Náttúruperlur
Margar af náttúruperlum Suðurlands eru friðaðar og því á forræði Náttúruverndarstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Eins er mismunandi hvort áfangastaðir eru þjóðlendur, í ríkiseign, á forræði sveitarfélaga eða í einkaeigu. Því getur verið flókið að vinna að markvissri uppbyggingu nema sameiginleg sátt sé um að hlúa að stöðum þannig að ágangur á náttúru sé í lágmarki um leið og upplifun og öryggi gesta er tryggt.
Náttúruperlur sem sérstaða Suðurlands
Samkvæmt markaðsgreiningu sem unnin var fyrir áfangastaðinn er aðgreining og sérstaða Suðurlands meðal annars að landshlutinn býr yfir fjölbreyttri náttúru og sterkum náttúruseglum með mikið aðdráttarafl sem auðvelt er að nálgast og upplifa. Þessi fjölbreytileiki náttúrusegla ásamt þjónustuframboði gerir gestum Suðurlands kleift að njóta þess besta sem Ísland hefur upp á að bjóða.
Ferðamannastaðir efla byggðir
Náttúra og náttúrutengd afþreying er algengasti hvati ferðamanna til að heimsækja Ísland. Ferðaþjónusta á Íslandi byggir stoðir sínar á góðum ferðamannastöðum en til þess að geta notið þeirra versla ferðamenn fjölbreyttar vörur og þjónustu á borð við gistingu, veitingar verslun og afþreyingu. Öflugum ferðamannastöðum getur því fylgt atvinnuuppbygging, íbúafjölgun og auknar tekjur til sveitarfélaga. Að byggja upp góða ferðamannastaði þarf því ekki að vera kvöð heldur sóknarfæri fyrir sveitarfélagið.
Á ferðavef south.is má skoða alla helstu náttúrustaði sem aðgengilegir eru ferðamönnum á Suðurlandi. Hér fyrir neðan eru nokkrar af helstu náttúrperlum landshlutans, skilgreindar sem stóru perlurnar í perlufesti Suðurlands. Ekki er um tæmandi lista að ræða.