Fara í efni

Glufugreining

Glufugreining er einnig þekkt undir enska nafninu Gap analysis. Hún er þannig framkvæmd að fyrst er gerð greining á stöðunni eins og hún er í dag. Þá er lögð fram óska-staða, eða það markmið sem stefnt er að. Að lokum er glufan á milli núverandi stöðu og óska-stöðu skoðuð en hún getur sýnt hvernig má ná fram settum markmiðum.

Staða
Hér er greining á stöðu viðkomandi málefnis eins og hún er í dag.

Glufa
Hér er glufan á milli núverandi stöðu og óska-stöðu. Hún sýnir okkur hvernig má ná fram settum markmiðum.

Óskastaða
Óskastaðan er það markmið sem stefnt er að.

 

Glufugreining ferðaþjónustunnar á Suðurlandi

Markaðsstofa Suðurlands vann glufugreiningu á ferðaþjónustu Suðurlands árið 2021. Helstu áherslur sem komu fram hjá svæðunum voru uppbygging eftir COVID, sjálfbær þróun í ferðaþjónustu, þverfaglegt samtal og samvinna, ábyrg ferðaþjónusta, öryggi og aðgengi, náttúruvernd, krafa um bættar samgöngur og vegabætur, gæði og gæðamál, aðgangsstýring ferðamanna og dreifing, upplýsingagjöf, fræðsla og merkingar, fjárfesting og nýsköpun og bætt aðgengi að áreiðanlegum hagtölum og rannsóknum í ferðaþjónustu. 

Smelltu á viðfangsefnin til að skoða niðurstöður glufugreiningarinnar.

Uppbygging eftir heimsfaraldur

Staða

Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á ferðaþjónustu á Suðurlandi, sem er ein stærsta atvinnugrein svæðisins. Flest fyrirtækin eru lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki og urðu fyrir miklu áfalli. Rekstraraðilar þurftu að draga saman rekstur án þess að loka fyrir gesti, en þegar opnað var aftur reyndist erfitt að manna stöður vegna brottflutnings erlendra starfsmanna og starfsbreytinga. Eigendur og starfsmenn upplifðu mikið álag og óvissu. Takmarkanir og óvissa höfðu víðtæk áhrif á samfélagið og hindruðu markvissa uppbyggingu. Aðgerðir ríkisins komu þó í veg fyrir gjaldþrot margra fyrirtækja, en áhyggjur af framtíð og uppbyggingu voru áfram miklar.

Glufa

Mikilvægt er að styðja vel við ferðaþjónustuna á uppbyggingartíma ekki síður en á óvissutímum. Sem dæmi má nefna að efla markaðssetningu enn frekar sem og þverfaglegt samstarf á svæðinu. Mikilvægt er að rísa öflug saman upp eftir heimsfaraldurinn, fyrirtæki, stoðkerfi og sveitarfélög. Hlutverk sveitarfélaga er að vera öflugur bakhjarl og tryggja grunninn sem ferðaþjónustan getur vaxið upp af. Stoðkerfið hafi frumkvæði að hvatningu og stuðningi. Það kann að vera í formi kynninga, funda, námskeiða og fleira. Fyrirtækin taki þátt í samstarfi og nýti þau tæki og tól sem til staðar eru til að eflast og vaxa í breyttu umhverfi.

Óskastaða

Ferðaþjónustan á Suðurlandi er orðin öflug, samstillt og sjálfbær eftir heimsfaraldurinn. Fyrirtæki, stoðkerfi og sveitarfélög vinna saman á markvissan hátt að uppbyggingu greinarinnar. Sveitarfélögin veita traustan stuðning og tryggja grunninn sem ferðaþjónustan byggir á, stoðkerfið leiðir fræðslu og hvatningu, og fyrirtækin nýta markvisst þau tækifæri og úrræði sem eru í boði. Markaðssetning Suðurlands hefur verið efld og samstarf á svæðinu er virkt og árangursríkt. Heildarniðurstaðan er sterk og stöðug ferðaþjónusta sem eflir atvinnulíf og samfélag á Suðurlandi.

