Upplifun gestins
Ferðaþjónusta er seld í gegn um upplifun
Ferðaþjónustan er hluti af því sem kallast upplifunarhagkerfið, þar sem vörur eru seldar gegnum upplifun neytenda. Það sem einkennir upplifunarhagkerfið er að þarfir neytandans eru ekki einungis uppfylltar með vörum og þjónustu heldur þarf að fylgja því jákvæð upplifun. Aðal afurð ferðaþjónustunnar er upplifun ferðamanna og þau fyrirtæki í ferðaþjónustu sem eru í fararbroddi, sviðsetja upplifanir eins og spunaleikrit. Gestgjafinn er þá leikstjórinn því hann sér um staðsetninguna, umgjörðina og viðfangsefnið en úrvinnsla og þróun er samvinna einstaklinga, gesta og gestgjafans. Þessi nálgun krefst góðs undirbúnings og skýrrar sýnar á það sem gestgjafinn vill skapa. (Joseph Pine II og James H. Gilmore, 2013)
Virk þátttaka neytenda
Munur er á því að þróa upplifunarferðaþjónustu og hefðbundna ferðaþjónustu. Upplifunarferðir tengja ferðamenn við heimamenn og skapa vettvang fyrir virka þátttöku beggja aðila. Ef rétt er farið að er afraksturinn ánægðir ferðamenn sem snúa heim með góðar minningar. Ánægðir viðskiptavinir verða talsmenn fyrirtækja, þeir tala vel um upplifunina og eru líklegri til að mæla með fyrirtækinu og koma aftur. (Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, 2014)
Upplifunarferðaþjónusta kallar á sameiginlega sýn
Upplifun á sér stað frá því að gestur kemur inn á áfangastaðinn og þar til dvöl gestsins líkur. Vöruþróun þar sem upplifun gestsins er í fyrirrúmi kallar á sameiginlega sýn á þeim gildum sem áfangastaðurinn stendur fyrir. Markaðsstofa Suðurlands er öflugur samstarfsvettvangur allra sem koma að upplifun gesta landshlutans á einhvern hátt, hvort sem um ræðir beina þjónustu við ferðamenn, grunnþjónustu, innviði eða stoðkerfi. Allt helst þetta í hendur við að skapa jákvæða upplifun gesta sem og heimafólks af Suðurlandi.

Joseph Pine II og James H. Gilmore. (2013). The experience economy: past, present and future. Í Jon Sundbo, & Flemming Sørensen, Handbook on the Experience Economy (bls. 269). Edward Elgar.
Sigríður Ó. Kristjánsdóttir. (2014). Einstök íslensk upplifun: vegur til vaxtar. Nýsköpunarmiðstöð Íslands.