Á Gullna hrings svæðinu eru margir áhugaverðir staðir og ber hæst að nefna Gullna hringinn með Þingvelli, Gullfoss og Geysi í fararbroddi. En auk þess má finna fjölmarga aðra staði frá Selvogi í Ölfusi að Hellu og á hálendinu.
Reykjadalur
Reykjadalur er án efa vinsælasta útivistarsvæðið í Ölfusi. Þar er að finna margar merktar gönguleiðir um stórbrotið háhitasvæðið og hægt er að baða sig í heitri á í dalnum. Orkuveita Reykjavíkur hefur merkt gönguleiðir í dalnum sem og á Hengilssvæðinu öllu. Hægt er að finna göngukort á vef þeirra.
Stundum eru gönguleiðirnar í Reykjadal lokaðar og er því gott að athuga það áður en farið er. Hægt er að sjá það á Safetravel.is hvort það sé opið eða loka. Þeir sem hyggjast heimsækja dalinn það er afar mikilvægt að reglur svæðisins séu virtar og að ekki sé gengið utan stíga.
View
Hellisskógur
Hellisskógur er skógræktarsvæði rétt utan við Selfoss. Lagðir hafa verið akvegir og göngustígar um svæðið, settir bekkir og borð og Hellirinn grafinn út og útbúinn sem áningarstaður þar sem fólk getur sest niður og fundið sér skjól fyrir veðri og vindum. Hellisskógur hefur smám saman orðið eitt helsta útivistarsvæði Selfyssinga.
Stóri-Hellir í Hellisskógi myndaðist við lok jökulskeiðs á ísöld þegar brim svarf klettinn. Ummerki um hærra sjávarborð og sjávarrof sést á fjölmörgum stöðum í hellinum sem myndaðist í 0,7-3,1 milljón ára gömlu basalti. Innst í hellinum var áður geymt hey en fjárhús var staðsett við hellismunnann að framanverðu. Telja sumir að reimt sé í hellinum, af draug með bláan trefil.
Hér má sjá kort af Hellisskógi
View
Fjaran á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka
Fjaran á Eyrum neðst í Flóa, milli Ölfusár og Loftsstaða, er stærsta hraunfjara landsins, endi hins mikla Þjórsárhrauns, sem rann fyrir 8000 árum og er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni eftir ísöld. Ofan fjörunnar eru ótal tjarnir og vötn, aðallega við Stokkseyri. Fjölbreytt fuglalíf er þar allt árið um kring og er svæðið sérstaklega mikilvægt fyrir farfugla, eins og rauðbrysting, lóuþræl, sanderlu, tildru, margæs, rauðhöfðaönd og fleiri endur. Stórt kríuvarp er á svæðinu og nokkur hundruð álftir fella þar flugfjaðrir síðsumars.
Svæðið er hluti af ferðaleiðinni Vitaleiðin sem nær frá Knarrarósvita í austri að Selvogsvita í vestri. Malbikaður göngu- oghjólastígur liggur á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka.
View
Knarrarósviti
Árið 1938 hófst vinna við að byggja upp Knarraóssvita og var hann tekinn í gagnið ári síðar eða 31. Ágúst 1939. Þjónaði hann griðalega miklu hlutverki fyrir sjávarútveginn á þessum tíma því innsiglingarnar voru hættulegar á þessu svæði. Mörg skip hafa farist á þessum slóðum.
Knarraóssviti er 22 metrar að hæð, fallegur og rammbyggður. Útsýnið úr honum er einstaklega fallegt og mikið. Var hann með 6000 kerti sem er meðal stærð á vita á þessum tíma sem hann var byggður. Hönnun vitans er áhugaverð blanda af fúnkis og art nouveau stíl.
Knarrarósviti er hliti af Vitaleiðinni, en hægt er að lesa meira um hana hér.
