Fara í efni

Gullna hrings svæðið

 

Gullna hrings svæðið samanstendur af 10 sveitarfélögum, það er Árnessýslan öll, Ásahreppur og Rangárþing ytra. Þetta er fjölsóttasta svæði Suðurlands þar sem stóru perlurnar Þingvellir, Gullfoss og Geysir mynda elstu ferðaleið landsins Gullna hringinn. En svæðið býr einnig yfir fjölmörgum öðrum merkum náttúruperlum og sögustöðum á borð við Heklu, Þjórsárdal, Urriðafoss og Knarrarósvita. Einkunnarorð svæðisins er Orka.

SVÓT greining

Eftirfarandi SVÓT greining var gerð á Gullna-hrings svæðinu árið 2020 í samstarfi við helstu hagaðila.

Styrkleikar

Aðal styrkleikar svæðisins eru auðlindirnar náttúra, menning og saga. Fjölbreytni er ofarlega á lista og á það við um náttúru og þjónustu á svæðinu. ttúruperlur og sögustaðir eru margir og afþreyingarmöguleikar fjölbreyttir. Nálægð við Höfuðborgarsvæðið og Keflavíkurflugvöll teljast til styrkleika, með gott aðgengi allt árið. Svæðið er þekkt, vinsælt og mikill fjöldi þjónustufyrirtækja, mörg hver með mikla reynslu. Öflug matvælaframleiðsla er á svæðinu og áhersla á að nýta hráefni úr heimabyggð í ferðaþjónustu, matarkista og matarupplifun.
Mannauður og gott samstarf eru einnig meðal styrkleika svæðisins. Innviðir eru góðir, þó enn megi bæta.

Veikleikar

 Helstu veikleika má telja ójafna dreifingu ferðamanna um svæðið, innviðauppbygging er of hæg, samkeppni og nálægð við Höfuðborgarsvæðið, ferðamenn fara of hratt yfir. Vegakerfið og samgöngur innan svæðis og tengingar við önnur svæði. Skipulagning ferða mætti vera betra og ferðamynstur mætti bæta, Samvinnu má alltaf auka og efla jákvæðni. Markaðssetningu og upplýsingamiðlun má auka og merkingar má bæta. 

Ógnanir

Helstu ógnanir eru: Náttúruhamfarir, heimsfaraldur Covid, Mikil umferð á svæðinu og vegakerfið ekki nægilega gott, hraður vöxtur ferðaþjónustunnar og fjölgun ferðamanna og ójöfn dreifing. Skortur á skipulagi og fjármagni til uppbyggingar. Náttúra í hættu. Samkeppni við aðra landshluta. Skortur á starfsfólki og aðstöðu fyrir það. Gengismál og eyðsla ferðamanna svo að dæmi séu nefnd, sjá betur á meðfylgjandi mynd.

Tækifæri

Tækifærin eru af ýmsumtoga. Náttúran er í fyrsta lagi einstök auðlind svæðisins ásamt sögu og menningu. Þjónustuframboð er fjölbreytt en þó er rými til umbóta. Það má gera á margan hátt: Efla framboð og fjölbreytni þjónustu, bjóða upp á upplifunarferðir, lúxusferðir, fræðsluferðir, heilsuferðaþjónustu, ráðstefnur og fundi, nýta jarðhitann, matarkistuna, menningu, handverk og listir, svæðisleiðsögn, fuglaskoðun, staðaskoðun. Efla samvinnu enn frekar og virkja íbúa og erlenda starfsmenn betur. Efla menntun og þjálfun starfsfólks. Tengja við önnur svæði og bæta samgöngur. Efla markaðssetningu, kynna fjölbreyttar leiðir, nýjar leiðir og nýja staði. Síðast en ekki síst felast tækifæri í aukinni sjálfbærni.

 

Um svæðið

Uppsveitir Árnessýslu

Uppsveitir Árnessýslu njóta vinsælda allt árið, fjölbreytni er lykilorðið og aðgengi gott. Uppsveitirnar ná frá Þingvöllum að Þjórsá og langt inn á hálendið. Sveitarfélögin eru fjögur og hafa þau með sér fjölþætta samvinnu; Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur. Íbúafjöldi er um 3.266. Blómlegar sveitir, gott mannlíf, menning, landbúnaður, matvælaframleiðsla, blóm og grænmeti, hverir, fossar, hraun, fell, ár og vötn, jöklar og óbyggðir allt er þetta til staðar. Íbúafjöldi fer vaxandi, sumarhúsum fjölgar og öll þjónusta er til staðar. Byggðakjarnarnir eru Flúðir, Borg, Sólheimar, Laugarás,Reykholt, Laugarvatn, Árnes og Brautarholt. Margar þekktustu náttúruperlur landsins og sögustaðir eru í uppsveitunum og fjölbreytt afþreying í boði svo finna má allt sem ferðamenn geta óskað sér. Jarðhitinn er hluti af sérstöðu svæðisins, heitir hverir, laugar, pottar og gróðurhús.