 

Sjálfbær þróun

Staða

Rík áhersla er lögð á mikilvægi sjálfbærrar þróunar fyrir íslenska ferðaþjónustu. Sjálfbær þróun felur í sér að mæta þörfum samtímans án þess að skerða gæði framtíðarinnar, að auka efnahagsleg verðmæti á sama tíma og náttúra og samfélag eru vernduð og mannréttindi virt. Mikilvægt er að ferðaþjónustan þróist í sátt við samfélag og náttúru og að gæði þjónustu og rannsókna á þolmörkum séu efld. Sjálfbær ferðaþjónusta hefur verið í brennidepli á alþjóðavettvangi, m.a. með átaki Sameinuðu þjóðanna árið 2017. Framtíðarsýn ferðaþjónustunnar á Suðurlandi endurspeglar þessa stefnu og er í samræmi við stefnuramma íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030.

Glufa

Auka þarf enn frekar við fræðslu um sjálfbæra þróun og opna betur á tækifæri fyrir ferðaþjónustufyrirtæki til að þróa sig í átt að sjálfbærni. Hér er tækifæri fyrir ríki og sveitarfélög að styðja við sjálfbæra þróun í gegnum hagræna hvata til fyrirtækja sem taka upp vinnulag og verkefni sem leiða til aukinnar sjálfbærni. Hluti af sjálfbærri þróun snýst um virkt samtal og samvinna sé til staðar innan svæðis þannig að verkefni inni á svæðinu sýni rauðan þráð þar sem þekking og fyrri verkefni séu nýtt bæði til að lágmarka sóun og nýta fjármagn á sem bestan hátt. Því er mikilvægt að stofnanir og einingar innan landshlutans séu meðvitaðar um aðrar áætlanir og verkefni taki mið af þeim.

Óskastaða

Ferðaþjónustan á Suðurlandi er orðin fyrirmynd í sjálfbærri þróun og starfar í fullu samræmi við náttúru, samfélag og efnahagsleg gildi. Fræðsla og stuðningur við sjálfbærni eru aðgengileg fyrir öll fyrirtæki og ríki og sveitarfélög styðja með hagrænum hvötum og stefnumótun sem ýtir undir sjálfbær vinnubrögð. Samvinna og samhæfing milli stofnana og fyrirtækja er orðin markviss og tryggir að verkefni innan svæðisins séu tengd, nýti fyrri þekkingu og stuðli að minni sóun og auknum árangri. Þannig verður Suðurland leiðandi svæði í sjálfbærri ferðaþjónustu á Íslandi.

 

Ábyrg ferðaþjónusta og ferðahegðun

Staða

Ábyrg hegðun ferðamanna er skiptir sköpum hvað varðar öryggi, náttúru, nærsamfélag, starfsfólk og ímynd áfangastaðarins. The Icelandic Pledge, verkefni Íslandsstofu frá 2017, hvetur ferðamenn til að sýna ábyrgð í hegðun sinni, virða náttúruna og ferðast á öruggan hátt. Ábyrg ferðaþjónusta snýr einnig að fyrirtækjum sem bera ábyrgð gagnvart gestum, starfsfólki, náttúru og samfélagi. Ábyrg ferðaþjónusta, samstarfsverkefni Íslenska ferðaklasans og Festu, sameinar um 300 fyrirtæki sem vinna að auknum gæðum og samfélagslegri ábyrgð. Eftir COVID-19 jókst áhersla á öryggi og hreinlæti og setti Ferðamálastofa á laggirnar verkefnið Hreint og öruggt árið 2020 til að tryggja traust og öryggi ferðamanna.

Glufa

Mikilvægt er að halda verkefninu Icelandic Pledge vel á lofti og þannig fræða og hvetja ferðamenn, innlenda sem erlenda, til að ástunda ábyrga ferðahegðun. Þá er vert að hvetja ferðaþjónustufyrirtæki til að huga að ábyrgri ferðaþjónustu og nýta sér þau verkfæri sem eru til staðar til að vinna að auknum gæðum og fagmennsku. Innleiða mætti víðar t.a.m. verkefni Ferðamálastofu, Hreint og öruggt, hjá fyrirtækjum og taka þátt í verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta.

Óskastaða

Ábyrg ferðaþjónusta og ábyrg ferðahegðun eru orðin sjálfsagður og sýnilegur hluti ferðaþjónustunnar á Suðurlandi. Ábyrg ferðahegðun er samofin kynningu á landshlutanum. Ferðaþjónustufyrirtæki vinna eftir viðurkenndum viðmiðum um ábyrgð, gæði og öryggi. Samvinna og fagmennska eru orðin leiðarljós greinarinnar og stuðla að traustri, sjálfbærri og virðingarverðri ferðaþjónustu á Suðurlandi.

 

Öryggi og aðgengi

Staða

Huga þarf vel að öryggi á ferðamannastöðum til að lágmarka líkur á slysum. Þar sem náttúran á Íslandi er margbreytileg og óútreiknanleg er ekki hægt að koma í veg fyrir öll slys, en grundvallarreglan er að ferðamaður ferðast á eigin ábyrgð og sýni ábyrgð gagnvart náttúru og samfélagi. Umferðaröryggi er ábótavant, sérstaklega í ljósi fjölgunar ferðamanna og breytinga á ferðavenjum eftir heimsfaraldur, þar sem fleiri kjósa að ferðast sjálfstætt í bílaleigubílum eða húsbílum. Nauðsynlegt er að efla fræðslu til ferðamanna um íslenskar aðstæður og að bílaleigur axli ábyrgð á að upplýsa viðskiptavini sína áður en þeir leggja af stað.

Glufa

Halda þarf áfram að gera öryggisúttektir á helstu ferðamannastöðum til að meta hvernig má bæta öryggi. Á flestum friðlýstum svæðum er búið að gera öryggisáætlanir en huga þarf að öðrum stöðum sem ekki eru á forræði Umhverfisstofnunnar eða þjóðgarða. Hægt er að nýta það vinnulag sem til er, svo sem stjórnunar- og verndaráætlanir, jafnvægisás ferðamannastaða eða önnur verkfæri sem henta á hverjum stað. Huga þarf að öryggisþáttum á þjóðvegum eins og að fjölga tengivegum, útrýma einbreiðum brúm, breikka vegi og fjölga útskotum við veginn þar sem ferðamenn stoppa gjarnan og taka myndir. Góðar merkingar eru mikilvægur þáttur í að leiðbeina gestum þegar kemur að aðgengi og öryggi, sem dæmi með leiðbeiningum um svæðið, hvar má ganga, hversu langt er í næsta stopp/útsýnisstað eða salerni sem og viðeigandi fræðslu um svæðið, lífríkið eða söguna. Mælt er með að nýta þann grunn sem búið er að vinna líkt og Vegrún – merkingar á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum.

Óskastaða

Öryggi og aðgengi á ferðamannastöðum á Suðurlandi er tryggt með markvissum úttektum, faglegri uppbyggingu og samræmdu verklagi. Reglulegar öryggisúttektir eru framkvæmdar á öllum helstu stöðum, bæði innan og utan friðlýstra svæða, með áherslu á forvarnir og aðgengi fyrir alla. Vegakerfið styður við örugga ferðamennsku með fjölgun tengivega, breiðari vegum, betri útskotum og skýrum upplýsingaskiltum. Ferðamenn fá réttar og aðgengilegar upplýsingar um svæði, gönguleiðir og öryggisatriði, og bílaleigur og aðrir þjónustuaðilar sinna fræðslu með ábyrgð. Samspil góðra innviða, merkinga og fræðslu tryggir örugga og jákvæða upplifun ferðamanna og stuðlar að traustu orðspori Suðurlands sem öruggs og vel skipulögðs áfangastaðar.

 

Náttúra og umhverfi

Staða

Helsta ástæða þess að ferðamenn vilja heimsækja Ísland er náttúran og einstök náttúrufyrirbæri en samkvæmt könnun meðal erlendra ferðamanna sem Ferðamálastofa lét gera sumarið 2019 kemur fram að 91,3% ferðamanna koma til Íslands vegna náttúrunnar (Ferðamálastofa). Rík áhersla er á að náttúruvernd sé í forgrunni þegar kemur að ferðaþjónustu. Einnig er þar rætt um aðgengi og er mikil áhersla lögð á að það sé skilgreint fyrir hvert svæði fyrir sig og að aðgengi að náttúrunni sé aldrei á kostnað hennar heldur sé hugað að bæði sjálfbærni og upplifun.

Glufa

Skilgreina markvissar hvernig aðgengi hvers svæðis/ferðamannastaðar fyrir sig á að vera sérstaklega með tilliti til náttúru og minjaverndar. Enn er mikilvægt að vinna að verndun náttúrunnar og huga að sjálfbærni. Þegar unnið er að uppbyggingu áfangastaða er ávallt hugað að því að lágmarka rask á náttúrunni til framtíðar og sem dæmi er hægt að hanna og byggja upp stíga, palla, tröppur og önnur mannvirki á þann hátt að notuð séu efni sem falla sem best að landslaginu eða að hægt sé að fjarlægja mannvirki síðar án þess að skilja mikil ummerki eftir á svæðinu.