View
Flóaáveitan
Flóaáveitan eru skurðir sem liggja um gjörvallan Flóa eða allt frá Ölfusá í vestri að Þjórsá í austri. Þetta stórvirki síns tíma samanstóð af 300 km löngum skurðum sem að mestu voru handgrafnir- og 900 km af flóðvarnargörðum. Flóaáveitan mun hafa náð yfir 12 þúsund hektara land og með tilkomu hennar urðu mikil umskipti í búskap og atvinnuháttum á svæðinu. Framkvæmdir við áveituna hófust 1922 og var flóðgáttin tekin í notkunn árið 1927 þegar Flóaáveitan tók til starfa. Enn þann dag í dag gegnir hún viðamiklu hlutverki í vatnsmiðlun í sveitafélaginu. Inntak áveitunnar er við Hvítá, þar er upplýsingaskilti með ítarlegum upplýsingum um Flóaáveituna. Til austurs frá inntakinu er merkt gönguleið (um 4,4 km ganga, aðra leið).
View
Urriðafoss
Urriðafoss er vatnsmesti foss landsins. Hér fellur Þjórsá fram af jaðri hins mikla Þjórsárhrauns (360 m 3/sek) í fögru og friðsælu umhverfi. Fallhæð fossins er 6 metrar þar sem hann er hæstur. Þjórsárhraun, sem er eitt mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá því að ísöld lauk, má sjá við Urriðafoss, þar sem fossinn steypist fram af austurbrún hraunsins. Lax gengur upp Þjórsá að fossinum og nokkuð upp fyrir hann. Urriðafoss er náttúrudjásn rétt utan þjóðvegs 1.
View
Fuglafriðland í Flóa
Friðlandið í Flóa og Ölfusforir Á ósasvæði Ölfusár eru tvö stór votlendi, Friðland Fuglaverndar í Flóa austan og Ölfusforir vestan ár. Þetta eru miklar flæðisléttur með tjörnum og vötnum. Engjarnar hafa jafnt gildi á fartíma og sem varpstaður. Lómur er einkennisfugl Friðlandsins og lóuþræll og jaðrakan eru óvíða algengari. Á veturna er mikið fuglalíf í Ölfusforum, stórir hópar af urtöndum, stokköndum og gulöndum halda þar til, og jafnframt stærsti hópur gráhegra á landinu.
View
Kerið
Kerið var áður talið sprengigígur en núna er talið að það sé niðurfall eftir hrun gjallgígs. Kerið er um 3000 ára gamall, nyrst í hólaþyrpingu sem nefnist Tjarnarhólar. Kerið er sporbaugslaga, um 270 m langt og breiðast 170 m. Dýpt gígsins er 55 m en í botni hans er tjörn sem er breytileg að dýpt, 7-14 m. Það er gömul sögn að þegar vatnsborð hækkar í Kerinu lækki að sama skapi í tjörninni uppi á Búrfelli í Grímsnesi og öfugt. Sumarið 1987 voru haldnir útitónleikar í Kerinu. Voru listamennirnir úti á tjörninni í gúmmíbátum.
View
Þingvellir Þjóðgarður
Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 og kom það saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga. Þingvellir eru í dag friðlýstur helgistaður Íslendinga. Í lögum segir að hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar og undir vernd Alþingis.
Lögberg og Lögrétta Alþingi á Þingvelli fór með æðsta löggjafar- og dómsvald á Íslandi frá stofnun þess um 930 og alla þjóðveldisöldina fram til áranna 1262-64. Þá var Lögberg miðdepill þinghaldsins. Lögrétta var æðsta stofnun Alþingis á þjóðveldisöld og fór með löggjafarvald. Starfsvið Lögréttu var margþætt en hún skar úr lagaþrætum, setti ný lög og veitti undanþágur frá lögum. Á þjóðveldisöld var Lögrétta staðsett austan við Öxará.
Þinghald Um tveggja vikna skeið á hverju sumri hverju reis lítið samfélag á Þingvöllum. Þangað streymdi fólk allsstaðar að, fólk sem vildi taka þátt í samkomu sem átti engan sinn líka á Íslandi. Orðatiltækið „nú er þröng á þingi“ má líklega rekja til þingsins, þar sem fjölmennt var þegar hæst stóð. Samkvæmt talningu Gissurar biskups Ísleifssonar voru þingfararkaupsbændur um 4000 talsins við lok 11. aldar. Alþingi var lagt niður á Þingvöllum árið 1800, en endurreist í Reykjavík 1845.
