Heildstæð stefnumótun fyrir áfangastaðinn Suðurland
Áfangastaðaáætlun er heildstæð áætlanagerð sem hefur ferðaþjónustu sem útgangspunkt. Áætlunin skapar umgjörð og þann ramma sem svæðið leggur áherslu á í uppbyggingu og þróun áfangastaðarins Suðurlands. Markmið hennar er að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu með sjálfbærni að leiðarljósi sem styrkir efnahag samfélaga, bætir lífsgæði íbúa, bætir upplifun ferðamanna og dregur úr mögulegum neikvæðum áhrifum frá ferðaþjónustu. Mikilvægt er að hún að sé samþætt við aðrar staðbundnar áætlanir sem og aðrar áætlanir hins opinbera. Ákvarðanir og ábyrgð á þeim aðgerðum sem þarf að ráðast í til að framfylgja þessari áfangastaðaáætlun liggur hjá mismunandi aðilum; ríki, sveitarfélögum, ferðaþjónustufyrirtækjum, hagsmunasamtökum og öðrum hagaðilum, allt eftir eðli og umfangi aðgerða og verkefna.
Samvinna og jafnvægi í áætlanagerð
Gerð áfangastaðaáætlunar felur í sér að horft sé á ferðaþjónustu út frá víðu sjónarhorni og að tekið sé tillit til margra ólíkra hagaðila sem eiga hagsmuna að gæta við þróun svæðisins. Áætlanagerðin tekur tillit til gesta, íbúa, fyrirtækja og umhverfis og leitast við að skapa jafnvægi á milli þeirra. Áfangastaðaáætlun gerir íbúum og ferðaþjónustunni kleift að sammælast um hvernig ferðaþjónustu þau vilja hafa, hvaða áhrif hún hafi á efnahag og samfélag þeirra og hvaða skref skuli taka í átt að því marki.
Framfarir og áframhaldandi þróun áfangastaðarins
Þegar horft er til baka yfir þann tíma sem liðinn er frá fyrstu Áfangastaðaáætlun Suðurlands hefur margt áunnist, mikil uppbygging hefur átt sér stað og virkt samtal og samvinna hefur verið í hinum ýmsum málefnum. Halda þarf áfram að byggja á þeirri vinnu við að þróa og efla áfangastaðinn Suðurland. Þróunin þarf að taka mið af upplifunarferðalagi gesta með það að markmiði að laga það sem þarf og bæta enn frekar það sem gott er. Útgangspunkturinn er því ávallt upplifun gestsins hvort sem það tengist aðgengi, öryggi eða þjónustu sem grundvallast á gæðum og fagmennsku.
Lifandi áætlun
Áfangastaðaáætlun er vöktuð og uppfærð í nánu samstarfi við hagaðila svæðisins. Reglulegir fundir eru haldnir með fulltrúum Faghóps sveitarfélaga á Suðurlandi í ferðamálum, Markaðsstofa Suðurlands er á í virku samtali við atvinnugreinina og vaktar lykiltölur tengdar ferðaþjónustu á Suðurlandi. Í nóvember 2020 hófst heildar endurskoðun á áætluninni og var þá stuðst við endurgjöf þátttakenda á opnum rafrænum fundi, send var út svæðaskipt könnun á aðildarfyrirtæki Markaðsstofu Suðurlands, sveitarstjóra og á þátttakendur sem skráðu sig á opna fundinn. Þannig fengust fram víðtæk sjónarmið og sýn á stöðu mála. Þá voru rýndar áherslur til framtíðar, hver staðan var þá og þá hvaða áherslur þyrfti að vinna með næstu ár. Þessar áherslur er að finna í núverandi áfangastaðaáætlun Suðurlands.
Áfangastaðaáætlun Suðurlands er lifandi áætlun sem getur tekið breytingum vegna ytri aðstæðna