Fara í efni

Gott aðgengi í ferðaþjónustu

Ferðamálastofa setti árið 2022 af stað verkefnið Gott aðgengi, í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sjálfsbjörg og ÖBÍ réttindasamtök. Markmið verkefnisins er að bæta aðgengi fyrir fatlaða í ferðaþjónustu. Um fræðslu- og hvatningarverkefni er að ræða, þar sem forsvarsfólk ferðaþjónustufyrirtækja kynnist leiðum til að bæta þjónustu sína gagnvart þessum mikilvæga markhópi. Verkefninu fylgir leiðbeiningabæklingur sem leiðir ferðaþjónustuaðila í gegn um fyrstu skrefin sem fólgin eru í því að bæta aðgengi fyrir fatlaða. Þar er fjallað um fötlun almennt, algilda hönnun og aðgengi fyrir alla. Þá eru einnig settar fram upplýsingar um aðgengi, svo sem bílastæði og innganga, afgreiðslu, snyrtingar og lyftur. Leiðbeiningarnar eiga við hvort sem um ræðir byggingar eða útisvæði, svo sem umferðarleiðir innanhúss og göngustíga. Leiðbeiningaritið ásamt öllum helstu upplýsingum er aðgengilegt á vef Ferðamálastofu um Gott aðgengi.

 

Gott aðgengi í ferðaþjónustu í hnotskurn:

  1. Verkefnið, sem er sjálfsmat og verkfæri fyrir ferðaþjónustuaðila, byggir á trausti og vilja til að sýna ábyrgð í verki til að þjóna þessum markhópi sem best.
  2. Verkefninu er ætlað að hjálpa ferðaþjónustuaðilum að sýna með áþreifanlegum hætti að þeim er umhugað um alla gesti og gera sitt besta til að taka vel á móti þeim.
  3. Ferðaþjónustuaðilar sem telja sig uppfylla allar lágmarkskröfur um aðgengismál í sjálfsmatinu fá viðeigandi merki verkefnisins. Í boði eru þrjú merki; aðgengi fyrir fatlaða/ hreyfihamlaða, aðgengi fyrir sjónskerta og blinda og aðgengi fyrir heyrnarskerta og heyrnarlausa.
  4. Viðmið fyrir fatlaða/hreyfihamlaða eru grunnviðmið. Allir sem taka þátt í Góðu aðgengi þurfa a.m.k. að uppfylla lágmarkskröfur sem þar eru settar fram. Til viðbótar eru sérstök viðmið vegna aðgengis fyrir heyrnarskerta og heyrnarlausa og fyrir sjónskerta og blinda sem eru valkvæð.
  5. Sýnum að Ísland er tilbúið að taka á móti öllum gestum sínum af fagmennsku og ábyrgð!

 

Ferðamálastofa. (26. júní 2023). Ferðamálastofa.is. Sótt 2023 frá Gott aðgengi í ferðaþjónustu: https://www.ferdamalastofa.is/is/studningur/gott-adgengi-i-ferdathjonustu#merki-verkefnisins