Vörumerki áfangastaðarins
Í vörumerkjahandbók fyrir áfangastaðinn Suðurland er dregin fram samræmd umgjörð og ásýnd vörumerkisins Suðurland (e. brand). Þar er sett fram merki Suðurlands sem er Visit South Iceland á ensku og Upplifðu Suðurland á íslensku ásamt leiðbeiningum um notkun þess. Vörumerkjahandbókin tekur einnig á aðgreiningu Suðurlands, táknum og litapallettu. Grænn litur er er aðal litur landshlutans, en að auki á hvert svæði sín einkenni svo sem sinn lit, tákn og markaðsheiti; Gullna hrings svæðið er appelsínugult með kjörorðið orka, Katla jarðvangur & Vestmannaeyjar með sæbláan lit með og einkennisorðið kraftur og Ríki Vatnajökuls ljósbláan lit með einkennisorðinu hreinleiki. Bæði litir og einkennisorð gefa þannig tóninn og ákveðin skilaboð um sérstöðu hvers svæðis innan landshlutans. Þá tekur vörumerkjahandbókin á öðrum þáttum sameiginlegrar ímyndar og ásýndar áfangastaðarins s.s. letri, markaðsefni og ljósmyndanotkun.
Merki Áfangastaðarins Suðurlands er samspil tákns og leturs. Letrið er einfalt, sterkt og skýrt. Það passar vel við táknið og tekur ekki athyglina frá því heldur vinnur með því. Táknið og samspil lita undirstrika stórfenglega náttúru Suðurlands. Í merkinu má greina fjöll, fossa, ár, jarðhita og ferðalag um veg.








