Sjálfbærni og ferðaþjónusta
Sjálfbær þróun snýst um að mæta þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum. Þannig er leitast eftir að byggja undir efnahagslega þróun um leið og gæðum náttúrunnar er viðhaldið og lífsskilyrði allra jarðarbúa eru efld til frambúðar. Mikilvægt er að ferðaþjónustan sem skapar efnahagsleg verðmæti þróist á sama tíma í sátt við samfélag og náttúru. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að auka gæði ferðaþjónustunnar og efla rannsóknir hvað varðar þolmörk náttúru, samfélaga og ferðamanna.
Sjálfbær þróun áfangastaðarins er lykilþáttur í framtíðarsýn ferðaþjónustunnar á Suðurlandi. Það er að mörgu að huga enda nær ferðaþjónustan til flutninga, gistingar, matar og náttúrustaða, viðburða og svo mætti lengi telja. Sjálfbær þróun ætti að vera leiðarstefið í allri stefnumótun og áætlanagerð, með virkri þátttöku ríkis, sveitarfélaga, atvinnugreinarinnar og íbúa landshlutans.



