Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Kirkjur á Suðurlandi sem eru sögulega og menningarlega áhugaverðar. 

Villingaholtskirkja
Villingaholt er kirkjustaður og var löngum stórbýli. Á 17. öld var hér prestur, Jón Erlendsson en hann var afkastamesti handritaskrifari landsins. Hann á sinn mikla þátt í að varðveita ýmsar helstu perlur handritanna með því að skrifa þau upp, m.a. að beiðni Brynjólfs Sveinssonar biskups. Frægasta ritið sem séra Jón bjargaði þannig frá glötun er Íslendingabók, en mörg handrita okkar eru rituð með hendi Jóns. Síðar bjó hér þjóðhagsmiðurinn og bóndinn, Jón Gestsson (1863-1945) en frá honum er komin mikil ætt hagleiksfólks. Jón teiknaði og byggði núverandi Villingarholtskirkju á árunum 1910-1911. Kirkjan er bárujárnsklædd úr timbri og á hlöðnum grunni. Kirkjan er með turni og sönglofti og tekur 100 manns í sæti.  Ef gengið er syðst á lóð Þjórsárvers má sjá gamlan bæjarhól en þar stóð Villingaholtskirkja og bæjarhúsið áður. Í kjölfar viðverandi sandfoks og mikils tjóns í suðurlandsskjálftanum árið 1784 voru þau flutt um set að núverandi stað. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Þykkvabæjarklaustur
Þykkvabæjarklaustur er kirkjustaður í Álftaveri. Þar var munkaklaustur í katólskum sið, stofnað árið 1168, og hélst til siðaskipta. Munkur í Þykkvabæjarklaustri var Eysteinn Ásgrímsson, sem uppi var á 14. öld. Stuðlabergssúla er reist á þeim stað sem talið er að klaustrið hafi staðið.Þykkvabær í Veri Þorkell Geirason, bóndi að Þykkvabæ (d. 1187), gaf Kristi allar eigur sínar og lét stofnsetja klaustur honum til dýrðar. Þorlákur, síðar helgi, Þórhallsson var fenginn til verksins og var Ágústínusarklaustur stofnað 1168. Gerðist hann munkur (kanoki) í klaustrinu þegar í upphafi og varð fyrsti ábóti þess. Á árum Þorláks sem ábóta varð þess vart að fólk varð heilbrigt eftir blessun hans og árið 1984 gerði kaþólski páfinn John Paul II Þorlák helga að verndardýrlingi Íslands.  Klaustrið gegndi mikilvægu hlutverki sem menningar- og heilbrigðisstofnun. Vitað er með vissu að á tímum Brands Jónssonar ábóta (f. 1202 - d. 1264) var skóli rekinn í klaustrinu og sneri hann Alexanders sögu á íslenska tungu. Athyglivert er að rittengsl eru talin vera á milli texta Njáls sögu og þýðingar Brands ábóta á Alexanders sögu. Fleiri þekkt ritverk og kvæði urðu til í klaustrinu. Eysteinn Ásgrímsson munkur orti þar hið þekkta helgikvæðið Lilju sem „allir vildu Lilju kveðið hafa“. Alla jafna hefur verið margmenni í klaustrinu en auk munka, sem sennilega voru um 13 talsins, dvöldu í klaustrinu vistmenn og óvígt vinnufólk. Því þurfti stórt bú til að standa undir mjólkur- og kjötþörf klaustursins og var bústofninn árið 1340: 250 kýr, 84 geldneyti, 410 sauðfé og 53 hross. Vitnisburð um forna búskaparhætti má sjá í gömlum rústum, Fornufjósum, sem standa norðan viðklausturhólinn og eru friðlýstar.   Á þessum tíma voru hafskipasiglingar mögulegar að þröskuldum klaustursins þar sem Kúðafljót var skipgengt og því aðdrættir til klaustursins greiðir. Samband við erlenda trúbræður var þar af leiðandi auðveldara en ætla mætti. Það segir okkur að landslag hér hafi verið ólíkt því sem nú er og var meðal annars farið á bátum frá klaustrinu að Fornufjósum og göngubrú var lögð að Nunnutóttum sem eru taldar rústir hússins þar sem nunnur frá Kirkjubæjarklaustri gistu í heimsóknum sínum. Til að tryggja allt siðgæði var brúin að sjálfsögðu tekin upp yfir nóttina.  Við siðaskipti færðust eignir kirkjunnar til Danakonungs og voru eignirnar aðgreindar frá óðalseignum bænda með heitinu konungsjörð. Sérstakir klausturshaldarar voru fengnir til að hafa umsjón með eignunum. Nær öll skjöl frá tímum klaustursins hafa glatast en sum þeirra tók Árni Magnússon til Danmerkur þar sem þau brunnu inni. Önnur fuku burt úr skemmdum húsum klaustursins eða voru notuð til uppkveikju á köldum vetrarkvöldum. Vegna ágangs Kötlugosa og sandfoks hurfu einnig hús og byggingar klaustursins en eftir standa örnefni og munnmælasögur.  
Selfosskirkja
Selfosskirkja var byggð á árunum 1952 – 1956 og vígð það sama ár. Hún var teiknuð af Bjarna Pálssyni skólastjóar Iðnskólans á Selfossi. Árið 1978-1984 var bætt við kirkjuna forkirkju, turn og safnaðarheilmili með eldhúsi ásamt aðstöðu fyrir félagsstarf. Kirkja var máluð og skreytt af Jóni og Grétu Björnsdóttir listakonu sem sá um flúrið en í því er leitast við að fylgja kirkjuárinu. Gluggar kirkjunar voru unnir af glerlistafólki frá Þýskalandi og kom í kórinn árið 1987 en í kirkjuskipið árið 1993. Þó Selfosskirkja sé ung að árum er hún með sérstöðu meðal kirkna landsins á 20 öld. Sr. Sigurður Pálsson var fysti sóknarpresturinn í Selfosskirkju en áður var hann í Hraungerði í Flóa en flutist á Selfoss 1950 þegar fólksfjölgun varð hér. Lagði hann mikla áherslu á helgihald, endurreisn hins forna og sígilda messusöngva ásamt messuformi sem er þekkt sem helgisiðabókin Graduale (þrepasöngur) og var gefin út árið 1594. Grallari kallast þessi bók og inniheldur tónlög og texta að messusöng og tíðagjörð kirkjunnar. Hefur verið enn þá daginn í dag haldið í þessum anda, Grallarans íslenska og mörgum kunn að finnast að hönnun kirkjunnar minna einnig á þennann anda. Sr. Sigurður Sigurðarson tók við embætti föður sins árið 1971 en lét af störfum árið 1994 og hélt þá í vígslubiskupsembætti í Skálholti. 
Skálholt
Bær, kirkjustaður, prests- og skólasetur og fyrrum setur biskupa í Skálholtsbiskupsdæmi. Þar er jarðhiti og heitir þar Þorlákshver. Skálholt er einn merkastur sögustaður á Íslandi, næst Þingvöllum. Kristni á Íslandi hefur verið knýtt fastari böndum við Skálholt en nokkurn annan stað. Sonur landnámsmannsins í Grímsnesi og Biskupstungum, Teitur Ketilbjarnarson, byggði fyrstur bæ í Skálholti. Sonur hans var Gissur hvíti sem kom með kristni til Íslands og átti einna veigamestan þátt í kristnitöku landsmanna. Hans son, Ísleifur, varð fyrstur biskup á Íslandi 1056 og sat í Skálholti. Kirkja var reist á staðnum og jörðin gefin undir biskupssetur. Kvað gefandinn svo á, að þar skyldi vera biskupssetur meðan kristni héldist í landinu. Sá hét líka Gissur, Ísleifsson, biskups. Hann er talinn hafa verið einhver glæsilegasti kirkjuhöfðingi á Íslandi fyrr og síðar. Hann kom á tíundarlögum á Íslandi árið 1097. Annar biskupinn með Gissurarnafni í Skálholti, sem verulega kemur við sögu staðarins, er Gissur Einarsson (1512-1548). Hann varð fyrstur biskup í lútherskum sið á Íslandi. Skálholtsbiskupar urðu alls 44, 31 kaþólskur og 13 lútherstrúar á árunum 1056-1801. Margir merkir atburðir hafa gerst í Skálholti, sumri hverjir þeir örlagaríkustu í sögu lands og þjóðar. Í Skálholti réðust íslenskir bændur oftar en einu sinni að erlendum valdsmönnum og ræningjum og drápu þá, þar á meðal erlendan biskup, Jón Gerreksson, sem sat þar á biskupsstóli. Honum stungu Íslendingar í poka og drekktu í Brúará, árið 1433.  Árið 1550 var síðasti kaþólski biskupinn á Hólum, Jón Arason, fluttur fanginn til Skálholts og hálshöggvinn þar ásamt sonum sínum. Í Skálholti voru um aldir mikil fræðistörf unnin. Þar var prentsmiðja um skeið á seinni hluta 17. aldar og í henni fyrst fornrit prentuð á Íslandi. Í Skálholti var unnið að fyrstu bókinni sem prentuð var á íslensku. Það var Nýja testamentið þýtt af Oddi Gottskálkssyni og prentað 1540. Brynjólfur Sveinsson (biskup 1639-1674) var mikill unnandi íslenskra fræða og safnaði dýrmætum handritum og sendi þau konungi til Kaupmannahafnar, sem þá var höfuðborg Íslands. Annar Skálholtsbiskup varð frægur fyrir fræðistörf sín, Finnur Jónsson sem skrifaði Kirkjusögu Íslands í fjórum miklum bindum, hið gagnmerkasta sagnfræðirit. Í Skálholti sat á þriðja áratug Jón Vídalín sem talinn er hafa verið einn mestur og mælskastur kennimanna á Íslandi fyrr og síðar. Í Skálholti voru um aldir mikil fræðistörf unnin. Þar var prentsmiðja um skeið á seinni hluta 17. aldar og í henni fyrst fornrit prentuð á Íslandi. Í Skálholti var unnið að fyrstu bókinni sem prentuð var á íslensku. Það var Nýja testamentið þýtt af Oddi Gottskálkssyni og prentað 1540. Brynjólfur Sveinsson (biskup 1639-1674) var mikill unnandi íslenskra fræða og safnaði dýrmætum handritum og sendi þau konungi til Kaupmannahafnar, sem þá var höfuðborg Íslands. Annar Skálholtsbiskup varð frægur fyrir fræðistörf sín, Finnur Jónsson sem skrifaði Kirkjusögu Íslands í fjórum miklum bindum, hið gagnmerkasta sagnfræðirit. Í Skálholti sat á þriðja áratug Jón Vídalín sem talinn er hafa verið einn mestur og mælskastur kennimanna á Íslandi fyrr og síðar.
Skógakirkja
Skógar eru með elstu kirkjustöðum á landinu. Þar hefur kirkja staðið frá því um 1100 en hennar er fyrst getið í Kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá aldamótunum 1200. Kirkja hélst í Skógum allt til ársins 1890 en þá voru síðustu bændakirkjurnar í Steinum og Skógum lagðar niður enda voru þær baggi á ábúendum því að það var á þeirra ábyrgð og efnahag að halda þeim við. Síðasta kirkjan í Skógum var lítil og hrörleg timburkirkja.  Skógar fengu svo aftur þann merka sess að eiga kirkju þegar Þórður Tómasson safnstjóri og fræðimaður í Skógum lét gamlan draum sinn og annarra rætast og reist var kirkja við Byggðasafnið í Skógum. Fyrstu skóflustunguna tók séra Halldór Gunnarsson í Holti. Kirkjan var reist eftir teikningum Hjörleifs Stefánssonar en til hliðsjónar voru hafðar gamlar sveitakirkjur. Sveinn Sigurðsson frá Hvolsvelli var yfirsmiður kirkjunnar. Að utan er kirkjan reist með nýjum viðum en innsmíði að mestu gömul frá kirkju í Kálfholti frá 1879. Gluggar frá 1898 úr Grafarkirkju. Klukkur frá um 1600 og frá 1742. Allir kirkjugripir gamlir, 17. og 18. öld. Altaristafla úr Ásólfsskálakirkju (1768), ljóshjálmar úr Steinakirkju og úr Skógakirkju. Kirkjan var vígð þann 14. júní 1998 af hr. Karli Sigurbjörnssyni biskupi.
Oddi og Oddakirkja
Oddi á Rangárvöllum er sögufrægur kirkjustaður, bær og prestsetur. Oddi var á öldum áður eitt mesta höfðingja- og menntasetur á Íslandi og þar ólst upp meðal annarra Snorri Sturluson. Oddi stendur neðarlega á Rangárvöllum mitt á milli Ytri- og Eystri-Rangár, en neðan við Oddatorfu rennur Þverá. Oddi var í aldir stórbýli og voru þar miklar engjar. Fjölmargar hjáleigur fylgdu Odda og átti kirkjan ítök víða. Einn af frægari prestum sem setið hafa Odda er sr. Matthías Jochumsson en hann samdi eftirfarandi kvæði um staðinn: Eg geng á Gammabrekku er glóa vallartár og dimma Ægisdrekku mér duna Rangársjár. En salur Guðs sig sveigir svo signir landsins hring, svo hrifin sál mín segir: Hér setur Drottinn þing. Talið er að kirkja hafi staðið í Odda frá upphafi kristni á Íslandi. Núverandi kirkja er timburkirkja frá árinu 1924 og tekur um 100 manns í sæti. Kirkjan er teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins. Kirkjan var endurbætt, máluð og skreytt árið 1953 af Grétu og Jóni Björnssyni og endurvígð það ár. Meðal merkustu muna í eigu kirkjunnar er silfurkalekur sem talinn er vera frá árinu 1300, altaristafla frá árinu 1895 sem sýnir Krist í grasagarðinum Gestemane og skírnarfontur sem er útskorinn og málaður af Ámunda snikkara Jónssyni. Á þjóðveldistímabilinu var Oddi ættaróðal Oddaverja, einnar gáfuðustu og mikilhæfustu ættar þess tíma. Nafntogaðastur Oddaverja var Sæmundur fróði Sigfússon. Sæmundur fróði stundaði námi við Svartaskóla í París. Hann mun líklega hafa verið einn fyrstur íslenskra sagnaritara sem setti saman rit um Noregskonunga, en það er nú glatað. Sonarsonur Sæmundar fróða var Jón Loftsson sem var einn af valdamestu höfðingjum á Íslandi og jafnframt einn mikilsvirtasti þeirra allra, friðsamastur og ástsælastur. Jón tók Snorra Sturluson í fóstur og menntaði hann. Sex prestar í Odda hafa orðið biskupar á Íslandi; sr. Ólafur Rögnvaldsson, sr. Björn Þorleifsson, sr. Ólafur Gíslason, sr. Árni Þórarinsson, sr. Steingrímur Jónsson og sr. Helgi G. Thordarsen. Oddafélagið var stofnað 1. desember árið 1990 og er eitt af meginmarkmiðum félagsins að vinna að endurreisn fræðaseturs í Odda á Rangárvöllum. Félagar eru nú um 200 talsins og er verndari félagsins frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Félagið heldur árlega Oddastefnu þar sem fjölmörg erindi um Oddastað eru flutt ár hvert. Núverandi sóknarprestur í Odda er sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir.