Þjóðgarður og heimsminjaskrá UNESCO Þjóðgarðurinn á Þingvöllum var stofnaður með lögum á þúsund ára afmæli Alþingis árið 1930 og Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, árið 2004. Með samþykktinni eru Þingvellir meðal rúmlega 1000 menningar- og náttúruminjastaða á heimsminjaskránni sem taldir eru hafa einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. Stærstu hátíðir og atburðir þjóðarinnar hafa verið haldnir á þingvöllum undanfarin 150 ár.
JarðsaganÁ undanförnum áratugum hafa rannsóknir leitt í ljós að Þingvellir eru náttúruundur á heimsvísu þar sem jarðsagan og vistkerfi Þingvallavatns mynda einstaka heild. Það eru gríðarleg verðmæti og náttúruundur að geta fylgst með þróun og myndum nýrra tegunda á einum stað eins og í Þingvallavatni. Þingvallasvæðið er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem liggja um Ísland. Þar má sjá afleiðingar gliðnunar jarðskorpunnar í gjám og sprungum svæðisins.Í lögunum um Þjóðgarðinn á Þingvöllum segir, að Þingvellir við Öxará skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Í þjóðgörðunum voru stór, óbyggð svæði tekin frá og friðuð og fólki hvorki leyft að nema þar land né nýta náttúruna á annan hátt en að ferðast um landið og njóta þess.
View
Þingvallavatn
Stærsta stöðuvatn á Íslandi, talið um 12000 ára gamalt, 83,7 km² að meðtöldum eyjunum, sem eru 0,5 km² að stærð. Þær eru þrjár og heita Sandey, Nesjaey og Heiðarbæjarhólmi. Þar sem vatnið er notað sem miðlunarlón fyrir raforkustöðvar er vatnsborðshæð örlítið mismunandi, en um 101 m y.s. að meðaltali. Mesta dýpi er um 114 m. Meðaldýpt er um 34 m.
Þingvallavatn hefur myndast við landsig og hraunstíflu. Það er á Atlantshafshryggnum, einmitt þar sem gliðnun hans fer fram. Út í vatnið liggja sprungur og gjár. Víða neðan vatns eru hrikalegir hamraveggir, einkum utan Hestvíkur í Hnúkadjúpi norðvestur af Nesjaey og í Sandeyjardjúpi, norð-norðvestur af Sandey. Þar er vatnið dýpst.
Sog fellur úr Þingvallavatni. Á yfirborði rennur í vatnið rösklega 1/10 hluti af vatnsmagninu í Soginu, en það er Öxará að norðan og nokkrar smáár og lækir sunnan frá Grafningsfjöllunum. En innrennslið er að öðrum hluta neðanjarðar. Undan Þingvallahrauni streymir mikið lindavatn (kaldavermsl) á Vellankötlusvæðinu og úr gjánum á Þingvöllum. Einnig kemur mikið vatn neðanjarðar af Hengilssvæðinu, einkum undir Nesjahrauni. Nú þykir fullsannað að vatnasvið Þingvallavatns nái allt til Langjökuls.
Í venjulegu árferði leggur Þingvallavatn þegar líða tekur á vetur og er jafnan ísilagt í febrúar og mars. Áður fyrr var ísinn mikil samgöngubót og óspart notaður til skautaferða og flutninga á vörum úr kaupstað eða milli bæja. Nærri Nesjaey, að vestanverðu, er svæði sem nefnt er Nesjaeyjaropna. Þar leggur vatnið síðast og ísa leysir fyrst. Annars leynast víða vakir á ísnum, einkum þar sem kaldavermsl eru. Ættu ókunnugir sem þar eru á ferð að gæta fyllstu varúðar.
Mikil veiði er í Þingvallavatni. Gefur það af sér árlega allt að 10 kg af fiski á hektara. Þar þekkjast einar 8 fisktegundir og afbrigði þeirra.
Mikill gróður er í vatninu og hafa rannsóknir sýnt að 1/3 hluti botnsins er þakinn gróðri.
Þingvallavatn er þekkt fyrir snögg veðrabrigði. Á örskömmum tíma getur spegilsléttur vatnsflöturinn breyst í úfið, ólgandi haf með hvítfyssandi, kröppum öldum. Þá er smábátum hætt.
Saga Þingvallavatns nær aftur á ísöld og hefur vatnið mátt þola miklar sviptingar. Í lok ísaldar var það jökullón sem jökull, er lá að Dráttarhlíð og Grafningshálsum, stíflaði. Jöklarnir hörfuðu og vatnsborðið stóð fáeinum metrum neðar en nú. Hægt en stöðugt seig landið í sigdalnum norður frá Hengli og vatnið dýpkaði. Jökulár runnu líklega frá Langjökli um dal suður til Þingvallavatns og gerðu vatnið jökulgruggugt. Stórgos varð í dalnum norðan við vatnið fyrir tæplega 10.000 árum. Skjaldbreiður myndaðist og sendi hraun suður í vatnið er þrengdu að því. Annað stórgos varð tiltölulega skömmu síðar, eða fyrir um 9.000 árum norðaustur af Hrafnabjörgum. Hraun frá þessu gosi runnu yfir Skjaldbreiðarhraunið neðan vatnsins og út í vatnið svo að það minnkaði til muna. Þetta hraun rann einnig suður með austurjaðri vatnsins og stíflaði það við Sog. Við þetta hækkaði í vatninu um 12-13 m en Sogið gróf sig síðan niður og lækkaði vatnið á ný um 7-8 m. Síðan hefur vatnið sífellt verið að stækka til norðurs í sigdældinni austur frá Þingvöllum. Fyrir 2000-3000 árum gaus í vatninu og þá myndaðist Sandey, sem er stærsta eyja í stöðuvatni hér á landi.
Árið 1959 var útfall Sogsins stíflað. Frá þeim tíma hefur rennsli vatns og vatnshæð verið stjórnað af mönnum.
Landnámabók nefnir vatnið Ölfusvatn.
Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1.0. Námsgagnastofnun 1995.
View
Þingvellir
Á tjaldsvæði má finna, salerni, sturtur, þvottaaðstöðu, útivaska og kolagrill. Í þjónustumiðstöðinni er kaffi- og veitingaaðstaða. Þar er einnig seld tjald- og veiðileyfi.
Sumaropnunartími (júní-ágúst):09:00 - 20:00Vetraropnunartími (september - maí):Upplýsingahlið gestastofu: 09:00-16:00Verslun og þjónustumiðstöð á Leirum: 09:00-18:00
View
Gullfoss
Gullfoss er í raun tveir fossar, efri fossinn er 11 metrar og neðri fossinn 20 metrar. Sigríður Tómasdóttir var fædd í Brattholti 1871, bærinn var þá afskekktur en þangað komu þó gjarnan ferðamenn. Sigríður fylgdi oft ferðamönnum að fossinum og lagði ásamt systrum sínum fyrsta stíginn að fossinum. Þegar menn fóru að sækjast eftir yfirráðum fallvatna til virkjanaframkvæmda um aldamótin 1900 háði Sigríður harða baráttu gegn því að Gullfoss yrði virkjaður.
Stundum eru gönguleiðirnar hjá Gullfossi lokaðar og er því gott að athuga það áður en farið er. Hægt er að sjá það á Safetravel.is hvort það sé opið eða lokað.
View
Geysir
Þessi frægasti goshver heims er talinn hafa myndast við mikla jarðskjálftahrinu í lok 13. aldar. Oddaverjaannáll segir um árið 1274, að í Eyrarfjalli (Laugarfjalli) hjá Haukadal komu upp hverir stórir; en sumir hurfu þeir, sem áður voru. Kísilúrfellingar hafa myndað talsverðan hól umhverfis hverinn.
