Katla UNESCO jarðvangur

Katla UNESCO jarðvangur er fyrsti jarðvangur Íslands, stofnaður í nóvember 2010. Að baki honum standa þrjú sveitarfélög, Rangárþing eystra með 2.035 íbúa, Mýrdalshreppur með 877 íbúa og Skaftárhreppur með 680 íbúa, og fylgir svæði jarðvangsins mörkum þeirra. Katla jarðvangur nær yfir 9.542 km2 landsvæði og þekur rúmlega 9% af flatarmáli landsins, frá Hvolsvelli í vestri að Skeiðarársandi í austri. Nyrsti hluti hans nær langt inn á Vatnajökul en langar strendur af svörtum sandi afmarka jarðvanginn í suðri. Þéttbýliskjarnar í Kötlu jarðvangi eru Hvolsvöllur, Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustur.
Jarðvangar eru samfelld landfræðileg svæði, þar sem minjum og landslagi sem eru jarðfræðilega mikilvæg á heimsvísu, er stýrt eftir heildrænni stefnu um verndun, fræðslu og sjálfbæra þróun. Markmið jarðvangsins er að draga fram sérstöðu svæðisins, þá einkum jarðminjar ásamt öðrum náttúru- og menningarminjum svæðisins, til að auka skilning á verðmætum þess, enda hefur svæðið hlotið vottun UNESCO fyrir alþjóðlega mikilvægar jarðminjar. Ferðamannastaðir sem eru viðurkenndir af UNESCO eru eftirsóttir af mörgum ferðamönnum m.a. vegna verndunar, sjálfbærni, fræðslu og menningar. Helsta markmið jarðvangsins er því að stuðla að náttúruvernd en ekki síður að sjálfbærri þróun á svæðinu sem í dag byggir að mestu leyti á ferðaþjónustu.
Jarðvangurinn vinnur í góðu samstarfi við sveitarfélög, landeigendur, stofnanir og fyrirtæki að því að efla jarðvanginn. Það gerir hann í alls konar innlendum og erlendum samstarfsverkefnum sem tengjast helst fræðslu, verndun, markaðssetningu og jarðferðamennsku. Vörur sem hafa verið handgerðar í jarðvanginum eru sérstaklega merktar og fá góða markaðssetningu í gegnum alþjóðlegt netverk Kötlu jarðvangs.
Katla jarðvangur er staðsettur á einu virkasta eldfjallasvæði landsins, þar finnast stórkostlegar landslagsheildir, fjölbreytt lífríki, alþjóðlega mikilvæg búsvæði fugla og votlendissvæði, og rík menning.
Undanfarin ár hefur ferðaþjónusta orðið að aðalatvinnugrein svæðisins og ein af stoðum samfélagsins. Náttúran og fjölbreytileikinn er það sem laðar helst að. Tækifærum fyrir ferðaþjónustu á svæðinu hefur fjölgað og eru mörg orðin býsna fjölbreytt. Í áfangastaðaáætlun jarðvangsins, sem Nohnik vann árið 2018, er sameiginleg yfirlýsing um framtíðarsýn jarðvangsins:
Í sérstakri áfangastaðaáætlun Kötlu jarðvangs segir: „Við stefnum að því að ná jafnvægi á milli vistrænna og hagrænna hagsmuna, og hagsmuna upplifunar ferðamanna með því að vernda hið náttúrulega umhverfi, stuðla að staðbundinni sjálfbærri þróun til langs tíma, sem styður við og eflir menningu á staðnum og leggur mikla áherslu á sjálfbæra náttúruferðamennsku þar sem gildi upplifunar ferðamanna er mikils metið.“
Í jarðvanginum hafa sveitarfélögin skilgreint 81 svokölluð jarðvætti (e. geosites). Meðal þeirra eru margar af vinsælustu náttúruperlum Íslands, t.d. Seljalandsfoss, Skógafoss, Reynisfjara, Dyrhólaey, Fjaðrárgljúfur, Lakagígar og Eldgjá. Jarðvættin eru ýmist skilgreind mikilvæg í jarðfræðilegum skilningi, menningarlegum eða hvorutveggja. Sumir staðir höfða vel til markaðssetningar og þola vel innviðauppbygginu á meðan aðrir henta betur til sértækari markhópa svo sem við kennslu eða til rannsókna. Með aðild að UNESCO Global Geoparks hefur stjórn jarðvangsins einsett sér að byggja upp og nýta þessa áfangastaði til að efla sjálfbæra jarðferðamennsku. Aðkoma jarðvangsins að uppbyggingu á svæðinu hefur verið mikil og má víða sjá fræðsluskilti, áningarstaði og innviði. Einnig hefur jarðvangurinn komið að útgáfu göngukorta og fræðsluefnis, staðið að fræðslu fyrir ferðaþjónustuaðila, grunnskólanema og aðra.
Vestmannaeyjar

Vestmannaeyjar eru eyjaklasi út af suðurströnd Íslands, ýmist taldar 15 eða 18 eyjar auk nærri 30 skerja og dranga. Eyjarnar hafa allar myndast við eldsumbrot og hlaðist upp á gossprungum, sem stefna frá suðvestri til norðausturs. Frá Surtsey, sem er lengst til suðvesturs, og til Elliðaeyjar, sem er lengst til norðausturs, Vestmannaeyjar liggja á nærri því beinni línu, sem er rúmlega 31 km á lengd. Heimaey er stærsta eyjan og sú eina sem er byggð. Vestmannaeyjabær telur 4.523 íbúa í janúar 2023.
Vestmannaeyjar eru auðugar af sögu sem nær frá landnámi, mannlífi, fuglalífi og eldsumbrotum. Síðast gaus í Heimaey árið 1973 þar sem flest allir íbúar eyjarinnar þurftu að flýja upp á land og 417 hús, af 1350 húsum í bænum urðu hrauninu að bráð. Sögu Heimaeyjargossins hefur verið gefið líf með byggingu safnsins Eldheima en á safninu má sjá heimili sem áður lá undir hrauninu og hefur verið grafið upp. Eldheimar sem segja frá þeim áskorunum, tíðaranda sem var í gosinu, hvaða áhrif gosið hafði á eyjarnar og uppbyggingu eftir goslok.
Nýjasta eyjan í eyjaklasanum er Surtsey, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, en hún myndaðist í gosi sem var á tímabilinu 1963-1967. Surtsey er friðuð og er algjört bann við ferðum manna í eyjuna fyrir utan vísindamanna. Sýning er um eyjuna í Eldheimum. Þó svo að Vestmannaeyjar séu ekki hluti af Kötlu UNESCO jarðvangi þá eru eyjarnar hluti af sama goskerfi og Heimaeyjargosið, það eina sem orðið hefur á seinni tíð á Íslandi með áður nefndum afleiðingum.
Þó svo að Vestmannaeyjar sé ekki stór í landrými búa eyjarnar yfir fjölmörgum áhugaverðum stöðum líkt og Eldfell, Helgafell, Heimaklett, Herjólfsdal og Stórhöfða svo að dæmi séu nefnd. Fjölbreytt ferðaþjónusta er á svæðinu sem býr yfir söfnum, sýningum, fjölbreyttum veitingastöðum, gistingu og afþreyingu ýmiskonar.
Landeyjahöfn í Rangárþingi eystra er helsta samgönguhöfnin á milli lands og Eyja. Vestmannaeyjabær er stærsta þéttbýlið á svæði Kötlu jarðvangs & Vestmannaeyja.