Óskastaða

Náttúra og umhverfi er verndað í sátt við ferðaþjónustu á Suðurlandi. Aðgengi að náttúrusvæðum er vel skipulagt og skilgreint út frá verndarsjónarmiðum og sjálfbærni, þar sem upplifun ferðamannsins fer saman við náttúruvernd. Allar framkvæmdir og uppbygging ferðamannastaða eru hannaðar með tilliti til náttúrunnar, þannig að rask sé lágmarkað og efni falli vel að umhverfi og valdi ekki varanlegum skaða. Náttúruvernd og sjálfbærni eru orðin grundvallarþættir í allri stefnumótun og framkvæmd ferðaþjónustu á Suðurlandi, sem styrkir orðspor svæðisins sem ábyrgan og náttúruvænan áfangastað.

 

Samfélag

Staða

Áhrif ferðaþjónustu á samfélag eru bæði jákvæð og neikvæð. Íbúar njóta jákvæðra áhrifa þegar aukin umferð ferðamanna leiðir til betri þjónustu, lengri opnunartíma, fjölbreyttari afþreyingar og fleiri veitingastaða og kaffihúsa. Neikvæð áhrif koma fram þegar ferðaþjónusta þrýstir á samfélagið og menninguna, t.d. þegar húsnæði fer úr hefðbundinni notkun í gistingu eða þegar þjónusta miðast meira við ferðamenn en íbúa. Markaðsstofa Suðurlands hefur unnið að því að draga fram jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar með frásögnum, gögnum og kynningarefni um fyrirtæki á svæðinu. Einnig hefur SASS unnið að rannsóknum á félagslegum þolmörkum íbúa á Suðurlandi gagnvart ferðaþjónustu, í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði.

Glufa

Halda þarf áfram að efla ímynd ferðaþjónustunnar með því að leggja áherslu á jákvæð samfélagsleg áhrif atvinnugreinarinnar, sérstaklega á þeim svæðum þar sem álag á samfélagsleg þolmörk er mest. Skipuleggja þarf til framtíðar með hliðsjón af mögulegri fjölgun íbúa vegna aukinna starfa í ferðaþjónustu. Samfélög þurfa að vera undirbúin til að taka vel á móti nýjum íbúum og skapa tækifæri fyrir menningartengsl milli heimamanna og aðfluttra. Mikilvægt er að halda áfram að miðla jákvæðum áhrifum ferðaþjónustunnar á byggð, atvinnulíf og samfélög á Suðurlandi.

Óskastaða

Ferðaþjónustan á Suðurlandi hefur jákvæð, sjálfbær og sýnileg áhrif á samfélögin á svæðinu. Íbúar upplifa aukin lífsgæði og betra þjónustustig samhliða fjölgun gesta, án þess að menning, húsnæðismál eða samfélagsleg gæði verði fyrir neikvæðum áhrifum. Samfélögin eru opin og móttækileg fyrir nýjum íbúum og skapa vettvang fyrir gagnkvæma aðlögun og menningarsamskipti. Skipulag tekur mið af langtímahagsmunum samfélaga og atvinnulífs, þar sem ferðaþjónustan styrkir byggð og stuðlar að fjölbreyttu, sjálfbæru og samheldnu samfélagi.

 

Stýring og dreifing ferðamanna

Staða

Mikilvægt er að landshlutar og svæði innan þeirra vinni saman að því að fá ferðamenn til að stoppa lengur og ferðast víðar. Það er gert með fjölgun segla, aukinni afþreyingu og skipulögðum ferðaleiðum. Fjölmörg verkefni tengd Landsáætlun um uppbyggingu innviða eru í gangi, og áhersla er á að fylgja settum stefnum og áætlunum til að vernda náttúruperlur og menningarminjar. Verkefnið Varða – Merkisstaðir Íslands hófst árið 2021 og miðar að heildrænni áfangastaðastjórnun þar sem fjölsóttir staðir eru betur undirbúnir til að taka á móti gestum með virðingu fyrir náttúru og samfélagi. Markvisst þarf að vakta þörf fyrir viðhald, uppbyggingu og hvíld svæða, og taka upp stýringu á viðkvæmum og fjölsóttum stöðum til að bregðast við auknum fjölda ferðamanna. Mörg verkefni hafa þegar verið unnin til að bæta aðstöðu og skipulag ferðamannastaða og efla landvörslu. Eignarhald ríkisins á stöðum eins og Jökulsárlóni og Geysi veitir tækifæri til markvissrar að heildstæðrar uppbyggingar. Sveitarfélög og landeigendur hafa einnig tekið virkan þátt í að byggja upp nýjar leiðir og aðstöðu, svo sem Vitaleiðina sem dregur ferðamenn að minna sóttum svæðum.

Glufa

Halda þarf áfram að innleiða virka stýringu á fleiri ferðamannastöðum með fjölbreyttum aðferðum, svo sem betra skipulagi stíga, gönguleiða og merkinga, dreifingu gesta yfir daginn og tímabundnum lokunum eða takmörkunum vegna ágangs. Einnig má nýta aðgengisstýringar, t.d. með því að færa bílastæði fjær náttúruperlum til að verja viðkvæm svæði. Mikilvægt er að halda áfram uppbyggingu ferðamannastaða og ferðaleiða í samræmi við Landsáætlun um uppbyggingu innviða, verkefnið Varða – Merkisstaðir Íslands og skipulagsáætlanir á friðlýstum svæðum, til að tryggja jafnvægi milli verndar, upplifunar og álagsdreifingar til framtíðar.

Óskastaða

Á Suðurlandi hafa ferðamannastaðir verið markvisst byggðir upp með náttúruvernd og jákvæða upplifun að leiðarljósi. Skipulagðar ferðaleiðir, góðar merkingar og faglegt skipulag stýrir flæði ferðamanna. Fjölsóttir staðir eru geta tekið á móti gestum á öruggan og sjálfbæran hátt um leið og nýir og minna sóttir staðir eru kynntir til að jafna álag. Sveitarfélög, landeigendur og stofnanir vinna að sameiginlegri áfangastaðastjórnun þar sem náttúruvernd, upplifun og samfélagsleg áhrif eru í jafnvægi. Suðurland stendur frammi sem fyrirmynd í stýringu ferðamanna á landsvísu.

 

Gæðamál

Staða

Mikil áhersla er á gæðamál í ferðaþjónustu á Suðurlandi. Lykilatriði er að auka gæði með því að nýta þau verkfæri og gæðakerfi sem þegar eru til staðar, svo sem Vakann. Vakinn er samræmt íslenskt gæðakerfi ferðaþjónustunnar sem miðar að því að efla gæði, öryggi, starfsumhverfi og umhverfisvitund innan greinarinnar. Kerfið veitir handleiðslu, stuðning og verkfæri sem hjálpa fyrirtækjum að bæta rekstur og starfshætti. Það byggir á erlendum fyrirmyndum, m.a. Qualmark á Nýja-Sjálandi, og hótelhluti þess fylgir stöðlum Hotelstars í Evrópu. Hluti af gæðamálum felst einnig í ábyrgri ferðaþjónustu þar sem fyrirtæki axla samfélagslega ábyrgð gagnvart starfsfólki, samfélagi, náttúru og öryggi. Festa hefur þróað greiningartól sem styður fyrirtæki við að meta og bæta samfélagslega ábyrgð.

Glufa

Kynna þarf reglulega og hvetja ferðaþjónustufyrirtæki til að taka upp og viðhalda sameiginlegu gæðakerfi ferðaþjónustunnar, Vakanum, ásamt því að tengja það við önnur verkefni á borð við Ábyrga ferðaþjónustu og Hreint og öruggt. Með því má tryggja samræmt gæðastarf, fagmennsku og ábyrgð innan greinarinnar.

Óskastaða

Ferðaþjónustan á Suðurlandi starfar samkvæmt samræmdum gæðaviðmiðum sem tryggja fagmennsku, öryggi, áreiðanleika og samfélagslega ábyrgð. Vakinn er vel innleitt og virkt gæðakerfi sem fyrirtæki á svæðinu nýta sér til að bæta þjónustu og rekstur. Verkefni á borð við Ábyrga ferðaþjónustu og Hreint og öruggt eru samþætt gæðastarfinu og styrkja sameiginlega ímynd Suðurlands sem áfangastaðar af hæsta gæðaflokki. Þannig verða gæði, öryggi og ábyrgð hluti af sjálfsmynd ferðaþjónustunnar á svæðinu.