Skál hans er u.þ.b. 18 m í þvermál og niður úr henni gengur 18 m djúp hola, sem er 2 m í þvermál. Öldum saman gaus Geysir og laðaði til sín ferðamenn. Upp úr aldamótunum 1900 dró mjög af honum og síðan 1916 hefur hann ekki gert meira en að pusa upp vatni óreglulega, þó jókst kraftur hans að nýju eftir jarðskjálftahrinu á Suðurlandi árið 2000.
Hæstu gosin voru á milli 40 og 80 m. Tugir hvera eru á svæðinu, sumir goshverir eins og Geysir. Þeirra helstir eru Strokkur, sem gýs reglulega með 3-5 mínútna millibili, og Smiður, sem lætur lítið á sér bera. Hverasvæðið er afgirt og friðlýst.
View
Kerlingarfjöll
Stórbrotinn og svipfagur fjallaklasi, um 150 km², suðvestan undir Hofsjökli. Draga þau nafn af drang einum miklum og dökkum, úr móbergi, um 25 m háum, sem Kerling heitir og stendur upp úr ljósri líparítskriðu sunnan í Tindi (Kerlingartindi) í vestanverðum fjöllunum. Björn Gunnlaugsson kallar Kerlingarfjöll Illviðrahnjúka en það nafn er nú gleymt, hafi það nokkurn tíma orðið fast við þau. Tindar Kerlingarfjalla eru um 800-1500 m y.s. og rísa furðubrattir upp af 600-700 m hásléttu. Fjöllin eru mjög mótuð af sprungum og meginstefna þeirra er frá norðaustri til suðvesturs en í þeim norðanverðum er þó þver sprungustefna, frá suðaustri til norðvesturs. Kalla má að Kerlingarfjöllum sé deilt í tvennt af Hveradölum sem ganga inn í fjöllin frá vestri. Norðaustan við Hveradali heita Austurfjöll. Þau eru hæsti og hrikalegasti hluti Kerlingarfjalla og þar eru hæstu tindar þeirra, Snækollur (1482 m y.s.) og Loðmundur (1429 m y.s.). Kerlingarfjöll eru að langmestu leyti úr líparíti, ljósbrúnu að lit, en randfjöll þeirra úr móbergi. Víða er hrafntinna. Talið er að þau hafi orðið til á síðari hluta ísaldar. Jarðhiti er geysimikill í Kerlingarfjöllum, mestur í Hveradölum en einnig er jarðhiti í austanverðum Botnafjöllum og í Hverabotni suðaustan undir Mæni. Jöklar eru allmargir í skörðum og slökkum í um 1150-1300 m hæð en skriðjöklar ganga niður undir 800 m hæð. Fara jöklar þessir minnkandi sem annars staðar. Alls eru jöklarnir um 8 km². Samfelldur gróður er sáralítill í Kerlingarfjöllum nema smáblettir í Innra- og Fremra-Árskarði og Kisubotnum. Meira að segja eru jarðhitasvæðin gróðurlaus að heita má en þó er lítils háttar gróður, sefbrúða og dúnurtir, í dýjavolgrum. Þorvaldur Thoroddsen kannaði Kerlingarfjöll fyrstur manna og gaf þar ýmis nöfn, til dæmis nafnið Ögmund eftir Ögmundi Sigurðssyni, fylgdarmanni sínum. Frá árinu 1961 var skíðaskóli starfræktur í Árskarði í Kerlingarfjöllum, en nú ferðaþjónusta.
View
Brúarhlöð
Brúarhlöð nefnist efsti hluti af 10 km löngum gljúfrum í Hvítá. Áin hefur grafið farveg sinn í þursaberg og í því eru ýmsar klettamyndanir og skessukatlar.
Í ánni eru tveir þursabergsdrangar sem kallast Karl og Kerling.
