Flýtilyklar
VESTMANNAEYJABÆR
Vestmannaeyjar eru eyjaklasi suður af Íslandi. Þær samanstanda af 15 eyjum og 30 skerjum og dröngum. Heimaey er eina byggða eyjan allt árið um kring.
Elstu heimildir um Vestmannaeyjar eru í Landnámu, sem segja frá Ingólfi Arnarsyni, fyrsta landnámsmanni Íslands. Þegar hann kom til landsins dvaldist hann einn vetur á Ingólfshöfða. Á ferð sinni í leit að öndvegissúlum sínum fann hann bæ Hjörleifs, fósturbróður síns, og var hann þar nýlátinn.
Úti af Hjörleifshöfða sá hann báta með hinum írsku þrælum Hjörleifs en bátarnir stefndu að eyjaklasa suður af Landeyjum. Eyjarnar voru þá nefndar eftir þrælunum en Írar voru kallaðir Vestmenn á þessum tíma. Ingólfur elti þrælana uppi og drap þá og eru mörg örnefni á eyjunum gefin eftir þeim, til dæmis er Helgafell nefnt eftir Helga sem var veginn þar og Dufþekja í Heimakletti er nefnd eftir Dufþaki, sem sagður er hafa stokkið þar niður til þess að komast hjá því að falla fyrir sverði Ingólfs.
Fyrsti landnámsmaður eyjanna er sagður vera Herjólfur Bárðarson, en hann bjó í Herjólfsdal. Föst búseta í Vestmannaeyjum hófst seint á landnámsöld, um 920, en eins og segir í Sturlubók "var þar veiðistöð og lítil veturseta eða engin" fyrir þann tíma.
Fram á miðja 12. öld voru eyjarnar í eign bænda. Rétt eftir árið 1400 komust Vestmannaeyjar í einkaeign Noregskonungs og síðar Danakonungs. Eyjarnar voru sérstakt lén og ríktu þar jafnvel önnur lög en á Íslandi.
Vestmannaeyjar voru í konungseign út allar miðaldir til ársins 1874 og voru þær alla tíð stærsta tekjulind krúnunnar.
Íbúafjöldi Vestmannaeyja hefur tekið þrjár stórar dýfur í gegnum aldirnar. Fyrst var um helmingsfækkun að ræða þegar um þrjú hundruð manns voru numin á brott í Tyrkjaráninu árið 1627. Öðru sinni var vegið að eyjaskeggjum í ungbarnadauðanum á 18. öld. Svo var það á 20. öldinni í Heimaeyjargosinu árið 1973 þegar á meira en 6 mánaða skeiði bjuggu eingöngu um 200 manns á Heimaey, en þegar gosið hófst voru þeir um 5.100. Nú er bæjabúar um 4.300.
Það eru tvær leiðir til að komast til Eyja, með ferju eða flugvél. Ferjan Herjólfur siglir allt að fimm sinnum á dag frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja og til baka aftur. Ferðin tekur u.þ.b. hálftíma. Mikilvægt er að bóka ferðina fyrirfram, sérstaklega ef þú ætlar að taka bílinn, mótorhjól eða hjólhýsi með þér til Eyja. Þetta á sérstaklega við á sumrin en þá eru vinsælustu ferðirnar gjarnan uppbókaðar, fyrst á morgnanna til Eyja og seinnipartinn eða kvöldin frá Eyjum. Hægt er að taka strætó til Landeyjahafnar frá Reykjavík. Flug til Vetsmannaeyja frá Reykjavík tekur aðeins 20 mínútur. Flugfélagið Ernir flýgur tvisvar á dag til og frá Vestmannaeyjum. Upplýsingamiðstöðin í Vestmannaeyjum er einnig meira en tilbúinn til að aðstoða þig ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi ferðina.
Visit Vestmannaeyjar býður þér velkomin á heimasíðu ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum. Í visitvetmannaeyjar.is getur þú kynnt þér þjónustuna sem er í boði í Eyjum og hvaða viðburðir eru framundan. Hér er einnig að finna upplýsingar um hvernig best er a komast til Vestmannaeyja, með skipi eða flugi. Ef þú ætlar að gista, sem við mælum hiklaust með, þá er hér að finna upplýsingar um bestu gististaðina, hótel, gishús og farfuglaheimili. Einnig er hér að finna allar upplýsingar sem þú þarft varðandi mat og drykk og afþreyingu.
900
VESTMANNAEYJABÆR - ferðaupplýsingar
Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands