Samtal og samvinna
Svo unnt sé að vinna markvisst eftir Áfangastaðaáætlun Suðurlands er mikilvægt að það sé rauður þráður frá henni yfir í aðrar staðbundnar áætlanir, á landsvísu og jafnvel á heimsvísu.

Svo unnt sé að vinna markvisst eftir Áfangastaðaáætlun Suðurlands er mikilvægt að það sé rauður þráður frá henni yfir í aðrar staðbundnar áætlanir, á landsvísu og jafnvel á heimsvísu.

Dæmi um staðbundnar áætlanir eru aðalskipulag sveitarfélaga á svæðinu, Sóknaráætlun Suðurlands, áætlanir Vatnajökulsþjóðgarðs, Þjóðgarðsins á Þingvöllum og Kötlu UNESCO jarðvangs. Þá er vert að nefna Svæðisskipulag Suðurhálendis, sem er í vinnslu þegar þetta er skrifað.
Mikilvægt er að áfangastaðaáætlanir falli vel að áætlun Ríkisins um ferðaþjónustu líkt og Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030, Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum og Jafnvægisás ferðaþjónustunnar. Einnig er mikilvægt að hafa Byggðaráætlun til hliðsjónar við gerð áætlunarinnar.
Liður í að Ísland innleiði Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er að skoða hvernig markmið og mögulega aðgerðir áfangastaðaáætlunar mátast við Heimsmarkmiðin og þannig stuðla að aukinni sjálfbærni.
Á Suðurlandi starfa nokkrar stofnanir sem tengjast ferðaþjónustunni á einhvern hátt og þá helst sem umsjónaraðilar einstaka áningar- og áfangastaða . Flestar af þessum stofnunum hafa sínar eigin áætlanir sem ramma inn þeirra starf. Virkt samtal og samvinna þvert á stofnanir hefur mikil samlegðaráhrif, samræmir stefnur og stuðlar að aukinni sátt á milli ólíkra hagaðila. Þar er lykilatriði að gæta þess að tala ekki eingöngu við lögbundna aðila heldur einnig sjálfstæðar stofnanir. Áfangastaðurinn Suðurland ber mikinn hag af því að þessar stofnanir deili þekkingu, miðli upplýsingum og samræmi áætlanir sínar.