 

Upplýsingagjöf, merkingar og fræðsla

Staða

Fræðsla og upplýsingagjöf í ferðaþjónustu er grunnur að gæðum og jákvæðri upplifun ferðamanna. Mikilvægt er að efla bæði þjálfun og menntun í ferðaþjónustu auk þess að efla fræðslu og vinna að bættri upplýsingagjöf til ferðamanna. Huga þarf sérstaklega að merkingum en gæta þarf að samræmi, tungumálum og almennt betri leiðbeiningum. Auka þarf við og bæta upplýsingaefni og leggja þarf áherslu á jákvæð formerki í upplýsingagjöf svo sem að hafa upplýsingaskilti frekar en bannskilti. Þörf er á auknum skilningi og jákvæðari umræðu gagnvart greininni og mikilvægi hennar fyrir samfélögin og þjóðarbúið. Hætt er við að neikvæð umræða valdi því að gestir upplifi minni gestrisni, ánægja þeirra minnki og meðmælaskor ferðamanna um Suðurland og Ísland lækki. Allt eru þetta nauðsynlegir þættir í velgengni Íslands og Suðurlands sem áfangastaður erlendra sem innlendra ferðamanna. Þess vegna er mikilvægt að bregðast við neikvæðri orðræðu með því að skoða hvað greinin geti gert betur gagnvart samfélaginu auk þess að auka fræðslu og upplýsingar til íbúa, stjórnvalda og fjölmiðla um mikilvægi ferðaþjónustu í efnahagslegu og samfélagslegu tilliti.

Glufa

Samræma þarf merkingar og leiðbeiningar á upplýsingaskiltum og nýta til þess Vegrúnu, handbók um merkingar á www.godarleidir.is. Einnig þarf að vinna að auknum skilningi íbúa, stjórnvalda og fjölmiðla á mikilvægi og eðli ferðaþjónustunnar, ásamt því að efla þjálfun, fræðslu og menntun innan greinarinnar til að styrkja gæði þjónustu og ímynd ferðaþjónustunnar.

Óskastaða

Upplýsingagjöf, merkingar og fræðsla í ferðaþjónustu á Suðurlandi eru samræmdar, aðgengilegar og faglega unnar. Allar merkingar fylgja viðmiðum Vegrúnar og eru á fjölmörgum tungumálum með jákvæðri og leiðbeinandi framsetningu. Ferðamenn fá skýrar og gagnlegar upplýsingar sem stuðla að öryggi, ánægju og virðingu fyrir svæðinu. Íbúar, fjölmiðlar og stjórnvöld hafa aukinn skilning á mikilvægi ferðaþjónustunnar, og fræðsla, þjálfun og menntun innan greinarinnar tryggja fagmennsku og jákvæða ímynd. Suðurland stendur frammi sem fyrirmynd í upplýsingagjöf og gestrisni.

 

Samgöngur

Staða

Rík krafa er um að halda áfram að bæta samgöngur með viðhaldi og aukinni þjónustu. Með fjölgun ferðamanna til landsins á undanförnum árum og breyttri ferðahegðun, þar sem fleiri kjósa að ferðast á bílaleigubílum en í skipulögðum rútuferðum, hefur álagið á vegakerfið og umferðarþunginn aukist. Góðar samgöngur eru grundvöllur fyrir því að ferðaþjónusta og samfélagið í heild geti starfað. Að undanförnu hefur margt verið unnið til hins betra í samgöngukerfinu. Allir þeir þættir er snúa að samgöngumálum í fyrri áfangastaðaáætlun voru teknir til skoðunar við gerð Samgönguáætlunar SASS. Vegurinn hefur verið breikkaður á milli Hveragerðis og Selfoss og ný brú yfir Ölfusá er á áætlun. Búið er að fækka einbreiðum brúm, sér í lagi á hringveginum. Siglingaleið Herjólfs er ekki skilgreind sem hluti af þjóðvegi 1 en hins vegar hefur Vestmannaeyjabær tekið yfir reksturinn á ferjunni. Þá hefur uppbygging vegna aukinnar innleiðingar rafbíla stóraukist.

Glufa

Áfram er þörf fyrir að viðhalda og tryggja góðar og öruggar samgöngur á landi, sjó og í lofti. Viðhald vega, flugvalla og hafna þarf að vera reglulegt þannig að hætta skapist ekki. Áfram þarf að vinna að því að útrýma einbreiðum brúm. Huga þarf að merkingum og leiðbeiningum þannig að þau sinni sínu leiðbeinandi hlutverki. Huga þarf að orkuskiptunum og breyttum samgönguháttum en mikil aukning hefur verið í rafbílum í umferðinni auk hjólandi umferðar, hvort sem eru reiðhjól eða rafhlaupahjól. Fjölmargar hleðslustöðvar eru víðsvegar um Suðurlandið en bæta þarf þar í svo að gott sé að ferðast um landshlutann á rafbíl. Almenningssamgöngur þurfa að vera til staðar á þann hátt að þær nýtist íbúum sem og gestum.

