Vakinn: Gæða og umhverfisvottun
Vakinn er gæða- og umhverfisvottun fyrir íslenska ferðaþjónustu. Verkefninu er stýrt af Ferðamálastofu. Þau fyrirtæki sem taka þátt fá óháðan þriðja aðila til að skoða og taka út starfsemi og þjónustu fyrirtækisins, fá staðfestingu á því sem vel er gert og tækifæri til að bæta það sem betur má fara.
Ímynd, gæði, öryggi og umhverfismál eru þættir sem efla samkeppnishæfni ferðaþjónustufyrirtækja sem og áfangastaðarins Suðurland í heild sinni. Gæða þjónusta fyrirtækja og frammistaða þeirra við móttöku gesta hefur ekki aðeins áhrif á orðspor fyrirtækisins heldur einnig orðspor sjálfs áfangastaðarins. Að vera með gæðamál ávallt í forgangi stuðlar að betri upplifun gestsins og skapar þannig samkeppnisforskot og sérstöðu á meðal samkeppnisaðila. Það felast mörg tækifæri í því fyrir áfangastaðinn Suðurland að auka enn frekar gæði í sunnlenskri ferðaþjónustu. Í því verkefni er Vakinn, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, öflugt verkfæri sem vert er að hagnýta.
Helsti ávinningur af þátttöku í Vakanum
- Markviss úttekt byggð á gæða- og umhverfisviðmiðum sem hafa verið samþykkt af sérfræðingum á hverju sviði.
- Staðfesting á því að fyrirtækið sinni gæða- og umhverfismálum af fagmennsku og heiðarleika.
- Markaðslegur ávinningur og samkeppnisforskot með viðurkenningu Vakans.
- Betri starfshættir og aukin fagmennska.
- Auknar líkur á að uppfylla væntingar viðskiptavina.
Höfum hugfast
- Náttúran og orðspor landsins eru það mikilvægasta sem við eigum.
- Ferðamenn leita frekar til fyrirtækja sem sýna ábyrgð og leggja sitt af mörkum til umhverfis- og samfélagsmála.
- Gæða-, umhverfis- og öryggismál eru lykilþættir í framtíð íslenskrar ferðaþjónustu.
- Vakinn er öflugt verkfæri til að auka fagmennsku og gæði í ferðaþjónustu.
- Merki Vakans er gæðastimpill sem nýtist sem markaðstæki fyrir vottuð fyrirtæki.
Vakinn. (á.á.). Vakinn.is. Sótt júní 2023 frá Vertu með í Vakanum: https://www.vakinn.is/
