Fara í efni

Sögustaðir Suðurlands

Á Suðurlandi ríkir gróskumikið menningarlíf og býr svæðið yfir mikilli sögu aftur til landnáms. Þingvellir, Skálholt, Vestmannaeyjar og Ingólfshöfði eru dæmi um sögufræga staði, einnig er Suðurland sögusvið Íslendingasagna líkt og Njálu. Suðurland er einnig auðugt af vönduðum sýningum og söfnum þar sem sögu lands, þjóðar og náttúru er gerð góð skil. Hér eru nokkrar af helstu söguperlum Suðurlands dregnar fram en tekið skal fram að ekki er um endanlega upptalningu að ræða heldur einungis stiklað á stóru til að draga fram fjölbreytileikann. Á vef Markaðsstofunnar má skoða menningartengda staði undir Kennileiti og sögustaðir og Saga og menning.

Mynd af Húsinu á Eyrarbakka að sumri

Gamla þorpið á Eyrarbakka

Eyrarbakki var áður helsti verslunarstaður Suðurlands. Að ganga um götur Eyrarbakka er eins og að ferðast aftur í tímann, með mörg hús byggð á árunum 1890-1920. Þar má meðal annars finna Húsið sem var byggt árið 1765 og hýsir nú Byggðasafn Árnesinga og Sjóminjasafnið. Í þorpinu eru einnig áhugaverð menningarsetur líkt og Konubókastofa og Bakkastofa.

Oddakirkja að sumri

Oddi á Rangárvöllum

Oddi á Rangárvöllum var á öldum áður eitt mesta höfðingja- og menntasetur Íslands og þar ólst Snorri Sturluson upp, meðal annarra. Oddi var um aldir stórbýli, fjölmargar hjáleigur fylgdu Odda og átti kirkjan ítök víða. Talið er að kirkja hafi staðið í Odda frá upphafi kristni á Íslandi. Núverandi kirkja er timburkirkja frá árinu 1924 og teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins

Skálholt

Saga Skálholts er jafn löng landnámi Íslands og er staðurinn einn af merkustu sögustöðum á Íslandi. Skálholt varð biskupsstóll árið 1056 og var vagga æðri menntunar um aldir og stjórnsetur Íslands. Mikið af sögu Skálholts hefur varðveist og hægt er að fræðast um hana á sýningu kirkjunnar og í Skálholtsskóla.

Mynd af Húsinu á Eyrarbakka að sumri

   

Stöng í Þjórsárdal

Á þjóðveldisöld var Þjórsárdalur líflegur og grösugur dalur en árið 1104 eyddist byggðin vegna mikils gjóskufalls frá Heklugosi. Þar hafa fundist fjölmargar rústir og sú merkasta er af stórbýlinu Stöng. Stangarbærinn er fyrirmynd að Þjóðveldisbænum í Þjórsárdal, tilgátuhúsi sem byggt var í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974.

Þingvellir

Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum. Þar var Alþingi stofnað um árið 930 og kom það saman á Þingvöllum allt fram til ársins 1798. Meginviðburðir Íslandssögunnar hafa gerst þar og því skipa Þingvellir sérstakan sess í hugum allra Íslendinga. Þingvellir eru í dag friðlýstur helgistaður Íslendinga. Í lögum segir að hið friðlýsta land skuli ævinlega vera eign íslensku þjóðarinnar og undir vernd Alþingis. Þingvellir eru á heimsminjaskrá UNESCO.

Söguferðaþjónusta á Suðurlandi

Aðrir (2)

Strandarkirkja Selvogur 815 Þorlákshöfn 892-7954
Stafkirkjan í Vestmannaeyjum - 900 Vestmannaeyjar 488-2050