Framtíðarsýn og markmið
Framtíðarsýn:
Ferðaþjónusta á Suðurlandi er sjálfbær þar sem áhersla er lögð á heildræna þróun í sátt við náttúru og samfélag. Ferðaþjónustan er öflug atvinnugrein og samvinna ríkir á milli mismunandi hagsmunaaðila. Gæði, jákvæð upplifun, upplýsingagjöf, fræðsla og ánægja gesta eru leiðarljós sunnlenskrar ferðaþjónustu.
Markmið:
Markmið Áfangastaðaáætlunar Suðurlands eru hér sett fram sem staðhæfingar sem endurspegla þessa framtíðarsýn. Markmiðinu telst náð þegar hægt er að segja að staðhæfingin sé orðin að veruleika. Samhliða beinum aðgerðum eru markmiðin hluti af stöðugu samtali stjórnvalda, ferðaþjónustu, samfélags og talsmanna náttúrunnar.
Samfélag
Samgöngukerfið er öruggt
Sameiginlegir hagsmunir samfélags og ferðaþjónustu liggja m.a. í öflugu og öruggu samgöngukerfi og er um margt grundvöllur fyrir að þessir hagsmunaaðilar vinni sem best saman. Þar er mikilvægt að vegakerfið, almenningssamgöngur, þjónusta og viðhald sé gott. Margt hefur verið gert til að bæta vegakerfið í landshlutanum síðustu ár, þar á meðal hefur einbreiðum brúm á þjóðvegi 1 fækkað, nýr Herjólfur hefur verið tekinn í notkun, breikkun Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss er langt komin og undirbúningur fyrir nýja Ölfusárbrú svo að dæmi séu tekin. Auk þess hafa fjölmargir vegbútar verðið byggðir upp og endurbættir, t.d. víða í Uppsveitum, í Ölfusi og á hringveginum. Þá voru allar aðgerðir tengdar samgöngum sem settar voru fram í síðustu áfangastaðaáætlun teknar til greina inn í samgönguáætlun SASS 2019-2029. Mikilvægt er að haldið sé áfram með markvissum hætti að betrumbæta vegakerfið með raunverulegan fjölda notenda í huga, ekki síst þegar kemur að viðhaldi og þjónustu. Mikilvægt er að samræma og bæta almenningssamgöngukerfið til og frá sem og innan landshlutans og huga um leið að tengingum við landið allt. Þá þarf að undirbúa innviði fyrir að taka stór skref í átt að orkuskiptum í samgöngum.
Árangursmælikvarði: Fjöldi umferðarslysa á Suðurlandi er innan þolmarka.
Vöktun: Fjöldi umferðarslysa á vegum Suðurlands (samgöngustofa) og Meðalslysatíðni á Suðurlandi og Reykjanesi (Jafnvægisás ferðamála).
Grunnþjónusta er öflug
Öflug grunnþjónusta er lykilforsenda þróunar svæða og mjög mikilvægur þáttur fyrir íbúa og til að laða að nýja íbúa og fyrirtæki. Með komu fjölda gesta inn á svæði, sem í raun eru tímabundnir íbúar þess, eykst álag á þá grunnþjónustu sem gestir þurfa mögulega að nýta sér. Þar má nefna sem dæmi heilbrigðiskerfið, löggæslu sem og aðgang að orku og vatni. Til að halda úti fjölbreyttu atvinnulífi, óháð staðsetningu, þurfa fjarskipti að vera í lagi með öflugu símasambandi og háhraða nettengingu.
Árangursmælikvarði: Viðhorf íbúa til grunnþjónustu á Suðurlandi eru jákvæð. Staða stoðþjónustu er innan þolmarka
Vöktun: Viðhorf íbúa til grunnþjónustu (Íbúakönnun landshlutanna) og Staða stoðþjónustu (Jafnvægisás ferðamála).
