Markaðsgreining
Mikilvægt er að Suðurland aðgreini sig frá öðrum landshlutum og að stjórnendur í ferðaþjónustu á Suðurlandi sameinist og hlúi vel að þeirri sérstöðu sem aðgreining þess byggir á. Sérstaða er grunnur að mótun markaðsstefnu og þar með markaðsskilaboðum svæðisins. Í Markaðsgreiningu Suðurlands sem unnin var fyrir Markaðsstofu Suðurlands árið 2016 var sett fram markaðsleg aðgreining áfangastaðarins Suðurlands frá öðrum landshlutum sem var byggð á eftirfarandi þáttum:
- Þroskuðum og reyndum fyrirtækjum
- Fjölbreyttri náttúru og sterkum náttúruseglum
- Góðum samgöngum og nálægð við höfuðborgarsvæðið og Keflavíkurflugvöll
Markaðsskilaboð svæðisins þurfa að endurspegla þessa þætti og þeir hafðir að leiðarljósi í staðfærslu Suðurlands. Staðfærsla svæðisins miðlar sérstöðu landshlutans og endurspeglar þau hugrenningatengsl sem hagsmunaaðilar vilja að myndist þegar ferðamenn hugsa um Suðurland sem áfangastað. Suðurland heillar langflesta erlenda gesti sem heimsækja Ísland og endurspeglar staðfærslan þá staðreynd sem og áðurnefnd aðgreining.
“Suðurland býr yfir fjölbreyttri og stórfenglegri náttúru með mikið aðdráttarafl sem auðvelt er að nálgast og upplifa. Fjölbreytileiki og gæði þjónustu gerir gestum kleift að njóta þess besta sem Ísland hefur upp á að bjóða allt árið um kring.”
Í staðfærslunni er að finna þessa helstu þætti sem aðgreina Suðurland, þ.e. fjölbreytta og öfluga náttúrusegla, fjölbreytilega þjónustu og afþreyingu og gott aðgengi að svæðinu árið um kring. Staðfærslan er fyrst og fremst leiðarljós í markaðssetningu svæðisins og myndar grunninn að loforði fyrir markaðssvæðið og undirstrikar það sem áfangastaðurinn Suðurland skuldbindur sig sameiginlega til að standa við gagnvart ferðamönnum.

