Ábyrg ferðaþjónusta
Ábyrg ferðaþjónusta vinnur vinnur á ábyrgan hátt gagnvart gestum, starfsfólki, náttúru og samfélagi. Árið 2017 fóru Íslenski ferðaklasinn og Festa í gang með hvatningarverkefnið Ábyrg ferðaþjónusta þar sem um 300 ferðaþjónustufyrirtæki skrifuðu undir yfirlýsingu um Ábyrga ferðaþjónustu og þátttöku í verkefninu. Verkefnið snýr að fjórum þáttum; náttúru, öryggi gesta, réttindum starfsfólks og jákvæðum áhrifum á nærsamfélag. Fyrirtækin setja sér markmið í þessum þáttum og nýta sér fræðslu sem tengist þeim.
Lykilþættir ábyrgrar ferðaþjónustu:
- Ganga vel um og virða náttúruna
- Tryggja öryggi gesta okkar og koma fram við þá af háttvísi
- Virða réttindi starfsfólks
- Hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið
Ferðaþjónusta í sátt við umhverfi, starfsfólk, yfirvöld og gesti
Björg Árnadóttir, framkvæmdastjóri Midgard Adventure og fyrrverandi stjórnarformaður Markaðsstofu Suðurlands segir um ábyrga ferðaþjónustu: „Ég hugsa alltaf um ábyrga ferðaþjónustu þannig að við lifum í sátt við umhverfið okkar. Við bjóðum starfsmönnum eftirsóknarvert vinnuumhverfi allt árið. Við lifum í sátt við náttúruna, umgöngumst hana af virðingu með því að skilja ekki eftir okkur ummerki. Við lifum í sátt við yfirvöld með því að skila hagnaði, greiða skatta og fylgja reglum. Við lifum í sátt við gestina okkar með því að skapa þeim einstaka upplifun og hjálpa þeim að njóta dvalarinnar á Íslandi. Við lifum í sátt við samkeppnisaðila okkar og samstarfsaðila með því að efla hvert annað og vinna saman að því að auka ánægju gesta okkar."
Íslenski ferðaklasinn. (2019). icelandtourism.is. Sótt júní 2023 frá Ábyrg ferðaþjónusta: https://www.icelandtourism.is/verkefni/abyrg-ferdathjonusta/
