Fara í efni

Markaðsgreining

Mikilvægt er að Suðurland aðgreini sig frá öðrum landshlutum og að stjórnendur í ferðaþjónustu á Suðurlandi sameinist og hlúi vel að þeirri sérstöðu sem aðgreining þess byggir á. Sérstaða er grunnur að mótun markaðsstefnu og þar með markaðsskilaboðum svæðisins. Í Markaðsgreiningu Suðurlands sem unnin var fyrir Markaðsstofu Suðurlands árið 2016 var sett fram markaðsleg aðgreining áfangastaðarins Suðurlands frá öðrum landshlutum sem var byggð á eftirfarandi þáttum:

  1. Þroskuðum og reyndum fyrirtækjum
  2. Fjölbreyttri náttúru og sterkum náttúruseglum
  3. Góðum samgöngum og nálægð við höfuðborgarsvæðið og Keflavíkurflugvöll

Markaðsskilaboð svæðisins þurfa að endurspegla þessa þætti og þeir hafðir að leiðarljósi í staðfærslu Suðurlands. Staðfærsla svæðisins miðlar sérstöðu landshlutans og endurspeglar þau hugrenningatengsl sem hagsmunaaðilar vilja að myndist þegar ferðamenn hugsa um Suðurland sem áfangastað. Suðurland heillar langflesta erlenda gesti sem heimsækja Ísland og endurspeglar staðfærslan þá staðreynd sem og áðurnefnd aðgreining.

“Suðurland býr yfir fjölbreyttri og stórfenglegri náttúru með mikið aðdráttarafl sem auðvelt er að nálgast og upplifa. Fjölbreytileiki og gæði þjónustu gerir gestum kleift að njóta þess besta sem Ísland hefur upp á að bjóða allt árið um kring.”

Í staðfærslunni er að finna þessa helstu þætti sem aðgreina Suðurland, þ.e. fjölbreytta og öfluga náttúrusegla, fjölbreytilega þjónustu og afþreyingu og gott aðgengi að svæðinu árið um kring. Staðfærslan er fyrst og fremst leiðarljós í markaðssetningu svæðisins og myndar grunninn að loforði fyrir markaðssvæðið og undirstrikar það sem áfangastaðurinn Suðurland skuldbindur sig sameiginlega til að standa við gagnvart ferðamönnum.

Erlendir ferðamenn

Tækifæri felast í því að auka gæði og efla samtal og samvinnu innan og á milli svæða til þess að efla enn frekar ferðaþjónustu á Suðurlandi Íslandsstofa hefur rannsakað markhópa fyrir íslenska ferðaþjónustu og valið út frá þeim rannsóknum tvo vænlega markhópa til að sækja á erlenda lykilmarkaði. Vegna landfræðilegrar staðsetningar Suðurlands, nálægt höfuðborginni og Keflavíkurflugvelli, og þeirrar staðreyndar að flestir ferðamenn sem koma til Íslands heimsækja Suðurland þá var ákveðið að stíla inn á þessa sömu markhópa:

Lífsglaði heimsborgarinn

Félagslyndir ferðamenn sem vilja upplifa ekta menningu og náttúru. Sjálfsörugg og sækja í spennandi afþreyingu en þó án óþarfa áhættu. Líkleg til að ferðast með fjölskyldu eða maka.

Sjálfstæði Landkönnuðurinn

Vanir ferðamenn sem ferðast sjálfstætt, oftast með maka, og sækja í afslappaða ferðadagskrá. Leggja upp úr því að upplifa eitthvað nýtt á ferðum sínum og gefa sér tíma til að læra um sögu og menningu áfangastaðarins.

Makindalegi menningarvitinn

Varkárir og þjónustusinnaðir ferðamenn sem komnir eru yfir miðjan aldur. Vilja fyrst og fremst upplifa menningu og mannlíf. Ferðast í núinu og eru tilbúnir að greiða fyrir góða þjónustu og gæðavörur.

Þessir markhópar eiga það sameiginlegt að vera umhugað um umhverfið og sækja í náttúru og menningu (Íslandsstofa, 2022). Þessi gildi eiga vel við framtíðarsýn ferðaþjónustunnar á Suðurlandi. Nánari upplýsingar um markhópana er að finna í nýjustu markhópagreiningu Íslandsstofu.

Kona í gulri kápu við Skógafoss

Innlendir ferðamenn

Auk erlendu markhópanna eru Íslendingar einnig verðmætur markhópur fyrir sunnlenska ferðaþjónustu líkt og fram kom í markaðsgreiningu áfangastaðarins 2016. Mikilvægi íslenska markhópsins kom einnig sterklega fram þegar heimsfaraldurinn gerði það að verkum að ekki var eins auðvelt að ferðast á milli landa. Sumarið 2020 ferðuðust Íslendingar mun meira innanlands en fyrri ár og aukning í gistinóttum Íslendinga á Suðurlandi var umtalsverð, en á tímabilinu jukust gistinætur þeirra á hótelum í júlí mánuði um 423% á milli áranna 2019 og 2020 (Hagstofa Íslands, 2023).

Markaðsstofa Suðurlands fór á vormánuðum 2020 í að greina markhópinn Íslendingar nánar með það að markmiði að draga betur fram þær vörur sem mismunandi markhópar landshlutans hefðu áhuga á. Valdir voru sérstaklega þrír megin markhópar Íslendinga: Fjölskyldur, þeir sem hafa áhuga á hreyfingu og vellíðan og svo þeir sem vilja njóta og slappa af. Til að draga betur fram vöruframboð sem höfðaði til hvers markhóps fyrir sig voru í kjölfarið undirbúnar lendingarsíður á vefnum south.is í samvinnu við faghóp sveitarfélaganna um ferðamál. Í markaðsherferð landshlutans fyrir innanlandsmarkað var því lögð áhersla á þrjár megin vörur, fjölskylduferðir, sæluferðir og ævintýraferðir sem nýta má allt árið um kring. Skilaboð markaðsaðgerða voru því miðuð að þessum þremur hópum sérstaklega í bland við almenn skilaboð til að vekja athygli á áfangastaðnum Suðurlandi.

Fjölskylduferðir

Fjölskylduferðir gefa fjölskyldum af öllum stærðum og gerðum hugmyndir að þeim fjölbreyttu möguleikum sem Suðurland hefur upp á að bjóða fyrir fjölskylduna á ferðalagi, hvort sem er gistimöguleikar, veitingastaðir, áhugaverðir staðir eða afþreying.

Ævintýraferðir

Ævintýraferðir draga fram fjölbreytta möguleika á afþreyingu, áhugaverðum stöðum, gistingu og veitingum fyrir þá sem vilja hreyfingu í bland við vellíðan í virkri og ævintýralegri upplifun, þar sem afþreyingin er í forgrunni.

Sæluferðir

Sæluferðir eru hugmyndir að ferðum þá sem vilja njóta og slappa af í þægilegu og þjónustumiðuðu umhverfi, hvort sem það eru einstaklingar, pör eða hópar.