Fara í efni

Ríki Vatnajökuls

 

 

Ríki Vatnajökuls er víðáttumikið þrátt fyrir að tilheyra aðeins einu sveitarfélagi. Vatnajökull setur svip sinn á allt svæðið enda byggir ferðaþjónustan að miklu leyti á jöklaferðamennsku. Þá er svæðið einnig þekkt fyrir matarauðlindir sínar, hvort sem um ræðir ferskt sjávarfang eða landbúnaðaraafurðir. Aðrir merkir staðir á svæðinu eru til dæmis Múlagljúfur, Vestrahorn, Ingólfshöfði og Lónsöræfi. Einkunnarorð svæðisins er Hreinleiki.

SVÓT greining

Styrkleikar

Samkvæmt gögnum úr samráðsferli áfangastaðaáætlunarinnar felst helsti styrkleiki svæðisins í fjölbreyttri og magnaðri náttúru þess. Vatnajökulsþjóðgarður skipar sterkan sess við mótun áfangastaðarins og hafa ferðaþjónustuaðilar verið ötullir við uppbygginu á metnaðarfullri, náttúrutengdri afþreyingu. Hefur sú þróun laðað til sín ferðamenn til lengri og skemmri tíma, allt árið um kring. Einnig styrkir það áfangastaðinn hversu hátt þjónustustig er á svæðinu, fjölbreytt úrval í afþreyingu, gistingu, mat og drykk. Samtakamáttur í markaðssetningu er annað sem hefur vakið athygli og styrkir svæðið sem áfangastað ferðamanna enn frekar.

Veikleikar

Veikleikar svæðisins þykja helst felast í erfiðum samgöngum þar sem einbreiðar brýr eru jafnan nefndar. Einnig eru nefndar langar vegalengdir á milli staða, án nokkurra almenningssamgangna. Gera má betur í menningarmálum og þykir miður hve margar sýningar og söfn hafa lokað á undanförnum árum, án þess að ný hafi opnað í staðinn. Þar að auki þykir vera vöntun á fjölskylduvænni afþreyingu sem hvetja barnafjölskyldur til að sækja svæðið heim og dvelja í nokkra daga. Höfn er sérstaklega nefnt sem veikleiki svæðisins, og þá með áherslu á aukna afþreyingu til að styrkja bæinn sem áfangastað.

Ógnanir

Helstu ógnanir sem nefndar eru fyrir svæðið tengjast náttúruhamförum, enda er náttúran bæði lifandi og mögnuð í Ríki Vatnajökuls. Eru eldgos, bráðnun jökla og skriðuföll allt ógnir sem steðja að á svæðinu. Aðrir þættir tengjast meðal annars hraðri uppbyggingu atvinnugreinarinnar og má þar nefna skort á vinnuafli, of lágum þröskuldi inn í greinina og þar með skorti á fagmennsku, og hægri stjórnsýslu sem og innviðauppbyggingu. Samráðsferlið átti sér stað í miðjum COVID faraldri og var heimsfaraldur því óhjákvæmilega áberandi ógn í umræðunni.

Tækifæri

Ljóst er að tækifæri svæðisins eru fjölbreytt, og benti góð þátttaka í samráðsferlinu til mikillar bjartsýni í garð svæðisins sem áfangastað ferðamanna. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, umhverfismál og sjálfbærni vógu þungt hjá þátttakendum, enda er náttúran gulleggið í Ríki Vatnajökuls. Fjölmörg tækifæri eru til vöruþróunar í afþreyingu sérstaklega, auk þess sem möguleikar Hafnar að verða sterkur segull sem sjávarþorp við Vatnajökul. Svæðið hefur óþrjótandi möguleika í göngu- og hjólaferðamennsku, auk þess sem sagan, náttúran og mannlífið bjóða upp á mikið pláss í menningartengdri ferðamennsku.

Um svæðið

Sveitarfélagið Hornafjörður

Sveitarfélagið Hornafjörður er víðáttumikið sveitarfélag sem nær yfir 260 km strandlengju, frá Skeiðarársandi í vestri að Hvalnesi í austri. Íbúar svæðisins eru 2.547 talsins árið 2023. Þar af búa 1.808 á Höfn sem er eina þéttbýli sveitarfélagsins. Einnig er blómlegt líf í sveitunum og með auknum atvinnutækifærum fer íbúum þar hratt fjölgandi. Má það að miklu leyti rekja til uppbyggingar í ferðaþjónustu sem hefur blómstrað undanfarin ár. Vatnajökulsþjóðgarður, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, nær yfir um 60% af sveitarfélaginu, enda er svæðið stórbrotið. Voldug íshellan, töfrandi jökullónin og magnaðir íshellar laða til sín sífellt fleiri ferðamenn, auk þess sem andstæðurnar í náttúrunni gera svæðið enn tilkomumeira. Má í því samhengi t.d. nefna Skaftafell í Öræfum, Jökulsárlón í Suðursveit og Lónsöræfi í Lóni. Til sveita er stundaður fjölbreyttur landbúnaður en Höfn byggðist fyrst og fremst upp vegna öflugs sjávarútvegs. Bærinn er þekktur fyrir fjölbreytt sjávarfang og annan dýrindis mat úr héraði. Upplagt er að kíkja á Humarhátíð, sem haldin er ár hvert að sumri til.

Höfn í Hornafirði

Útsýnið frá Höfn í Hornafirði er draumi líkast, þar sem bæði fjallahringurinn í austri og Vatnajökull í suðri blasa við. Líkt og í sveitunum er ferðaþjónusta sívaxandi á Höfn og státar bærinn af stórkostlegum veitingastöðum, auk þess sem fjölbreytt afþreying og gisting er í sveitarfélaginu. Mælt er með heimsókn í Svavarssafn, gönguferð eftir Stjörnustígnum meðfram ströndinni, frisbígolfi í Hrossabithaga og sundferð. Mikið fuglalíf er á svæðinu og hafa margskonar farandfuglar það viðkomu. Einnig er Suðausturland er einn fárra staða á Íslandi þar sem hægt er að freista þess að sjá hreindýr á vappi. Fjölbreyttar göngu- og hjólaleiðir eru í boði á svæðinu, þar á meðal góðar láglendisleiðir auk krefjandi gönguleiða á nokkra af hæstu tindum landsins. Unnið er að uppbyggingu nýs áfangastaðar við Leiðarhöfða á Höfn, á grunni hönnunarsamkeppni en verkefnið hefur hlotið styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Menningarlíf Hornafjarðar er metnaðarfullt og eru gestir hvattir til að kynna sér það sem í boði er hverju sinni. Einnig er mælt með að heimsækja Gömlubúð sem er staðsett á bryggjunni við komuna til Hafnar, en þar hefur verið rekin gestastofa og upplýsingamiðstöð.

Virðiskeðja Ríkis Vatnajökuls

Hér gefur að líta greiningu sem unnin var árið 2020 á virðiskeðju svæðisins. Henni er ætlað að varpa ljósi á það virði sem verður til innan svæðisins í tengslum við ferðaþjónustu, allt frá kjarnastarfsemi atvinnugreinarinnar til stoðþjónustu og afleiddra atvinnugreina.