Styrkleikar
Samkvæmt gögnum úr samráðsferli áfangastaðaáætlunarinnar felst helsti styrkleiki svæðisins í fjölbreyttri og magnaðri náttúru þess. Vatnajökulsþjóðgarður skipar sterkan sess við mótun áfangastaðarins og hafa ferðaþjónustuaðilar verið ötullir við uppbygginu á metnaðarfullri, náttúrutengdri afþreyingu. Hefur sú þróun laðað til sín ferðamenn til lengri og skemmri tíma, allt árið um kring. Einnig styrkir það áfangastaðinn hversu hátt þjónustustig er á svæðinu, fjölbreytt úrval í afþreyingu, gistingu, mat og drykk. Samtakamáttur í markaðssetningu er annað sem hefur vakið athygli og styrkir svæðið sem áfangastað ferðamanna enn frekar.
Veikleikar
Veikleikar svæðisins þykja helst felast í erfiðum samgöngum þar sem einbreiðar brýr eru jafnan nefndar. Einnig eru nefndar langar vegalengdir á milli staða, án nokkurra almenningssamgangna. Gera má betur í menningarmálum og þykir miður hve margar sýningar og söfn hafa lokað á undanförnum árum, án þess að ný hafi opnað í staðinn. Þar að auki þykir vera vöntun á fjölskylduvænni afþreyingu sem hvetja barnafjölskyldur til að sækja svæðið heim og dvelja í nokkra daga. Höfn er sérstaklega nefnt sem veikleiki svæðisins, og þá með áherslu á aukna afþreyingu til að styrkja bæinn sem áfangastað.
Ógnanir
Helstu ógnanir sem nefndar eru fyrir svæðið tengjast náttúruhamförum, enda er náttúran bæði lifandi og mögnuð í Ríki Vatnajökuls. Eru eldgos, bráðnun jökla og skriðuföll allt ógnir sem steðja að á svæðinu. Aðrir þættir tengjast meðal annars hraðri uppbyggingu atvinnugreinarinnar og má þar nefna skort á vinnuafli, of lágum þröskuldi inn í greinina og þar með skorti á fagmennsku, og hægri stjórnsýslu sem og innviðauppbyggingu. Samráðsferlið átti sér stað í miðjum COVID faraldri og var heimsfaraldur því óhjákvæmilega áberandi ógn í umræðunni.
Tækifæri
Ljóst er að tækifæri svæðisins eru fjölbreytt, og benti góð þátttaka í samráðsferlinu til mikillar bjartsýni í garð svæðisins sem áfangastað ferðamanna. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, umhverfismál og sjálfbærni vógu þungt hjá þátttakendum, enda er náttúran gulleggið í Ríki Vatnajökuls. Fjölmörg tækifæri eru til vöruþróunar í afþreyingu sérstaklega, auk þess sem möguleikar Hafnar að verða sterkur segull sem sjávarþorp við Vatnajökul. Svæðið hefur óþrjótandi möguleika í göngu- og hjólaferðamennsku, auk þess sem sagan, náttúran og mannlífið bjóða upp á mikið pláss í menningartengdri ferðamennsku.