Fara í efni

Svæðisbundin þróun

Þrískipting Suðurlands

Þar sem ólíkar áskoranir og tækifæri eru til staðar á svæðum innan þessa stóra landshluta, er einnig unnið með þrískiptingu landshlutans. Einkunnarorð Suðurlands eru orka, kraftur og hreinleiki og mátast orðin við einkenni þessara þriggja svæða Suðurlands.

Gullna hrings svæðið

Árnessýsla, Ásahreppur og Rangárþing ytra með einkunnarorðið ORKA

Gullna hrings svæðið samanstendur af 10 sveitarfélögum, það er Árnessýslan öll, Ásahreppur og Rangárþing ytra. Þetta er fjölsóttasta svæði Suðurlands þar sem stóru perlurnar Þingvellir, Gullfoss og Geysir mynda elstu ferðaleið landsins Gullna hringinn. En svæðið býr einnig yfir fjölmörgum öðrum merkum náttúruperlum og sögustöðum á borð við Heklu, Þjórsárdal, Urriðafoss og Knarrarósvita. 

Skoða meira um svæðisbundna þróun Gullna-hrings svæðisins

 

 

Katla jarðvangur & Vestmannaeyjar

Rangárþing eystra, Vestmannaeyjar, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur með einkunnarorðið KRAFTUR

Miðsvæði Suðurlands er kennt við Kötlu UNESCO jarðvang ásamt Vestmannaeyjum. Svæðið einkennist af svörtum sandfjörum, jöklum og fossum en þar eru einnig fjórir kaupstaðir og mikið framboð ferðaþjónustu. Hér má finna margar af þekktustu náttúruperlum landsins, svo sem Eyjafjallajökul, Seljalandsfoss, Skógafoss, Reynisfjöru, Dyrhólaey, Fjaðrárgljúfur, Dverghamra og Lómagnúp.

Skoða meira um svæðisbundna þróun Kötlu-jarðvangs og Vestmannaeyja

 

Ríki Vatnajökuls

Sveitarfélagið Hornafjörður með einkunnarorðið HREINLEIKI.

Ríki Vatnajökuls er víðáttumikið þrátt fyrir að tilheyra aðeins einu sveitarfélagi. Vatnajökull setur svip sinn á allt svæðið enda byggir ferðaþjónustan að miklu leyti á jöklaferðamennsku. Einkunnarorðið hreinleiki á þó ekki síður við matarauðlindir svæðisins, hvort sem um ræðir ferskt sjávarfang eða landbúnaðaraafurðir. Aðrir merkir staðir á svæðinu eru til dæmis Múlagljúfur, Vestrahorn, Ingólfshöfði og Lónsöræfi.

Skoða meira um svæðisbundna þróun Ríkis Vatnajökuls