Sóknarfæri
Ljóst er að Suðurland býr yfir mikilli reynslu og þekkingu í að taka á móti gestum. En alltaf má gera gott betra og eru því fjölmargir möguleikar og tækifæri fyrir Suðurland til að vinna enn meira að fjölbreyttum verkefnum til að bæta við þá flóru sem fyrir er og auka við upplifun ferðamannsins.
![]()
Matur
Matarauður Suðurlands á mikið inni og vel er hægt að vinna meira með matarkistu Suðurlands með það að markmiði að lyfta mataráfangastaðnum Suðurlandi á hærra plan. Mikil matvælaframleiðsla fer fram innan landshlutans og gestir eiga kost á að njóta afar fjölbreyttra matarupplifana á ferð um Suðurland.

Saga og menning
Gera þarf sögu og menningu á Suðurlandi hærra undir höfði, bæði sögunni og menningararfinum sem og samtíðarmenningu og listum. Suðurland er ríkt af sögu- og menningarperlum sem og fjölbreyttum viðburðarstöðum. Einnig er tækifæri til að draga fram skemmtilegar sögur af mannlífi, þjóðsögur af huldufólki og draugum og gefa þeim meira líf. Tækifæri liggja víða.

Ferðaleiðir
Þó að Suðurland búi yfir elstu ferðaleið landsins þá má vel bæta í þar og vinna markvisst með ýmiskonar ferðaleiðir eftir þemum og svæðum. Ein stór ferðaleið um Suðurland, Eldfjallaleiðin (e. The Volcanic Way), er tilvalið verkefni til að fara í og tengja svæði Suðurlands og eldvirknina enn betur.

Aukið samstarf
Á Suðurlandi er mikil hefð fyrir góðu samtali og samstarfi. Því þarf að viðhalda svo hagaðilar séu upplýstir sín á milli, auka samstarf þar sem það á við, nýta þá þekkingu sem er til staðar á svæðinu og tengja saman mismunandi aðila í gegnum verkefni.

Upplifun gesta
Upplifunarferðamennska á mikið inni, vel er hægt að bæta þann þátt í ferðaþjónustunni á Suðurlandi, bæði hjá ferðaþjónustufyrirtækjum og á áningar/áfangastöðum.

Fjárfesting og nýsköpun
Grunnurinn að öflugri ferðaþjónustu er að fjárfestingarmöguleikar séu til staðar og nýsköpunarhugsun haldi áfram að vera meðal Sunnlendinga.
Áfangastaðaáætlun Suðurlands er grunnurinn að aðgerðaráætlun Markaðsstofunnar og um leið góður rammi og hugmyndabanki sem fyrirtæki, sveitarfélög, landeigendur og aðrir hagaðila geta nýtt í sín verkefni. Áætlunin hjálpar hagaðilum að vinna enn betur að gæðum, fagmennsku og ábyrgri ferðaþjónustu með sjálfbærni að leiðarljósi.