Óskastaða

Samgöngur á Suðurlandi eru öruggar, vistvænar og vel samhæfðar milli allra ferðamáta. Vegakerfið er vel við haldið, einbreiðum brúm hefur verið útrýmt, og merkingar eru skýrar og leiðbeinandi. Innviðir styðja við orkuskipti og nýja ferðamátar með góðu aðgengi að hleðslustöðvum og öruggum hjólastígum. Almenningssamgöngur eru skilvirkar, áreiðanlegar og þjóna bæði heimamönnum og ferðamönnum. Samgöngur á landi, sjó og í lofti stuðla að öryggi, sjálfbærni og jákvæðri upplifun fyrir alla sem ferðast um Suðurland.

 

Fjárfesting og nýsköpun

Staða

Síðustu ár hefur fjölbreytt nýsköpun og vöruþróun átt sér stað hjá ferðaþjónustufyrirtækjum á Suðurlandi. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa umsjón með Uppbyggingasjóði Suðurlands sem veitir verkefnastyrki á sviði nýsköpunar, menningar og atvinnuþróunar á Suðurlandi, ásamt sérstökum Áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands. Sóknaráætlunin fyrir 2020-2024 leggur áherslu á málaflokkana samfélag, atvinnuþróun- og nýsköpun og umhverfismál og skulu verkefnin ná til alls Suðurlands eða ákveðinna svæða á Suðurlandi. Gott dæmi um áhersluverkefni var Sóknarfæri ferðaþjónustunnar sem var sett upp sérstaklega sem viðbragð við COVID-19. Þar skapaði stoðkerfið innan landshlutans umgjörðina og var hluti verkefnisins samkeppnissjóður sem ferðaþjónustufyrirtæki gátu sótt í. Mikil ásókn var í sjóðinn og voru tæplega 100 fyrirtæki sem fengu úthlutað styrk, handleiðslu ráðgjafa og aðgengi að sértækri fræðslu og sérfræðiþjónustu. Niðurstöður könnunar sem send var út til þátttakenda benda til þess að árangur verkefnisins hafi verið góður. Þátttakendur voru ánægðir með verkefnið og stuðninginn sem það gaf þeim á erfiðum tímum.

Glufa

Til þess að fyrirtæki geti unnið að nýsköpun og vöruþróun er mikilvægt að fjárfestingamöguleikar séu til staðar og að styrkjaumhverfið sé aðgengilegt innan landshlutans. Sóknaráætlun, Uppbyggingasjóður, áhersluverkefni og ráðgjöf eru mikilvægir þættir innan hvers landshluta. Þó svo að fjöldi ferðaþjónustufyrirtækja á Suðurlandi sé mikill er enn rými fyrir fleiri. Á sumum svæðum vantar gistingu og öðrum svæðum er rými fyrir fleiri og fjölbreyttari veitingastaði og afþreyingu. Það eru því mörg tækifæri fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki í tengslum við ferðaþjónustu á Suðurlandi að vinna að aukinni vöruþróun og nýsköpun á svæðinu.

Óskastaða

Fjárfestingar- og nýsköpunarumhverfi í ferðaþjónustu á Suðurlandi er sterkt, aðgengilegt og virkt. Fyrirtæki hafa greiðan aðgang að fjármögnun, ráðgjöf og styrkjum sem styðja við þróun nýrra hugmynda. Samstarf milli opinberra aðila, sveitarfélaga og fyrirtækja tryggir markvissan stuðning við frumkvöðla og nýsköpunarverkefni. Á svæðinu hefur orðið fjölgun gistingirýma, veitingastaða og afþreyingarkosta í samræmi við eftirspurn en þó í takt við sjálfbæra þróun. Nýsköpun og fjárfesting eru orðin drifkraftar í áframhaldandi vexti og þróun ferðaþjónustu á Suðurlandi.

 

Rannsóknir og hagtölur

Staða

Greinagóðar rannsóknir og hagtölur er grundvöllur fyrir góðar ákvörðunartökur jafnt í ferðaþjónustu sem og annars staðar. Halda þarf áfram að efla rannsóknir í ferðaþjónustu og byggja stefnumótun og ákvarðanatöku á traustum upplýsingum. Viðhalda þarf þolmarkarannsóknum bæði í tengslum við náttúru og samfélag. Auka þarf rannsóknir á ferðahegðun svo og markaðsrannsóknir, sérstaklega niður á svæði. Hagtölur eru mjög mikilvægar fyrir greinina til þess að gefa rétta mynd af stöðu hennar og framtíðarhorfum.

