Fara í efni

Hugtakalykill

Hvað merkja orðin sem notuð eru í Áfangastaðaáætlun Suðurlands? Smelltu á hugtakið og finndu svarið.

Aðgengi

Hér er átt við náttúrlegt aðgengi sem og hvað hægt sé að gera til að bæta aðgengi. Það getur átt við vegi, stíga, bílastæði og tröppur sem dæmi.

Áfangastaðaáætlun

Áfangastaðaáætlun er heildstæð áætlanagerð sem hefur ferða­þjónustu sem útgangspunkt. Markmið hennar er að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu sem styrkir efnahag samfélaga, bætir lífsgæði íbúa og dregur úr mögulegum neikvæðum áhrifum frá ferðaþjónustu.

Áfangastaður og áningarstaður

Í áfangastaðaáætlun Suðurlands er talað um áningarstað sem stað sem áð er á eða stoppað er stutt við á leið á áfangastað. Áfangastaður er hér skil­greint sem mikilvægur áfangi á ferðalagi eða næturstaður vegna áfram­haldandi ferðalags.

Ferðamaður

Gestur sem dvelur a.m.k. eina nótt á staðnum sem hann kemur á.

Gestur

Einstaklingur á ferðalagi utan hversdagsumhverfis.

Grunnþjónusta

Heilbrigðisþjónusta, löggæsla, sorphirða og önnur almannaþjónusta.

Hagsmunaaðilar ferðaþjónustunnar

Allir þeir aðilar sem hafa hag af eða koma beint eða óbeint að ferðaþjónustunni.

Innviðir

Vegir, stígar, pallar, þjónusta, salerni, sorpílát og annað sem á við á hverjum stað.

Nýsköpun og vöruþróun

Nýsköpun er að skapa eða búa til eitthvað nýtt eða þróa og endurbæta eitthvað sem til er fyrir. Þetta á við um vörur, þjónustu, tækni, aðferðarfræði eða leið til sölu- og markaðssetningar svo að dæmi séu tekin. Vöruþróun lýsir heildarferlinu sem þarf til að koma nýrri vöru og/eða þjónustu á markað.

Nærandi ferðaþjónusta

Nærandi ferðaþjónusta er íslenskun á hugtakinu Regenerative tourism. Nærandi ferðaþjónusta leitast við að gera áfangastaðinn betri fyrir komandi kynslóðir en hann er í dag.

Samgöngukerfi

Vegakerfið, almenningssamgöngur, reiðleiðir, hjólaleiðir og gönguleiðir.

Sjálfbær þróun

Þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleik­um komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum.

Uppbygging

Mismunandi í hvaða samhengi verið er að tala um uppbyggingu, uppbygging vegakerfis, uppbygging ferðamannastaða, uppbygging þéttbýlisstaða sem dæmi, getur átt við stóra sem smáa hluti.

Upplifun - Upplifunarhagkerfið

Það sem einkennir hagkerfið er að þarfir neytandans eru ekki einungis uppfylltar með vörum og þjónustu heldur þarf að fylgja því jákvæð upplifun.