Uppbygging áfangastaða
Það er að mörgu að huga þegar kemur að því að byggja upp og viðhalda góðum áfangastað. Hér finnur þú upplýsingar og gagnlegt efni fyrir sveitarfélög, landeigendur og aðra sem koma að uppbyggingu áfangastaða.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða og ferðamannaleiða um land allt og styðja með því við þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar stoðar í íslensku atvinnulífi. Það er jafnframt markmið sjóðsins að stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun.
Styrkt verkefni verða að efla öryggi ferðamanna eða stuðla að náttúruvernd á ferðamannastöðum. Sjóðurinn getur styrkt allt frá undirbúnings- og hönnunarvinnu til framkvæmda og viðhalds. Rík krafa er á að umsóknir séu vel ígrundaðar og vandaðar, enda er um samkeppnissjóð að ræða. Umsóknarfrestur er að hausti ár hvert og úthlutun fer fram að vori.
Upplýsingasíða um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða
Landsáætlun um innviði
Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjun er tólf ára áætlun á vegum Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytis. Hún nær til áfangastaða sem flestir heyra undir þjóðgarða, Náttúruverndarstofnun eða Minjastofnun. Stöku staðir á Landsáætlun eru í umsjá annarra aðila, á borð við Skógræktina eða Þjóðminjasafn Íslands. Framkvæmdaáætlun er sett fram á hverju ári til þriggja ára í senn.