Glufa

Þrátt fyrir framfarir, m.a. með tilkomu Mælaborðs ferðaþjónustunnar, er þörf á að bæta og samræma gagnasöfnun og greiningu enn frekar, sérstaklega á svæðisbundnum grunni. Auka þarf fjármögnun og leggja meiri áherslu á reglubundnar rannsóknir á ferðahegðun, markaðsrannsóknir og þolmarkarannsóknir fyrir einstaka landshluta og svæði. Mikilvægt er að tryggja að rannsóknir uppfylli gæðakröfur, séu marktækar og samanburðarhæfar yfir tíma. Jafnframt þarf að bæta samhæfingu gagnasöfnunar milli stofnana, svo sem Ferðamálastofu, Ríkisskattstjóra, sýslumanna og Heilbrigðiseftirlits, til að tryggja samræmdar og heildstæðar upplýsingar. Einnig þarf að efla miðlun og notkun á rannsóknarniðurstöðum og hvetja hagaðila til að nýta þau gögn og verkfæri sem þegar eru til staðar.

Óskastaða

Rannsóknir og hagtölur í ferðaþjónustu á Suðurlandi eru áreiðanlegar, samræmdar og reglulegar, og mynda traustan grunn fyrir stefnumótun og ákvarðanatöku. Gögn eru greind niður á svæði og nýtt af fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum til að styðja við markvissa þróun greinarinnar. Samstarf milli opinberra aðila tryggir að gögn frá mismunandi kerfum og stofnunum tengjast saman og mynda heildstæða mynd. Rannsóknir eru vandaðar og marktækar og gera kleift að bera saman þróun yfir tíma og svæði. Hagaðilar hafa greiðan aðgang að gögnum og nýta þau markvisst til að bæta þjónustu, stefnu og sjálfbærni ferðaþjónustunnar á Suðurlandi.

 

Starfsfólk í ferðaþjónustu

Staða

Góður aðbúnaður, fræðsla og þjálfun starfsfólks stuðla að ánægju, minni starfsmannaveltu og bættri þjónustu. Mikil starfsmannavelta í ferðaþjónustu veldur kostnaði og tekur tíma frá stjórnendum sem gætu annars einbeitt sér að gæðabótum og starfsánægju. Stór hluti starfsmanna í greininni er erlent starfsfólk sem oft hefur lítið stuðningsnet hér á landi. Vinnuveitendur þurfa því stundum að útvega húsnæði og leiðbeina um réttindi og skyldur, sérstaklega þegar starfsfólk hefur ekki íslensku að móðurmáli. Ímynd og ásýnd fyrirtækja í mannauðsmálum hefur bein áhrif á rekstur, þjónustugæði og ánægju starfsfólks og gesta.

Glufa

Það er sameiginlegt verkefni fyrirtækja og sveitarfélaga að taka vel á móti starfsfólki og skapa góðan grunn fyrir líðan og starfsánægju. Hlúa þarf að starfsfólki með því að tryggja viðeigandi húsnæði, góða aðstöðu, aðgengilega upplýsingamiðlun, fræðslu og þjálfun fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Einnig þarf að tryggja möguleika á að sækja menntun og starfsþróun á svæðinu. Með samstilltu átaki má stuðla að aukinni starfsánægju, stöðugleika og gæðum í ferðaþjónustunni.

Óskastaða

Starfsfólk í ferðaþjónustu á Suðurlandi býr við góðan aðbúnað, sterkt stuðningsumhverfi og fjölbreytt tækifæri til fræðslu og starfsþróunar. Samstarf fyrirtækja, sveitarfélaga og fræðsluaðila tryggir að nýir starfsmenn fái góða móttöku og aðstaða, húsnæði og leiðbeiningar séu til fyrirmyndar. Erlent starfsfólk nýtur stuðnings og aðlögun að samfélaginu, og starfsánægja endurspeglast í lægri starfsmannaveltu og betri upplifun gesta. Ferðaþjónustan á Suðurlandi er þekkt fyrir faglegt, ánægt og vel menntað starfsfólk sem eykur gæði þjónustunnar og orðspor svæðisins.