Trébrú yfir Brúarhlöð var fyrst byggð árið 1906 tilefni af heimsókn Friðriks VIII Danakonungs til Íslands 1907, en þá var dýrasti vegur Íslandssögunnar Kóngsvegur lagður um Uppsveitir Árnessýslu. Konungur ásamt föruneyti reið yfir brúna við Brúarhlöð.
View
Hjálparfoss
Hjálparfoss er tvöfaldur foss neðst í Fossá í Þjórsárdal, rétt áður en hún sameinast Þjórsá. Svæðið umhverfis hann heitir Hjálp og er tiltölulega gróið. Það ber þó merki um stöðugar ásóknir Heklu gömlu í gegnum aldirnar.
Blágrýtismyndarnirnar umhverfis fossinn eru fallegur rammi um hvítfyssandi vatnið. Nafnið Hjálp varð til í munni þeirra, sem komu úr erfiðum ferðum yfir Sprengisand og fundu þar snapir fyrir hestana. Landsvirkjun hefur látið græða mikið land í Þjórsárdalnum og ekki sízt vestan Sámstaðamúla.
View
Háifoss og Granni
Háifoss í Fossá í Þjórsárdal er staðsettur nálægt eldfjallinu Heklu. Hann er 122 m hár og er þriðji hæsti foss landsins. Lengi vel var fossinn nafnlaus, en árið 1912 tók Dr. Helgi Pétursson jarðfræðingur sig til og nefndi hann.
Rétt austan Háafoss er annar foss, litlu lægri, Granni. Léttasta leiðin að fossinum er frá línuveginum milli Tungufells og Sandafells. Þaðan þarf aðeins að ganga stuttan spöl niður í mót, en fara verður gætilega á brúnum gilsins.
Einnig er hægt að ganga inn Fossárdalinn, þar er merkt gönguleið frá Stöng og upp að Háafossi, með fram Fossá. Gönguleiðin er vinsæl bæði sem gönguleið og hjólaleið og hægt að gera hring með því að fara svo frá Háafossi og um Gjánna líka. Frá Stöng og að Háafossi eru um 6 km. ganga.
View
Fossabrekkur
Efsti foss í Ytri-Rangá nefnist Fossabrekkur og er hann rétt fyrir neðan vestari upptök árinnar skömmu eftir að komið er inn fyrir afréttarmörk Landmannaafréttar.
Fossabrekkur eru gróðursæl vin í vikurauðninni sem þar er að finna og þarf að keyra að staðnum til að sjá hann, enda vel falinn. Í Fossabrekkum er einstök fegurð þar sem vestari kvísl Ytri-Rangár í Rangárbotnum steypist fram af klöppum ofan í eystri kvíslina og eftir það rennur áin í einni kvísl langleiðina til sjávar.
View
Þjófafoss
Þjófafoss er í Þjórsá, austan við Merkurhraun. Fossinn dregur nafn sitt af því að þar hafi þjófum áður verið drekkt. Fossinn er einn af aðalfossum Þjórsár, en áin skilur að Rangárvallasýslu og Árnessýslu og er lengsta á landsins.
Þjófafoss er sunnan við Búrfell, skammt frá Búrfellsvirkjun og nokkru neðan við Tröllkonuhlaup í Þjórsá. Rennsli Þjófafoss er fremur lítið yfir vetrartímann en nokkru meira yfir sumartímann og stafar það af virkjunum í ánni, en vatninu er að mestu veitt framhjá fossinum. Áin er stífluð við Sultartanga með Sultartangalóni og vatninu fyrst veitt í gegnum Sultartangavirkjun og síðan inn í Bjarnarlón og í gegnum Búrfellsvirkjun. Það er því fyrst og fremst þegar Sultartangalón er orðið fullt síðsumars sem umframvatn er látið renna um Þjófafoss.
Með tilkomu Búrfellsvirkjunar 2 hefu vatnsrennsli um Þjófafoss minnka enn frekar, hvort sem er sumar eða vetur.