Uppsveitirnar eru sannkölluð matarkista.Bændur og garðyrkjubændur stunda fjölbreytta matvælaframleiðslu. Matarmarkaðir, grænmetistorg og girnilegar afurðir beint frá býli eru víða í boði. Veitingastaðir eru margir með sérstöðu þar sem áhersla er lögð á hráefni úr nærumhverfi og bjóða sumir upp á matarupplifun og fræðslu.Þó svæðið sé gamalgróið ferðamannasvæði er það síungt enda koma reglulega fram nýir aðilar með ferskar hugmyndir. Þess vegna er auðvelt að koma aftur og upplifa alltaf eitthvað nýtt. Hver árstíð hefur sinn sjarma.

Í dægradvöl er úr mörgu að velja; Sundlaugar, golfvellir, hestaferðir, hestasýningar, gönguleiðir, gönguferðir með leiðsögn, veiði, söfn, fræðslustofur og sýningar af ýmsu tagi, handverksgallerí, siglingar, jöklaferðir, fjórhjól, litboltavöllur, adrenalíngarður, dýragarðar, heimsóknir í garðyrkjustöðvar, viðburðir og að sjálfsögðu veitingahús, tjaldsvæði og gististaðir af öllum gerðum. Svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi örstutt frá höfuðborginni. Þingvellir, Gullfoss, Geysir, Laugarvatn, Þjórsárdalur, Gjáin, Úlfljótsvatn, Kerið, Skálholt, Þjóðveldisbær, Kerlingarfjöll og Kjölur allt tilheyrir þetta uppsveitunum og miklu meira.

Sveitarfélagið Ölfus

Sveitarfélagið Ölfus er um 50 km frá Reykjavík. Íbúar eru 2.573, þar af 1.949 í Þorlákshöfn. Í Ölfusi er fjölbreytt landslag með svörtum sandfjörum, klettabjörgum, hraunbreiðum, hellum og háhitasvæðum svo eitthvað sé nefnt. Frá Þorlákshöfn og víðar er einstakt útsýni t.d. yfir Heklu, Eyjafjallajökul og til Vestmannaeyja. Lítil ljósmengun og víðáttumikið útsýni í Ölfusi gerir svæðið kjörið til norðurljósaskoðunar. Ölfusið er heimasvæði hamingjunnar og heitir bæjarhátíð Þorlákshafnar „Hamingjan við hafið“. Þorlákshöfn er einn af bestu brimbrettastöðum á Íslandi þar sem brimbrettakappar alls staðar úr heiminum koma til að prófa öldurnar.

Hveragerðisbær

Mikill fjöldi fólks ekur árlega gegnum Hveragerði, sem er í 45 km fjarlægð frá Reykjavík. Af Kambabrún sést hvar Hveragerði teygir úr sér á 5.000 ára flatri hraunbreiðu í skjóli fjalla. Allt árið ber hvíta gufustróka við himin, en að sumarlagi bætist græni liturinn við. Trjágróður er mikill í Hveragerði, græn bylting hefur átt sér stað og stöðugt er unnið að því að gera Hveragerði að blómstrandi bæ. Nú eru íbúar 3.196.Á árum áður var Hveragerði þekkt sem garðyrkju- og listamannabær, t.d. er gatan Frumskógar oft nefnd skáldagatan enda bjó þar um miðja síðustu öld, skáld í öðru hverju húsi. Bæjarhátíð Hveragerðis ,,Blómstrandi dagar” er sannkölluð fjölskylduskemmtun sem haldin er árlega í ágúst.Ein dýrmætasta náttúruperla Hveragerðis er Hverasvæðið. Þar er hægt að skoða lítið gróðurhús, sjóða egg og fá sér hverabakað rúgbrauð. Telja má víst að slíkt náttúruundur sé vandfundið í miðri byggð annarsstaðar í veröldinni. Nýtt hverasvæði myndaðist fyrir ofan bæinn í jarðskjálfta sem varð á Suðurlandi maí 2008.Umhverfi Hveragerðis er paradís útivistarfólks. Göngu- og reiðstígar liggja út frá bænum um Ölfusdal inn á Hengilssvæðið og alla leið til Nesjavalla og Þingvalla. Á leiðinni eru volg laug sem hægt er að baða sig í. Upplýsingamiðstöð Suðurlands er í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk en þar er einnig pósthús og jarðskjálftasýningin Skjálftinn 2008. Á sýningunni er gerð grein fyrir orsökum og afleiðingum jarðskjálftans 2008 í Hveragerði. Hægt er að upplifa jarðskjálfta í jarðskjálftahermi sem er yfir 6 á richter. Jarðskjálftasprunga sem fannst við byggingu hússins 2003 er upplýst og á sýningunni.Gott framboð af matsölustöðum og gistimöguleikum er í Hveragerði, einnig er kjörið að heimsækja Listasafn Árnesinga, Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, sundlaugina Laugaskarði og Hverasvæðin.

