Fara í efni

SVÓT greining

Að taka stöðuna með SVÓT greiningu gefur góða innsýn yfir þarfir, tækifæri og áskoranir sem eru til staðar hverju sinni. SVÓT stendur fyrir styrkleikar, veikleikar, ógnanir og tækifæri. Innri áhrifaþættir eru skoðaðir sem styrkleikar og veikleikar, á meðan ytri áhrifaþættir eru ógnanir og tækifæri. SVÓT greiningin fór fram á opnum rafrænum fundi í nóvember 2020. Þar var notast við forritið menti.com til að ná fram sýn þátttakenda á fundinum á styrkleikum, veikleikum, ógnunum og tækifærum ferðaþjónustunnar á Suðurlandi. Í rauntíma teiknaðist upp orðaský með svörum þátttakenda sem er notað til að túlka stöðuna á ferðaþjónustunni, hvað þarf að vinna með, hvað er gott og þarf að viðhalda, hvað þarf að huga að og ekki síst hvaða tækifæri liggja í loftinu.

Styrkleikar Suðurlands

Suðurland sem áfangastaður á sér fjölmarga styrkleika þar sem náttúrufegurð og fjöldi þekktra náttúrperla er hvað mest áberandi. Einnig er aðgengi gott að náttúruperlum Suðurlands og fjölbreytileiki þeirra mikill og speglast það vel við aðgreiningu Suðurlands sem dregin var fram í markaðsgreiningu landshlutans árið 2016. (Markaðsstofa Suðurlands, 2016) Á Suðurlandi er mikil og fjölbreytt afþreying í boði en auk þess er löng hefð fyrir og mikil reynsla í móttöku gesta innan landshlutans. Þá eru þjónustuaðilar innan svæðis reynslumiklir í samstarfi ýmiskonar og býr greinin yfir mikilli þekkingu á landshlutanum og sögu hans. Hugað er að gæðum og fagmennsku og flest fyrirtæki eru með starfsemi allt árið þar sem árstíðarsveifla hefur verið tiltölulega lítil. Á Suðurlandi eru tveir þjóðgarðar og einn jarðvangur. Hér er aðeins hluti af styrkleikunum talinn upp og sjá má helstu styrkleika Suðurlands í orðaskýinu. Mikilvægt er að huga að þessum styrkleikum svo mögulegt sé að viðhalda þeim og skapa umgjörð þar sem styrkleikarnir geta notið sín.

Veikleikar Suðurlands

 

Veikleikar Suðurlands að mati þátttakenda á opnum fundi um uppfærslu Áfangastaðaáætlunar Suðurlands, nóv 2020.

 

Að velta upp veikleikum Suðurlands gefur tækifæri til að efla landshlutann. Helstu veikleikar snúa að samgöngum og vegakerfi, þar koma einbreiðar brýr oft fram sem veikleiki sem og að almenningssamgöngur séu ekki nægilega góðar. Ójöfn dreifing ferðamanna um svæðið, mikill fjöldi ferðamanna og fjarlægðir, t.a.m. innan svæðis og frá Keflavíkurflugvelli og Höfuðborginni er dregið fram sem veikleikar landshlutans í heild sinni. Náttúruperlur Suðurlands eru sterkar sem aðdráttarafl en um leið getur náttúran ógnað öryggi ferðamanna á margvíslegan hátt. Náttúran er einnig viðkvæm fyrir átroðningi. Því þarf að vinna áfram að markvissri uppbyggingu sem miðar að náttúruvernd og auknu öryggi ferðamanna. Annar veikleiki sem kemur fram í þessari greiningu er skortur á skilningi og stuðningi frá sveitarfélögum og þunglamaleg stjórnsýsla Suðurlandi. Hvað varðar atvinnugreinina sjálfa má nefna tungumálaörðuleika, skort á vinnuafli og skort á fræðslu og upplýsingamiðlun. Upptalningin er ekki tæmandi og misjafnt hvaða meiningu þátttakendur setja í orðin sem koma fram í orðaskýinu. Greiningin gefur samt sem áður ágæta yfirsýn yfir þá veikleika sem landshlutinn glímir við.

 Ógnanir Suðurlands

Ógnanir á Suðurlandi að mati þátttakenda á opnum fundi um uppfærslu Áfangastaðaáætlunar Suðurlands, nóv 2020.

Ógnanir eru oft þess eðlis að ekki er hægt að stýra því hvort að þær raungerist. Þar eru meðal annars náttúruhamfarir eins og eldgos, jarðskjálftar, skriðuföll og heimsfaraldar líkt og heimsbyggðin tókst á við á árunum 2020 og 2021. Svo eru það efnahagslegir þættir líkt og gengi gjaldmiðla en þar skipa stjórnvöld og efnahagsstjórn á landsvísu stóran sess. Lengri tíma ógnanir líkt og loftlagsbreytingar kalla á að allir leggist á árarnar til að sporna við þeim, þ.e. íbúar, gestir, stjórnvöld og atvinnurekendur. Sumir þátttakenda nefndu áhyggjur af of mikilli samþjöppun ferðaþjónustufyrirtækja og að mörg fyrirtæki á svæðinu verði að miklu leiti í eigu erlendra fjárfesta. Aðrir óttuðust að ferðavilji og ferðageta eftir COVID myndi ógna landshlutanum þar sem ferðaþjónusta er stærsta atvinnugrein landshlutans. (Ferðaþjónustan á Suðurlandi í tölum og myndum, e.d.). Hér er ekki tæmandi upptalning og má sjá fleiri svör á meðfylgjandi orðaskýi yfir ógnanir ferðaþjónustunnar á Suðurlandi.

Tækifæri Suðurlands

Tækifæri Suðurlands að mati þátttakenda á opnum fundi um uppfærslu Áfangastaðaáætlunar Suðurlands, nóv 2020

Það er gaman að sjá hversu mörg tækifæri þátttakendur listuðu upp fyrir Suðurland. Þar kemur maturinn sterkt fram, menning, saga, náttúra, samvinna og „local love“. Einnig það að dreifa og lengja dvöl ferðamanna á svæðinu, svokölluð hæglætisferðaþjónusta (e. slow travel). Upplifun kemur sterkt inn ásamt gæðum, fjölbreyttri afþreyingu og menningararfi. Þátttakendur sjá mikil tækifæri í að bæta samgöngur, þá sérstaklega almennings samgöngur, göngu- og hjólaleiðir og í því samhengi fleiri ferðaleiðir. Tækifæri eru í að auka við ýmsa sértæka ferðaþjónustu líkt og heilsutengda ferðaþjónustu, ferðaþjónustu þar sem jarðfræðin er áherslupunktur (geotourism), matartengd ferðaþjónusta, söguferðaþjónusta svo að dæmi séu tekin. Þegar orðaskýið yfir tækifærin á Suðurlandi er skoðað skín jákvæðni og bjartsýni í gegn hjá Sunnlendingum.