View
Hekla
Eldfjallið Hekla er eitt frægasta eldfjall Íslands og það sem gosið hefur einna oftast í seinni tíð. Hekla er 1.491 m.y.s. og sést víðast hvar af á Suðurlandi. Hekla hefur um langt árabil haft viðurnefnið Drottning íslenskra eldfjalla og er fjallið þekkt víða um heim.
Mikil hjátrú hefur tengst Heklu og sú frægasta líklega sú að þar væri fordyri helvítis að finna og jafnvel helvíti sjálft. Fyrsta vitneskja af fjallgöngu á Heklu er frá 1750 þegar náttúrufræðingarnir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu á fjallið. Nokkuð vinsælt er að ganga á Heklu en mikilvægt er að göngumenn viti af þeirri hættu sem getur myndast ef til eldgoss kemur. Yfirleitt er gengið frá Skjólkvíum.
Hekla stendur á jarðskorpu þar sem Suðurlandsbrotabeltið og Suðurlandsgosbeltið mætast og skýrir það að miklu leiti tíð eldgos í fjallinu. En frá því að land byggðist hefur Hekla gosið árin; 1104, 1158, 1206, 1222, 1300, 1341, 1389, 1501, 1597, 1636, 1693, 1766, 1845, 1947, 1970, 1980, 1981, 1991 og 2000. Jarðfræðingar hafa marg ítrekað á undanförnum árum að Hekla sé tilbúin til að gjósa og geti gosið hvenær sem er, en fjallið gefur að jafnaði um klukkutíma fyrirvara á eldgosum.
View
Landmannalaugar
Landmannalaugar draga nafn sitt af heitri laug sem kemur undan Laugahrauninu. Landmannalaugar hafa verið áningastaður fólks um aldir og þar hafa fjallmenn á Landmannaafrétti hafst við í leitum svo lengi sem heimildir eru til um slíkar ferðir.
Frá Landmannalaugum má sjá mörg falleg fjöll; Barm, Bláhnúk, Brennisteinsöldu, Suðurnám og Norðurnám. Mikið er um líparít, hrafntinnu og líparíthraun á svæðinu og eru Landmannalaugar rómaðar fyrir litafegurð og einstaka náttúru.
Upphaf einnar vinsælustu gönguleiðar landsins, Laugavegarins, eru í Landmannalaugum og liggur leiðin þaðan um Hrafntinnusker, Álftavatn, Hvanngil, Emstrur og loks í Þórsmörk.
Í Landmannalaugum er aðstaða fyrir ferðamenn, sturtur og gisting rekin af Ferðafélagi Íslands, en auk þess er á svæðinu rekin hestaleiga á sumrin og lítið kaffihús.
Gjöld:Umhverfisstofnun mun taka upp bókunarkerfi fyrir bílastæði í Landmannalaugum fyrir sumarið 2024. Þá verður nauðsynlegt að bóka bílastæði fyrir komu á svæðið og greiða fyrir það þjónustugjald.
Fyrirkomulagið verður í gildi frá 20. júní til 15. september, alla daga vikunnar. Nánar upplýsingar hér.
View
Ægissíðufoss
Ægissíðufoss í Ytri-Rangá er nokkrum kílómetrum neðar en þorpið Hella sem byggst hefur upp á árbakkanum. Fossinn er þekktur veiðistaður í ánni og í honum er laxastigi. Fossinn er tignarlegur allt árið um kring og rennsli í honum er nokkuð jafnt allt árið, enda Ytri-Rangá bergvatnsá og helst að vöxtur komi í ána í leysingum á vorin.
Þegar farið var að huga að brúarstæði yfir Ytri-Rangá kannaði Jón Þorláksson, þáverandi landsverkfræðingur og síðar forsætisráðherra, með brúarstæði rétt ofan við Ægissíðufoss og leist einna best á þann stað. Af þeirri smíði varð þó ekki og brúarstæðinu á endanum valinn staður þar sem Helluþorp stendur í dag.
Vinsæl gönguleið liggur frá Hellu niður að Ægissíðufossi meðfram Ytri-Rangá og er hún mikið notuð jafnt af heimamönnum og ferðamönnum.
View