Flóahreppur og Sveitarfélagið Árborg

Sveitarfélögin Árborg og Flóahreppur deila merkilegri sögu, stórbrotinni náttúru og vinalegum íbúum sem telja tæplega 12.000 manns. Selfossbær er stærsta þéttbýlið ogsunnan við Selfoss eru þorpin Eyrarbakki og Stokkseyrimeðfram ströndinni. 

Svæðið býður upp á margskonar afþreyingu fyrir gesti allt frá fjalli til fjöru, náttúruperlur, menningarlíf, söguslóðir, gönguleiðir, Friðland í Flóa, kajaksiglingar, hestaferðir, sund, golf, veiði, söfn, listagallerí og úrval veitingastaða. Íbúar í Sveitarfélaginu Árborg eru  11.239. Í Flóahreppi búa 708 manns í friðsælli sveit staðsettri á milli laxveiðiánna Hvítár og Þjórsár og skartar fögru útsýni af fjöllum, jöklum og eyjum hvert sem litið er. Þar fellur Þjórsá fram af jaðri Þjórsárhraunsins og skapar Urriðafoss sem er vatnsmesti foss landsins en Þjórsárhraun varð til fyrir 8.000 árum við stærsta hraun sem runnið hefur á jörðinni. Fyrir utan  ýmsa þjónustu og möguleika til afþreyingar sem standa til boða er Flóahreppur einnig paradís fyrir náttúruunnendur og fuglaskoðara. Svæðið er sögulegt og áhersla er lögð á varðveislu menningararfleifðar.

Selfoss er stærsti þéttbýlisstaðurinn á Suðurlandi og ermiðstöð verslunar, þjónustu og iðnaðar. Bærinn er 57 km frá höfuðborgarsvæðinuog þar búa9.624manns. Á Selfossi eru fjölmargir veitingastaðir og verslanir. Þar er sundhöll með inni- og útilaug. Norðan við Selfoss er útivistarsvæðið Hellisskógur með göngustígum meðfram bökkum Ölfusár. Handan við ánna er9 holu golfvöllurinnSvarfhólsvöllur.

Á Stokkseyri búa521manns í heillandi þorpi sem er þekkt fyrir fuglalíf, fagra fjöru og öflugt lista- og menningarlíf. Gömul vinnslustöð fyrir sjávarafurðir hefur núöðlast nýtt líf sem Menningarverstöðin og hýsir vinnustofur, gallerí, Draugasafnið og Álfa- og Norðurljósasafnið. Á Stokkseyri er Veiðisafnið með uppstoppuð dýr, fugla og spendýr og Þuríðarbúð sem er endurgerð sjóbúð sem lýsir velaðbúnaði verbúðarfólks áárum áður. Íþorpinu er veitingastaður, útisundlaug, kajakferðir og tjaldstæði. Austan við Stokkseyri er Knarrarósviti sem var byggður 1938.

Á Eyrarbakka búa 620 manns í vinalegu þorpi sem áður var helsti verslunarstaður og hafnarsvæði á Suðurlandi. Fjöldi húsa er frá árunum 1890-1920 og að ganga um göturnar er eins og að ferðast aftur í tímann. Þar má finna Húsið sem var byggt árið 1765 og hýsir nú Byggðasafn Árnesinga og Sjóminjasafnið. Íþorpinu er einnig tjaldstæði, farfuglaheimili, gistihús og veitingastaður. Á Eyrarbakka er upplagt að ganga meðfram fjörunni, horfa á fuglalífið og brimið. Norðvestan við Eyrarbakka er fallegur trjálundur að Hallskoti og Fuglafriðlandiðí Flóa sem er tilvalið til fuglaskoðunar, varpstaður votlendisfugla.

