Fara í efni

Sjálfbærni og ferðaþjónusta

Sjálfbær þróun snýst um að mæta þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum. Þannig er leitast eftir að byggja undir efnahagslega þróun um leið og gæðum náttúrunnar er viðhaldið og lífsskilyrði allra jarðarbúa eru efld til frambúðar. Mikilvægt er að ferðaþjónustan sem skapar efnahagsleg verðmæti þróist á sama tíma í sátt við samfélag og náttúru. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að auka gæði ferðaþjónustunnar og efla rannsóknir hvað varðar þolmörk náttúru, samfélaga og ferðamanna.

 

Sjálfbær þróun áfangastaðarins er lykilþáttur í framtíðarsýn ferðaþjónustunnar á Suðurlandi. Það er að mörgu að huga enda nær ferðaþjónustan til flutninga, gistingar, matar og náttúrustaða, viðburða og svo mætti lengi telja. Sjálfbær þróun ætti að vera leiðarstefið í allri stefnumótun og áætlanagerð, með virkri þátttöku ríkis, sveitarfélaga, atvinnugreinarinnar og íbúa landshlutans.

Ferðamálastefna Íslands

Áfangastaðaáætlun Suðurlands helst í hendur við Ferðamálastefnu Íslands. Aðgerðaáætlun Ferðamálastefnu Íslands var samþykkt í júní 2024 og var þá strax lagt af stað í þær aðgerðir sem voru metnar í hæsta forgangi. Hún miðar að því að efla ferðaþjónustu sem leiðandi á heimsvísu í sjálfbærni, stuðla að jákvæðum áhrifum á samfélög og náttúru, og tryggja samkeppnishæfni og gæði þjónustunnar. 

Skýringarmynd sem sýnir Framtíðarsýn í ferðaþjónustu og tengsl hennar við sjálfbæra þróun. Hægt er að smella á hlekk neðan við hana til að kynna sér aðgerðaáætlunina nánar.

Framtíðarsýn Íslands í ferðaþjónustu 

Skoða aðgerðaáætlun

 

Ferðaþjónusta, samfélag, náttúra

Þegar niðurstöður Áfangastaðaáætlunar Suðurlands voru að teiknast upp skiptust gögnin fljótt upp í þrjá flokka: náttúru, samfélag og ferðaþjónustu. Þessir þrír þættir eru einmitt þrjár megin stoðir sjálfbærrar þróunar, þ.e. umhverfi, samfélag og efnahagur. Jafnvægi á milli þessara grunnstoða skal ávallt haft að leiðarljósi. Ferðaþjónustan þarf að huga að jafnvægi við samfélag og náttúru svo að auðlindir skerðist ekki til framtíðar. Náttúruna þarf að vernda á þann hátt að hún beri ekki varanlegan skaða af umgengni og nýtingu. Fyrirtæki og stofnanir í ferðaþjónustu verða um leið að sýna samfélagslega ábyrgð í verki svo samfélagið njóti góðs af atvinnugreininni. Ábyrgðin er ekki síður í höndum heimamanna, ríkis og sveitarfélaga við að stuðla að sjálfbærni. Í því samhengi má nefna ábyrga nýtingu auðlinda og innviðauppbyggingu með sjálfbærni að markmiði. Mikilvægt markmið í sjálfbærri þróun er að sem mest virði af ferðaþjónustu verði eftir inni á nærsvæðinu og efli þannig samfélag og innviði.

Nærandi ferðaþjónusta

Á síðustu árum hefur orðræðan um sjálfbærni í ferðaþjónustu færst átt til Nærandi ferðaþjónustu, eða Regenerative tourism. En hver er munurinn á sjálfbærri ferðaþjónustu og nærandi ferðaþjónustu? Ef sjálfbær ferðaþjónusta leitast við að skerða ekki möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum, fer nærandi ferðaþjónusta skrefinu lengra og leitast við að gera jörðina betri fyrir komandi kynslóðir en hún er í dag. (Bill Reed, 2007)

Ef sjálfbær ferðaþjónusta leitast við að skerða ekki möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum, fer nærandi ferðaþjónusta skrefinu lengra og leitast við að gera jörðina betri fyrir komandi kynslóðir en hún er í dag.

Góð rök má færa fyrir því að ferðaþjónusta sé nærandi afl fyrir efnahag og samfélag á Suðurlandi, sem má t.a.m. sjá á fjölgun íbúa samhliða auknum umsvifum ferðaþjónustunnar. Eins eru mörg dæmi þess að ferðaþjónusta ýti undir verndun náttúru. Samt sem áður eru víða tækifæri til úrbóta eins og fram kemur í SVÓT greiningu og GAP greiningu áætlunarinnar. Áfangastaðaáætlun Suðurlands gefur góða yfirsýn yfir tækifæri sunnlenskrar ferðaþjónustu til sjálfbærni, og enn fremur að næra náttúru, samfélag og efnahag landshlutans.


Líkan byggt á Trajectory of Ecological design eftir Bill Reed. (Bill Reed - Regenesis, 2023).

 

Bill Reed - Regenesis. (12. apríl 2023). Good-design.org. Sótt júní 2023 frá Figure-1-Trajectory of ecological design-©-Bill-Reed-Regenesis: https://good-design.org/designing-the-possible-this-decade/figure-1-trajectory-of-ecological-design-bill-reed-regenesis/

Bill Reed. (2007). Shifting from 'sustainability' to regeneration. Building Research & Information, 674-680. Sótt júní 2023