Fara í efni

Atvinnugreinin

Ferðaþjónusta er ein mikilvægasta atvinnugrein Suðurlands og hefur á undanförnum árum haft afgerandi áhrif á efnahagslíf, atvinnu og tekjur í landshlutanum. Eftirfarandi gröf varpa ljósi á þróun greinarinnar út frá þremur lykilþáttum: fjölda launþega, fjölda launagreiðenda og launagreiðslum í einkennandi greinum ferðaþjónustu. Áhugasömum er einnig bent á gagnavef Samtaka ferðaþjónustunnar, ferdagogn.is, en þar má meðal annars skoða áætlaðar atvinnutekjur sveitarfélaga af ferðaþjónustu.

 
Hagstofa Íslands

Hér er átt við alla þá einstaklinga sem starfa við einkennandi greinar ferðaþjónustu, óháð starfshlutfalli. Þannig getur einstaklingur sem starfar til dæmis sem leiðsögumaður í hlutastarfi samhliða vinnu á hóteli verið talinn tvisvar inn í þessi gögn. Um leið ber að merkja að margir einstaklingar kunna að hafa lögheimili utan landshlutans, til dæmis á Höfuðborgarsvæðinu, en starfað við ferðaþjónustu sem fer að mestu fram á Suðurlandi. Þeir eru ekki taldir með í þessum gögnum. Grafið sýnir þó ágætlega hversu margir Sunnlendingar hafa atvinnu af ferðaþjónustu og nýtist samhliða öðrum talnagögnum til að átta sig á þróun atvinnugreinarinnar.

 

 
Hagstofa Íslands

Meðal fjöldi launagreiðenda í ferðaþjónustu sem skráðir eru til lögheimilis á Suðurlandi fer stigvaxandi í samræmi við aðra þróun innan atvinnugreinarinnar. Sé meðalfjölda launþega deilt niður á meðal fjölda launagreiðenda má sjá að á hvern launagreiðanda eru að meðaltali fimm launþegar. Hlutfallið hefur haldist nokkurn veginn óbreytt á tímabilinu, ef frá eru talin heimsfaraldursárin. Hér er þó mikilvægt að hafa í huga að margir launagreiðendur eru skráðir til lögheimilis á höfuðborgarsvæðinu eða í öðrum landshlutum þótt starfsemin eigi sér stað á Suðurlandi. Þeir eru ekki taldir með í þessum gögnum.

 
Hagstofa Íslands

Staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í einkennandi greinum ferðaþjónustu skila sér ekki eingöngu sem tekjur einstaklinga heldur einnig sem útsvar til sveitarfélaga. Af þessu grafi má lesa að þróun launagreiðslna í ferðaþjónustu er brattari en þróun í fjölda launagreiðenda og launþega, enda hafa laun og launatengd gjöld hækkað umtalsvert, og verðbólga staðið yfir á umræddu árabili.