Þematengd ferðaþjónusta
Þematengd ferðaþjónusta: Vöruþróun og upplýsingamiðlun
Verkefnið í hnotskurn:
Síðustu misseri hefur orðið aukin áhersla á búa til vörur í ferðaþjónustu sem höfða til áhugasviðs gesta frekar en að horfa í lýðfræðilega þætti eins og aldur, kyn, búsetu og tekjur. Unnið verður með fjölbreytt þemu á Suðurlandi og þau sett fram á skýran og samræmdan hátt á vefsíðu Markaðsstofunnar, south.is. Ferðatillögum, þematengdum bloggfærslum og öðru efni hefur jafnt og þétt verið bætt inn síðustu ár, t.d. um heitar laugar, jólahefðir, söfn og sýningar, sunnlenska fossa og UNESCO staði. Val á þemum sem unnið verður með á næstu misserum er byggt á áherslum í Áfangastaðaáætlun Suðurlands. Dæmi um þemu sem koma til greina eru myrkurgæði og orkutengd ferðaþjónusta.
Markmið
Markmið verkefnisins er að efla upplýsingamiðlun um svæðið og einkenni þess til gesta í samræmi við breyttar kröfur og þarfir þeirra. Í þessu felst einnig ákveðin stýring, að vekja frekar athygli á þemum sem hagaðilar landshlutans vilja standa fyrir og bjóða fram í auknu mæli.
Árangursmælikvarðar
Aukin fjölbreytni í upplýsingum til gesta sem miðar að áhugasviði þeirra. Það skilar sér betri nýtingu fjármagns til að ná betur til viðeigandi markhópa fyrir svæðið sem aftur getur skilað aukinni ánægju og upplifun gesta.
Lokaafurð
Lokaafurð verkefnisins er fjölbreytt framsetning á þematendri ferðaþjónustu á Suðurlandi. Þemu verða ýmist sett fram sem undirsíður á south.is, blogg færslur eða röð færslna á samfélagsmiðlum, eftir eðli verkefna.