Íbúar finna fyrir jákvæðum áhrifum af ferðaþjónustu
Öflug atvinnugrein líkt og ferðaþjónusta hefur jákvæð áhrif á samfélagið og getur stuðlað að jákvæðri byggðaþróun þar sem hún nær að blómstra. Ferðaþjónustan skapar störf, virði og tækifæri fyrir íbúa og eflir þannig samfélagið allt, samanber tölulega skýrslu SASS yfir ferðaþjónustuna á Suðurlandi (Ferðaþjónustan á Suðurlandi í tölum og myndum, e.d.). Sterkt samfélag er líklegra til að laða til sín nýja íbúa inn á svæðið sem aftur styrkir það enn frekar. Ferðaþjónustan skapar því betri grundvöll fyrir fjölbreytta afþreyingu, verslun, veitingastaði sem og aðra innviði sem íbúar geta notið og auka þannig lífsgæði á svæðinu.
Árangursmælikvarði: Viðhorf íbúa til áhrifa af ferðaþjónustu eru undir þolmörkum.
Vöktun: Viðhorf íbúa til ferðaþjónustu (Jafnvægisás ferðamála).
Náttúra og menningarminjar
Ferðaþjónustan á Suðurlandi vinnur ávallt í sátt við náttúruna og styður við menningu og minjavernd.
Náttúran er megin auðlindin fyrir ferðaþjónustu í landshlutanum enda koma flestir gestir til landsins til að skoða okkar stórfenglegu náttúru. Menning og menningarminjar eru einnig mikilvæg auðlind þar sem margir vilja upplifa menningu svæðisins. Mikilvægt er að allir sem starfa við ferðaþjónustu og fara með umsjón eða skipulag áfangastaða hugi vel að náttúruvernd svo ekki verði gengið með óafturkræfum hætti á auðlindina. Það þarf að huga að eflingu landvörslu, stýringu á umferðarflæði, fræðslu, upplýsingagjöf í umgengni við náttúruna og forvörnum fyrir þeim hættum sem eru til staðar. Einnig er mikilvægt að viðeigandi innviðir líkt og salerni, sorplosun og bílastæði séu til staðar. Ekki er nægilegt að hafa regluverk skýrt heldur einnig að eftirlit á ferðamannastöðum og við náttúruperlur sé virkt, með sýnilega landvörslu og löggæslu þar sem við á.
Árangursmælikvarði: Öll uppbygging innviða við náttúruperlur og menningarminjar ber hag náttúru og minjaverndar að leiðarljósi.
Vöktun: a) Uppbygging innviða á Suðurlandi kortlögð (Markaðsstofa Suðurlands), b) Ástandsmat áfangastaða innan friðlýstra svæða (Umhverfisstofnun), c) Talningar á ferðamannastöðum (Ferðamálastofa), d) Álagsmat umhverfis, innviða og samfélags gagnvart fjölda ferðamanna á Íslandi (Ferðamálastofa), e) ástand innviða (Jafnvægisás ferðamála).
Ferðaþjónusta
Uppbygging ferðaþjónustu byggir á heildarsýn og sjálfbærni
Halda þarf áfram að samræma alla stefnumótun í uppbyggingu innviða og vinna skipulagsmál í takt við samfélag, náttúru og ferðaþjónustu. Þessi vinna taki áfram tillit til áætlana á borð við Vegvísi í ferðaþjónustu, Landsáætlun, Áfangastaðaáætlun og Sóknaráætlun Suðurlands. Miða þarf uppbyggingu svæða/sveitarfélaga bæði að íbúum og ferðamönnum í sátt við umhverfi og samfélag þar sem áætlanir eru gerðar til lengri tíma. Mikilvægt er að sveitarfélög nýti það tækifæri sem Áfangastaðaáætlun Suðurlands færir þeim með því að hafa áætlunina til hliðsjónar við stefnumörkun einstakra svæða. Ef huga á að einhverskonar gjaldtöku fyrir aðgang að einstaka stöðum er mikilvægt að stjórnvöld vinni það samræmt og miðlægt og að tryggð sé sanngjörn skipting tekna á milli svæða/sveitarfélaga sem endurspeglar þörf fyrir uppbyggingu innviða.
Árangursmælikvarði: Helstu áætlanir taka tillit til ferðaþjónustu, samfélags og náttúru, í takt við Framtíðarsýn ferðaþjónustunnar á Suðurlandi.
Vöktun: Greina glufur, ósamræmi, hagsmunaárekstra og ágreiningsmál í opinberum stefnum á borð við: Landsáætlun, Sóknaráætlun Suðurlands, Vegvísi í ferðaþjónustu, Atvinnustefnur sveitarfélaga og aðrar mikilvægar áætlanir á hverju tímabili.
