbakka.  Það var stofnað af Sigurði Guðjónssyni skipsstjóra á Litlu-Háeyri einkum í því skyni að bjarga síðasta áraskipinu sem smíðað var á Eyrarbakka frá eyðileggingu. Áraskipið Farsæll er í dag aðalsafngripur Sjóminjasafnsins á Eyrarbakka en einnig geta gestir fræðst um skipasmiðinn,  mismunandi veiðiaðferðir og margvíslegt annað sem tengdist sjávarútvegi við Suðurströndina fyrr á tímum. Opnunartími:1. maí - 30. september: opið alla daga 11:00-18:00Yfir veturinn er opið eftir samkomulagi. 
Þingvellir Þjóðgarður
Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 og kom það saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga. Þingvellir eru í dag friðlýstur helgistaður Íslendinga. Í lögum segir að hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar og undir vernd Alþingis.  Lögberg og Lögrétta Alþingi á Þingvelli fór með æðsta löggjafar- og dómsvald á Íslandi frá stofnun þess um 930 og alla þjóðveldisöldina fram til áranna 1262-64. Þá var Lögberg miðdepill þinghaldsins. Lögrétta var æðsta stofnun Alþingis á þjóðveldisöld og fór með löggjafarvald. Starfsvið Lögréttu var margþætt en hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Á þjóðveldisöld var Lögrétta staðsett austan við Öxará.   Þinghald Um tveggja vikna skeið á hverju sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið „nú er þröng á þingi“ má líklega rekja til þingsins, þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11. aldar. Alþingi var lagt niður á Þingvöllum árið 1800, en endurreist í Reykjavík 1845.  Þjóðgarður og heimsminjaskrá UNESCO Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum á þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930 og Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, árið 2004. Með samþykktinni eru Þingvellir meðal rúmlega 1000 menningar- og náttúruminjastaða á heimsminjaskránni sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Stærstu hátíðir og atburðir þjóðarinnar hafa verið haldnir á þingvöllum undanfarin 150 ár.    JarðsaganÁ undanförnum áratugum hafa rannsóknir leitt í ljós að Þingvellir eru náttúruundur á heimsvísu þar sem jarðsagan og vistkerfi Þingvallavatns mynda einstaka heild. Það eru gríðarleg verðmæti og náttúruundur að geta fylgst með þróun og myndum nýrra tegunda á einum stað eins og í Þingvallavatni. Þingvallasvæðið er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem liggja um Ísland. Þar má sjá afleiðingar gliðnunar jarðskorpunnar í gjám og sprungum svæðisins.Í lögunum um Þjóðgarðinn á Þingvöllum segir, að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Í þjóðgörðunum voru stór, óbyggð svæði tekin frá og friðuð og fólki hvorki leyft að nema þar land né nýta náttúruna á annan hátt en að ferðast um landið og njóta þess.
Oddi og Oddakirkja
Oddi á Rangárvöllum er sögufrægur kirkjustaður, bær og prestsetur. Oddi var á öldum áður eitt mesta höfðingja- og menntasetur á Íslandi og þar ólst upp meðal annarra Snorri Sturluson. Oddi stendur neðarlega á Rangárvöllum mitt á milli Ytri- og Eystri-Rangár, en neðan við Oddatorfu rennur Þverá. Oddi var í aldir stórbýli og voru þar miklar engjar. Fjölmargar hjáleigur fylgdu Odda og átti kirkjan ítök víða. Einn af frægari prestum sem setið hafa Odda er sr. Matthías Jochumsson en hann samdi eftirfarandi kvæði um staðinn: Eg geng á Gammabrekku er glóa vallartár og dimma Ægisdrekku mér duna Rangársjár. En salur Guðs sig sveigir svo signir landsins hring, svo hrifin sál mín segir: Hér setur Drottinn þing. Talið er að kirkja hafi staðið í Odda frá upphafi kristni á Íslandi. Núverandi kirkja er timburkirkja frá árinu 1924 og tekur um 100 manns í sæti. Kirkjan er teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Kirkjan var endurbætt, máluð og skreytt árið 1953 af Grétu og Jóni Björnssyni og endurvígð það ár. Meðal merkustu muna í eigu kirkjunnar er silfurkalekur sem talinn er vera frá árinu 1300, altaristafla frá árinu 1895 sem sýnir Krist í grasagarðinum Gestemane og skírnarfontur sem er útskorinn og málaður af Ámunda snikkara Jónssyni. Á þjóðveldistímabilinu var Oddi ættaróðal Oddaverja, einnar gáfuðustu og mikilhæfustu ættar þess tíma. Nafntogaðastur Oddaverja var Sæmundur fróði Sigfússon. Sæmundur fróði stundaði námi við Svartaskóla í París. Hann mun líklega hafa verið einn fyrstur íslenskra sagnaritara sem setti saman rit um Noregskonunga, en það er nú glatað. Sonarsonur Sæmundar fróða var Jón Loftsson sem var einn af valdamestu höfðingjum á Íslandi og jafnframt einn mikilsvirtasti þeirra allra, friðsamastur og ástsælastur. Jón tók Snorra Sturluson í fóstur og menntaði hann. Sex prestar í Odda hafa orðið biskupar á Íslandi; sr. Ólafur Rögnvaldsson, sr. Björn Þorleifsson, sr. Ólafur Gíslason, sr. Árni Þórarinsson, sr. Steingrímur Jónsson og sr. Helgi G. Thordarsen. Oddafélagið var stofnað 1. desember árið 1990 og er eitt af meginmarkmiðum félagsins að vinna að endurreisn fræðaseturs í Odda á Rangárvöllum. Félagar eru nú um 200 talsins og er verndari félagsins frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Félagið heldur árlega Oddastefnu þar sem fjölmörg erindi um Oddastað eru flutt ár hvert. Núverandi sóknarprestur í Odda er sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir.
ORKA TIL FRAMTÍÐAR
Gagnvirk orkusýning Landsvirkjunar er staðsett á Sogssvæðinu við Úlfljótsvatn og er í um 50 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík.  Sýningin samanstendur af fjölbreyttum og fræðandi sýningaratriðum sem veita gestum innsýn í heim raforkunnar og hvernig raforkan er framleidd með því að beisla krafta náttúrunnar.  Líttu við í Ljósafosstöð og upplifðu af eigin raun orkuna sem býr í öllum hlutum.  Opið alla daga yfir sumartímann kl. 10:00-17:00 og frítt inn á sýninguna. Hópar með 10 eða fleiri gesti á vegum ferðaskrifstofa, fyrirtækja, stofnana eða félaga eru vinsamlegast beðin um að fylla út þessa heimsóknarbeiðni - https://www.landsvirkjun.is/form/heimsoknarbeidni  

Aðrir (1)

Þjóðveldisbærinn á Stöng Þjórsárdalur 801 Selfoss 847-8723