Eyrarbakkakirkja
Séra Jón Björnsson var aðalforgöngumaðurinn fyrir nýrri kirkju á Eyrarbakka. Framan af var kirkjusókn Eyrbekkinga á Stokkseyri en vegna mikilla fjölgunar íbúa á Eyrarbakka var að lokum tekin sú ákvörðun að skipta þyrfti upp sókninni. Jóhann Friðrik Jónsson, forsmiður og helsti trésmiður á Eyrarbakka á áratugnum 1880 - 90 sá um hönnun og vann að byggingu kirkjunnar. Jóhann Friðrik lést áður en kirkjan var full byggð.   Eyrarbakkakirkja var reist á Eyrarbakka árið 1890 og vígð sama ár. Fyrsta orgelið í hina nýju kirkju gaf Jakob A. Lefolii, kaupmaður á Eyrarbakka sókninni. Hvað Séra Jón varðar þá höguðu örlögin því svo, að hann var fyrsti maðurinn sem kvaddur var frá Eyrarbakkakirkju, en það var árið 1892. Fjögur ár liðu frá vígslu Eyrarbakkakirkju uns hún öðlaðist full réttindi sem sóknar- og graftarkirkja, en nýr kirkjugarður var ekki vígður og tekinn í notkun á Eyrarbakka fyrr en árið 1894. Kirkjugarðurinn er austar í þorpinu.  Sögufrægasti gripur kirkjunnar er án efa sjálf altaristaflan sem prýðir mynd af Jesú á tali við Samversku konuna við Jakobsbrunninn (Jóh. 4, 13-14). Undir töflunni er ritað: „Hver sem drekkur af því vatni, sem ég mun gefa honum, hann mun aldrei að eilífu þyrsta." Tilurð altaristöflunar á sér sérstaka sögu, en Séra Jón Björnsson sigldi m.a. í erindum kirkjubyggingarinnar til Kaupmannahafnar til þess að útvega kirkjuviðinn. Hlaut hann þar svo góðar viðtökur þegar hann gekk á fund konungs og drottningar, að Louise, drottning Kristjáns konungs IX., gaf kirkjunni altaristöflu, sem hún hafði sjálf málað og er nafn drottningar á töflunni og ártalið 1891. Af öðrum merkum kirkjugripum má nefna kertastjaka úr Kaldaðarneskirkju, en kirkja þar var lögð niður árið 1902. Á þeim er ritað ártalið 1780 og stafirnir E.S.S. Stjakarnir eru íslensk smíð og að öllu handunnir. Einnig er úr Kaldaðarneskirkju ljósakróna í kór kirkjunnar. Árið 1918 var sett upp stundaklukka í turn kirkjunnar sem slær á heilum og hálfum tíma. Hún var gjöf frá danska kaupmanninum Jakob A. Lefolii.  Skírnarfonturinn er gjöf safnaðarins á 60 ára afmæli kirkjunnar árið 1950. Hann gerði listamaðurinn Ríkharður Jónsson. Skírnarskálin sem Leifur Kaldal gullsmiður gerði var gefin kirkjunni til minningar um Þórdísi Símonardóttur ljósmóður á 100 ára fæðingarafmæli hennar.  Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á kirkjunni frá því hún var byggð árið 1890. Skrúðhús var byggt við norðurhlið kórs 1962 og á árunum 1977 til 1979 var turninn breikkaður, gluggum og umbúnaði þeirra breytt, kirkjan klædd nýrri vatnsklæðningu að utan og panelborðum innan og smíðaðir í hana nýir bekkir. Nýtt íslenskt 11 radda pípuorgel eftir Björgvin Tómasson var tekið í notkun í kirkjunni á jólum 1995.  Kirkjan tekur um 230 - 240 manns í sæti.  Eyrarbakkakirkja var friðuð 1. janúar 1990
Minningarkapella sr. Jóns Steingrímssonar