Regluverk í ferðaþjónustu er skýrt og eftirlit er virkt
Við vinnu á fyrri áætlun kom sterkt fram mikilvægi þess að regluverkið sé skýrt, hvað má og hvað má ekki og ekki síst að reglur á milli svæða verði samræmdar. Í tengslum við það var rætt um mikilvægi þess að reglur og leiðbeiningar séu settar skýrt fram, bæði myndrænt og á helstu tungumálum. Sérstaklega er talið mikilvægt að gera reglur um tjöldun, gistingu, utanvegaakstur og almennar umgengisvenjur skýrari. Ekki er nægilegt að regluverkið sé skýrt heldur þarf eftirlitið einnig að vera virkt. Því þarf að efla allt eftirlit sem fyrir er og huga að því að eftirlitsaðilar hafi það vægi sem þeim ber svo að ferðamenn og aðrir taki mark á þeim. Einnig þarf eftirlit með uppbyggingu, framkvæmdum og rekstraraðilum að vera öflugt.
Árangursmælikvarðar: Ónæði í daglegu lífi heimamanna af ferðamönnum er innan þolmarka og staða löggæslu og eftirlits er innan þolmarka.
Vöktun: Viðhorf íbúa til ferðaþjónustu (Jafnvægisás ferðamála), Staða löggæslu á Suðurlandi (Jafnvægisás ferðamála).
Virkt samtal og samvinna er innan svæðisins og góður skilningur stjórnvalda á ferðaþjónustu
Með reglulegri uppfærslu hagaðilagreiningar áfangastaðaáætlunar má vakta þróun mála er varða samtal og samvinnu innan svæðisins. Viðhalda þarf því virka samtali og samvinnu sem er til staðar innan svæðisins. Einnig er mikilvægt að koma á auknu samtali og samvinnu þar sem upp á vantar. Mikilvægt er að stjórnvöld hugi að því að ákvarðanir séu teknar í góðri samvinnu við landsbyggðina/svæðin þar sem það á við. Forsendur eru oft á tíðum breytilegar milli landsvæða og jafnvel innan sama landsvæðis. Mikilvægt er að stjórnvöldum sé ljóst eðli atvinnugreinarinnar og vægi sem einum af grunnatvinnuvegum landsins og að ákvarðanir taki mið af því.
Árangursmælikvarði: Samvinna og samtal um ferðamál á Suðurlandi eykst.
Vöktun: Hagaðilagreining áfangastaðaáætlunar Suðurlands.
Ferðaþjónusta á Suðurlandi byggir á gæðum, fagmennsku og góðri upplýsingagjöf
Viðhalda þarf og bæta enn frekar við þau gæði og fagmennsku sem til staðar eru innan ferðaþjónustunnar á svæðinu. Mikilvægt er að fyrirtæki nýti sér þau verkfæri sem til staðar eru til að byggja undir og styðja við gæði í sinni starfsemi, sem dæmi Vörður, Vakann, Ábyrga ferðaþjónustu, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, fræðslumiðstöðvar og umhverfisvottanir. Efla þarf þjálfun, menntun og fræðslu í ferðaþjónustu, bæði í formi styttri námskeiða og heildstæðs náms sem miðar allt að því aið tryggja einstaka og ánægjulega upplifun gesta. Haga þarf fræðslu þannig að þeir sem vinna í ferðaþjónustu geti sótt sér auka menntun eða fræðslu í nærumhverfi. Einnig er mikilvægt að kynna ferðaþjónustuna og tækifærin þar fyrir ungu fólki sem enn er í námi. Samræmd og öflug upplýsingagjöf til ferðamanna innan svæðis er mikilvæg fyrir landshlutannog ferðaþjónustuna, til fólks í framlínu og heimamanna. Huga þarf að því að merkingar og skilti séu vel hönnuð, upplýsandi og vel staðsett.
Árangursmælikvarði: Ánægja gesta með heimsókn á Suðurland mælist yfir 4,7 á 5 stiga kvarða. Meðmælaskor Suðurlands er yfir 80%.
Vöktun: Ánægja með dvöl á Suðurlandi og Meðmælaskor (Ferðamálastofa).
