Þau þróunarverkefni sem Markaðsstofa Suðurlands hefur unnið að út frá fyrstu útgáfu Áfangastaðaáætlunar Suðurlands snúa meðal annars að auknu samtali, að vera sá vettvangur sem býður upp á samstarf, mótun verkferla og handbóka við undirbúning og gerð nýrra göngu- og hjólaleiða. Einnig verið unnið að frekari samræmingu í ímynd og ásýnd markaðsefnis fyrir áfangastaðinn Suðurland, að nýta betur auðinn sem býr í matnum í matarkistunni Suðurlandi sem og matarupplifunum og að stýra vinnu við gerð nýrra ferðaleiða.
Jákvæð skilaboð
Neikvæð umræða um ferðamenn og ferðaþjónustuna var oft á tíðum hávær í fjölmiðla- og samfélagsumræðunni. Því var ein af áherslum fyrri áætlunar að koma jákvæðum skilaboðum í texta, myndum og myndböndum til íbúa og í umræðuna í fjölmiðlum. Verkefnið fólst í að skrifa greinar, gera myndbönd og draga fram jákvæðar staðreyndir og gögn til að birta á hinum ýmsu miðlum.
Vörumerkjahandbók
Til að byggja betur undir vörumerkið Suðurland og samræmda ímynd og ásýnd áfangastaðarins var útbúin handbók vörumerkis fyrir landshlutann. Skapar það skýran ramma fyrir markaðsefni Suðurlands og styrkir vörumerkið og vitund til muna. Þá eru tilgreindir einkennislitir fyrir Suðurland og hvert svæði, tákn og einkennisorð (orka, kraftur, hreinleiki) til notkunar við kynningar á landshlutanum í heild eða einstaka svæðum eftir því sem við á.
Mynda- og textabanki Suðurlands
Annað megin stef í fyrri áætlun var að byggja frekar undir samræmda ímynd og ásýnd áfangastaðarins. Liður í þeirri vinnu var verkefni sem fékk styrk sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands árið 2019. Verkefnið fólst í að útbúa sameiginlegan texta- og myndabanka á íslensku og ensku og gera aðgengilegan fyrir Markaðsstofuna, SASS og sveitarfélögin í landshlutanum. Þar voru sameiginleg ásýnd og áherslur dregnar fram til þess að þessir aðilar gætu nýtt til kynningar, upplýsingagjafar og fleira. Sérstakt mynda- og efnisumsjónarkerfi er nýtt til að halda utan og miðla efninu.
Ferðaleiðir
Til að stuðla að fjölbreyttari ferðamöguleikum og þar með fleiri áfangastöðum innan svæðis, með það að markmiði að ferðamenn ferðuðust víðar um svæðið, var unninn grunnur að nýjum ferðaleiðum á Suðurlandi. Í því verkefni voru meðal annars unnar leiðbeinandi handbækur með gátlistum um gerð göngu- og hjólaleiða sem sveitarfélög, landeigendur, félagasamtök og aðrir geta nýtt sér þegar verið er að vinna að göngu- og/eða hjólaleiðum. Verkefnið hlaut m.a. styrk sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands.
Vitaleiðin
Til að draga betur fram fleiri segla á Suðurlandi með það að markmiði að dreifa álagi var einnig ný ferðaleið undirbúin og sett á laggirnar sem fékk heitið Vitaleiðin. Leiðin nær frá Selvogsvita í vestri að Knarrarósvita í austri og er tilvalin leið til að ganga, hjóla eða hlaupa. Leiðin nýtir strandlengjuna að mestu og þá slóða sem eru til staðar ásamt því að draga fram fallegu þorpin þrjú við sjávarsíðuna; Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri. Þá er möguleiki að aka leiðina og stoppa í þorpunum og við áhugaverða staði á leiðinni. Leiðin er tæplega 50 km löng og því tilvalin þriggja daga gönguleið þar sem hægt er að gista í þorpunum, skoða söfn og sögu svæðisins og njóta náttúruupplifunar. Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við Sveitarfélögin Ölfus og Árborg.
Eldfjallaleiðin
Ný ferðaleið var þróuð í samstarfi við Markaðsstofu Reykjaness. Svæði ferðaleiðarinnar er frá Reykjanesbæ til Hafnar í Hornafirði og eins og nafnið gefur til kynna er þema leiðarinnar eldfjöll og eldvirkni. Markmið verkefnisins er að hægja á ferðamönnum meðfram Suðurströnd Íslands og lengja dvöl þeirra. Niðurstöður af vinnustofum um Eldfjallaleiðina sýndu að mikill áhugi er fyrir að laða að fróðleiksfúsa ferðamenn og efla fræðslutengda ferðaþjónustu. Gestastofur, söfn, sýningar og fræðandi upplifanir tengdar þema leiðarinnar verða því í forgrunni. Áhersla verður lögð á að draga fram fámennari áfangastaði sem eru tilbúnir að taka við auknum fjölda gesta, ásamt því að tengja gesti betur við menningu og mannlíf á svæðinu.
Matarauður Suðurlands
Í síðustu áætlun kom sterkt fram að mörg tækifæri væru til að vinna enn meira og betur með matinn á Suðurlandi og verður það áfram stór áherslupunktur í þessari uppfærslu. Markaðsstofa Suðurlands fékk styrk frá Matarauði Íslands í verkefni sem fólst í að vinna grunn að Matarauði Suðurlands. Í því verkefni voru veitingastaðir og matvælaframleiðendur kortlagðir, matarauður og matarhefðir Suðurlands sem og svæðanna þriggja voru tekin saman og birt á sérstakri undirsíðu landshlutavefsins www.south.is. Einnig voru haldnar fjórar vinnustofur þar sem aðilar tengdir mat, veitingaaðilar, framleiðendur, vinnsluaðilar og aðrir áhugamenn um mat mættu og hlýddu á erindi frá upplifunarhönnuði og veitingamönnum með reynslu af vöruþróun. Verkefnið lagði góðan grunn að áframhaldandi vinnu við að efla Suðurland sem áfangastað fyrir matarupplifun.