Kapellan á Kirkjubæjarklaustri var vígð árið 1974 en hún var byggð í minningu séra Jóns Steingrímssonar eldklerks (1728-1791) sem söng hina frægu Eldmessu þann 20. júlí árið 1783 í kirkjunni á Klaustri. Telja margir að Eldmessan hafi stöðvað hraunstrauminn sem þá ógnaði jörðinni. Hraunstraumurinn stöðvaðist þar sem nú heitir Eldmessutangi og er vestan Systrastapa. Sjá má tóft gömlu kirkjunnar í kirkjugarðinum og nákvæmt líkan af kirkjunni er inni í kapellunni. Kirkja stóð á Kirkjubæjarklaustri til ársins 1859 þegar ákveðið var að flytja kirkjuna, vegna uppblásturs, að prestssetrinu að Prestsbakka. Kirkjugarðurinn er afgirtur og þar eru jarðsettir nokkrar íbúar á Klaustri og þar eru nokkrir gamli legsteinar. Einn þeirra er á gröf séra Jóns Steingrímssonar og Þórunnar konu hans.  Kapellan var vígð 17. júní þjóðhátíðarárið 1974. Hún rúmar 80 manns í sæti. Arkitektar voru bræðurnir Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir. Klaustrið stóð stutt frá Minningarkapellunni. Fornleifafræðingar rannsökuðu svæði á árunum 2002 – 2005. Margt merkilegra gripa fannst og má sjá mynd á upplýsingaskilti sem sýnir hvernig klausturbyggingin gæti hafa verið.
Prestsbakkakirkja á Síðu
Kirkja var áður á Kirkjubæjarklaustri en hún var færð að Prestsbakka 1859 vegna sandfoks á Klaustri. Hönnuður Hans Heinrich Schütte arkitekt og byggingarmeistari kirkjunnar. Kirkjan var friðuð 1990.  Prestsbakkakirkja er timburkirkja klædd bárujárni og tekur um 220 manns í sæti. Kirkjan var konungseign og greiddi Friðrik VII fyrir smíði hennar. Yfir kirkjudyrunum er fangamark Friðriks VII. Í kirkjunni er skírnarsár gerður af Ríkharði Jónssyni myndhöggvara og á honum myndir sem vísa til eldmessudagsins 1783.  Altaristaflan í kirkjunni er eftir Anker Lund. Kirkjan var listilega skreytt og máluð árið 1910 af Einari Jónssyni listmálara og sú vinna lagfærð af Grétu og Jóni Björnssyni á aldarafmæli kirkjunni. 
Hraungerðiskirkja
Hraungerði er kirkjustaður, höfuðból og fyrrum þingstaður. Landnámsjörð Hróðgerðs hins spaka, ættföður Oddverja. Fyrst er getið kirkju í Hraungerði í skrá Páls biskups frá því um árið 1200 og hafa fjölmargar kirkjur verið á staðnum síðan þá. Núverandi Hraungerðiskirkja var vígð 4. sunnudag í aðventu, þann 21. desember 1902, af sr. Valdimar Briem prófasti. Eiríkur Gíslason, smiður frá Bitru í Hraungerðishreppi, var ráðinn til að teikna kirkjuna, gera byggingaráætlun og að lokum smíða hana. Kirkjunni hefur vel verið haldið við á undanförnum árum. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Gaulverjabæjarkirkja
Gaulverjabær er kirkjustaður og höfuðból frá fornu fari. Gaulverjabær er Landnámsjörð Lofts hins gamla frá Gaulum í Noregi. Nafnið hefur oft verið stytt í Bæ og hreppurinn þá nefndur Bæjarhreppur. Lítill vafi er á því að Gaulverjabær sé kenndur við menn frá Gaulum í Noregi, sem er hérað í Sogn og Fjordane. Gaulverjar þessir hafa sest að í Bæ, sem svo hefur verið nefndur eftir þeim. Hér fannst merkur silfursjóður árið 1930. Þetta er safn 360 silfurpeninga frá fyrstu öld Íslandsbyggðar. Einnig fannst hér árið 1974 útskorin fjöl úr furu, líklega frá 11. öld, skreytt í svokölluðum Hringaríkisstíl, og er hún ein örfárra slíkra sem varðveist hafa.  Kirkjan sem nú stendur var byggð árið 1909. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.