Fara í efni

Þjórsárhraun – Vatnaöldugos

Þjórsárhraunið mikla er stærsta hraun á Íslandi, bæði að flatarmáli og rúmmáli, og stærsta hraun sem vitað er til að hafi komið upp í einu gosi á jörðinni á nútíma (frá lokum ísaldar fyrir um 10.000 árum). Hraunið rann milli Heklu og Búrfells og niður farveg Þjórsár og yfir láglendið á Skeiðum og Flóa og um 1 km út í sjó á Eyrum. Það tilheyrir flokki hrauna sem nefnast Tungnárhraun. Hraunið er helluhraun úr stórdílóttu basalti. Það kom upp í eldstöðvum á Veiðivatnasvæðinu fyrir 8600 árum (um 6600 f. Kr.). Þetta gos er væntanlega hluti af eldstöðvakerfi Torfajökuls.

Vatnaöldur 870

Í þann mund sem fyrstu landnámsmennirnir eru taldir hafa sest hér að, þá var nýlokið eða um það bil að ljúka stórgosi að Fjallabaki, sem kennt hefur verið við Vatnaöldur. Opnaðist þar a.m.k. 10 km löng sprunga sem spítti útúr sér 3,3 km3 af gjósku, auk lítilræðis af hrauni. Í þessu gosi myndaðist hið svokallaða „landnámslag” sem er tvílitt gjóskulag, ættað úr þessu gosi og gosi sem varð samtímis í Torfajökulskerfinu. Þetta öskulag kemur oft við sögu, þegar tímasetja þarf fornleifar í jörðu. Það virðist alloft hafa gerst, að stórgosi á Veiðivatnasvæðinu fylgi umbrot í Torfajökulskerfinu. Öskufall varð töluvert um allt land nema á Vestfjörðum.

Eldgjá 934 – 940

Það er ljóst að landið hefur ekki tekið sérlega vel á móti landnámsmönnum, ekki líða nema um 65 ár frá því að stórgosi í Vatnaöldum lýkur, þar til mesta gos frá landnámi hefst, gos í Kötlu og Eldgjá. Í þessu gosi gekk mikið á í Eldgjá, svo vægt sé til orða tekið. Stór jökulhlaup urðu og gossprungan lengdist í báðar áttir á nokkrum vikum eða mánuðum. Teygði hún sig undir Kötluöskjuna og kom þar upp ógnvænlegt magn af gjósku í hamfaragosi. Sprungan lengdist svo í norðurátt og myndaði Eldgjá. Nyrsti hluti Eldgjár er um 60 km frá jöklinum sem segir sína sögu um hamfarirnar, jafnvel þó ekki hafi gosið á henni allri í einu.

Gríðarlegt hraun rann frá Eldgjá og náði hraunið að renna allt til sjávar í Álftaveri. Nýlegar rannsóknir benda til þess að hraunið frá Eldgjá sé um 18 km3 að rúmmáli og um 800 km2, sem slær Skaftáreldum við. Hraun frá þeim rann reyndar yfir hluta Eldgjárhrauna. Þá er talið að gjóskan frá gosinu sé um 5-7 rúmkílómetrar en slíkt magn eitt og sér án hraunsins dugar til að flokka þetta sem stórgos. Gjóskulag Eldgjárgossins er einnig notað til að tímasetja fornleifar, það er um 65-70 árum yngra en landnámslagið.

Eldgjárhraunið myndaði tvær þekktar gervigígaþyrpingar, Álftaversgíga og Landsbrotshóla. Álftaversgígar eru friðlýstir gervigígar og Landbrotshólar eru víðáttumesta gervigígasvæði á Íslandi, um 50 km2 að flatarmáli. Gervigígar myndast þegar hraun renna í eða yfir ár, stöðuvötn eða mýrlendi. Þegar 1100°C heitt hraun kemst í snertingu við vatn, safnar það í sig gufum og verða miklar sprengingar, þar sem vatnið nánast hvellsíður, gæti minnt á sjóðandi hafragraut í potti. Við það tætist hraun og gjóska upp í loftið og hólar og gervigígar myndast. Þeir eru vel þekktir allvíða á Íslandi, kunn gervigígasvæði eru við Mývatn og Rauðhólarnir við Reykjavík eru leifar gervigíga.

Skaftáreldar – Lakagígar

Skaftáreldar hófust á hvítasunnudag, 8. júní árið 1783, á 27 km langri sprungu sem síðar varð að Lakagígum og stóð það fram í febrúar 1784. Í Skaftáreldum varð mesta hraunrennsli í einu gosi á jörðinni á síðasta árþúsundi og er heildarrúmál hraunsins um 12-14 km³ og flatarmál þess 580 km². Eldgjárgosið gæti þó steypt Skaftáreldum af stóli sem stærsta gos á sögulegum tíma. Lakagígar eru hluti af eldstöðvakerfi Grímsvatna.

Gosinu fylgdi aska og eiturefni sem bárust um landið. Mikil gosmóða, rík af brennisteinssamböndum, barst út í gufuhvolfið og varð hennar vart um allt norðurhvel jarðar. Veturinn á eftir var harður um alla Evrópu, talið er að fellir og hungursneyð í Frakklandi í kjölfar Skaftárelda hafi ýtt undir frönsku byltinguna. Veturinn var þó einkum harður á Íslandi, búfé féll og hungursneyð ríkti. Hörmungarnar sem fylgdu Skaftáreldum eru kallaðar Móðuharðindin eftir gosmóðunni. Þær stóðu yfir til ársins 1785. Talið að sauðfé hafi fækkað um allt að 80%, hrossum um 60% og nautgripum um 50%. Þessar hörmungar kostuðu meira en 10.000 manns (rúmlega 20% þjóðarinnar) lífið.