Þorpin þrjú Þorlákshöfn, Eyrarbakki og Stokkseyri eru öll á Vitaleiðinni sem er um 50 km ferðaleið sem nær frá Selvogsvita í vestri að Knarrarósvita í austri.

Ásahreppur

Ásahreppur er vestast í Rangárvallasýslu. Íbúar eru 295 og hafa atvinnu af landbúnaði, verslun og öðrum þjónustugreinum. Náttúran er mjög fjölbreytt, mýrlent á köflum en ásar og holt á milli þar sem bændabýlin standa 3 - 5 í þyrpingum eða hverfum, sem einkenna byggðamynstur sveitafélagsins. Stærsta varpland grágæsar á Íslandi er við Frakkavatn. Þjórsá rennur við hreppamörkin og sýslumörkin í vestri. Afréttur Ásahrepps er hluti af Holtamannaafrétti sem nær meðal annars yfir austurhluta Þjórsárvera, og vesturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs og um hann liggur Sprengisandsvegur.

Rangárþing ytra

Rangárþing ytra er víðfeðmt sveitarfélag með 1.866 íbúa. Það afmarkast að mestu af Þjórsá að vestan, vatnaskilum að norðan að Vatnajökli og Tungnaá. Að sunnan fylgja mörkin Mýrdalsjökli að Eystri-Rangá. Rangárþing ytra er mikið landbúnaðarhérað og hestamennska stunduð í miklu mæli. Í sveitarfélaginu eru margar þekktar náttúruperlur eins og Hekla og Landmannalaugar auk margra annarra áhugaverðra staða m.a. sögustaða allt frá Landnámsöld. Hella er helsti þéttbýlis- og atvinnukjarni sveitarfélagsins með 1019 íbúa. Á Hellu byggist atvinnulífið að mestu á þjónustu við landbúnaðinn auk þjónustu við íbúa og ferðamenn. Á Hellu er banki, hótel, gistiheimili, sumarhús, tjaldsvæði, veitingahús, verslanir, apótek, heilsugæslustöð, sláturhús, bifvélaverkstæði, bensínstöð auk margs konar atvinnureksturs og opinberrar þjónustu.

Gosbeltið liggur þvert um sveitarfélagið og þar er að finna eitt virkasta eldfjall Íslands, Heklu sem er í 1.491 m.y.s. og hefur á síðustu eitt hundrað árum gosið sex sinnum. Nokkurn jarðhita má finna í Rangárþingi ytra, ekki síst Torfajökulssvæðið sem er eitt mesta jarðhitasvæði Íslands.Veiðivötn eru á Landmannaafrétti og þangað sækja árlega þúsundir veiðimanna í stangveiði og vötnin afar gjöful af bleikju og urriða, en fiskirækt í Veiðivötnum er í höndum Veiðifélags Landmannaafréttar.Margar vinsælar gönguleiðir má finna í Rangárþingi ytra, Laugavegurinn þeirra þekktastur, önnur leið, minna þekkt er Hellismannaleið. Íslenski hesturinn er í öndvegi og er mikil afþreying honum tengd. Önnur afþreying eru söfn og sýningar, Buggy ferðir, jeppaferðir, snjóbílaferðir og svo mætti lengi telja.Ferðaþjónusta er ein af mikilvægustu atvinnugreinum í sveitarfélaginu. Víða er rekin fjölbreytt þjónusta og má þar nefna veitingasölu, fjölbreytta gistiaðstöðu, hestaleigur, tjaldsvæði, golfvöll, söfn, handverkssölu og fleira. Þá eru sundlaugar á Hellu og Laugalandi. Fjölsóttir ferðamannastaðir eru í sveitarfélaginu svo sem Landmannalaugar, Landmannahellir, Veiðivötn, Þjófafoss, Fossabrekkur, Þykkvibær og Hekla.

Virðiskeðja Gullna hrings svæðisins

Hér gefur að líta greiningu sem unnin var árið 2020 á virðiskeðju svæðisins. Henni er ætlað að varpa ljósi á það virði sem verður til innan svæðisins í tengslum við ferðaþjónustu, allt frá kjarnastarfsemi atvinnugreinarinnar til stoðþjónustu og afleiddra atvinnugreina.