Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Bæir

ÁRNES / Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Árnes er vaxandi byggðakjarni en þar er m.a. félagsheimilið Árnes, Þjórsárstofa, Þjórsárskóli, Neslaug, gistiheimili, tjaldsvæði og verslun.

Hér má sjá myndband um sveitarfélagið Skeiða- og Gnúpverjahrepp.

ÁSAHREPPUR

Ásahreppur er hreppur vestast í Rangárvallasýslu. Áshreppingar hafa atvinnu af landbúnaði, verslun og öðrum þjónustugreinum. Náttúran er mjög fjölbreytt, mýrlent á köflum en ásar og holt á milli þar sem bændabýlin standa 3 - 5 í þyrpingum eða hverfum, sem einkenna byggðamynstur sveitafélagsins. Stærsta varpland grágæsar á Íslandi er við Frakkavatn. Þjórsá rennur við hreppamörkin og sýslumörkin í vestri. Afréttur Ásahrepps er 4/7 hlutar af Holtamannaafrétti á móti 3/7 eignarhluta Rangárþings ytra. Holtamannaafréttur nær meðal annar yfir austurhluta Þjórsárvera, og vesturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs. Um Holtamannaafrétt liggur Sprengisandsvegur milli Suður- og Norðurlands.

BORG / Grímsnes- og Grafningshreppi

Borg er vaxandi byggðakjarni í Grímsnesi , þar er fjölþætt þjónusta fyrir heimamenn og ferðamenn, skóli, leikskóli, félagsheimili, verslun, sundlaug, tjaldsvæði, leik- og íþróttaaðastaða.

BRAUTARHOLT / Skeiða- og Gnúpverjahreppi

Brautarholt er vaxandi byggðakjarni en þar er m.a. sundlaug, félagsheimili, tjaldsvæði og mótel.

Hér má sjá myndband um sveitarfélagið Skeiða- og Gnúpverjahrepp.

EYRARBAKKI / Árborg

Saga Eyrarbakka í hnotskurn: http://eyrarbakki.is/um-eyrarbakka

FLÓAHREPPUR

Flóahreppur er rétt austan við Selfoss. Kíktu á www.floahreppur.is

FLÚÐIR / Hrunamannahreppi

Flúðir er vaxandi þéttbýliskjarni og miðstöð menningar, þjónustu og félagslífs á svæðinu. Dugmikið fólk er uppspretta fjölbreytts athafnalífs og þar er gott að vera. Jarðhiti er mikill á svæðinu. Jörð er frjósöm, óþrjótandi uppspretta af heitu vatni og landið ákjósanlegt til landbúnaðar og ræktunar. Fjöldi garðyrkjubýla er í sveitinni, landbúnaður, iðnfyrirtæki og vaxandi þjónusta. Á sumrin er hitastig oft hátt og veðursæld mikil.

HELLA / Rangárþingi ytra

Rangárþing ytra er víðfeðmt sveitarfélag með 1526 íbúa (árið 2016). Mörk þess afmarkast að mestu af Þjórsá að vestan, vatnaskilum að norðan að Vatnajökli og Tungnaá. Að sunnan fylgja mörkin Mýrdalsjökli að Eystri-Rangá. Rangárþing ytra er mikið landbúnaðarhérað og hestamennska stunduð í miklu mæli. Í sveitarfélaginu eru margar þekktar náttúruperlur eins og Hekla og Landmannalaugar auk margra annarra áhugaverðra staða m.a. sögustaða allt frá Landnámsöld. Hella er helsti þéttbýlis- og atvinnukjarni sveitarfélagsins með 781 íbúa(árið 2011). Á Hellu byggist atvinnulífið að mestu á þjónustu við landbúnaðinn auk þjónustu við íbúa svæðisins og ferðamenn. Á Hellu er banki, pósthús, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, hótel, gistiheimili, sumarhús, tjaldsvæði, veitingahús, verslanir, apótek, heilsugæslustöð, sláturhús, bifvélaverkstæði, hjólbarðaverkstæði, bensínstöð auk margs konar atvinnureksturs og opinberrar þjónustu.

HÖFN / Hornafirði

Höfn er eini þéttbýliskjarninn í Ríki Vatnajökuls og þar er mikil og góð þjónusta enda þjónar Höfn stóru dreifbýlissvæði í kring. Þar er að finna hótel, veitingastaði, söfn, tjaldsvæði, verslanir, bensínsstöðvar, pósthús, apótek o.fl. Höfn er stundum nefnd humarbærinn og árlega er haldin þar vegleg Humarhátíð sem er ein af elstu bæjarhátíðum á Íslandi. Það er skylda að bragða á humar þegar komið er á Höfn og af nógu að taka þar sem hver einasti veitingastaður í bænum býður upp á gómsæta humarrétti.

HVERAGERÐI

Hveragerði býður upp á margvíslega afþreyingu fyrir alla aldurshópa, enda fjöldinn allur af fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnununum sem tengjast þjónustu á einn eða annan hátt. Staðsetning bæjarins innan um ósnortna náttúru steinsnar frá höfuðborginni er vel til þess fallin að sækja staðinn heim og stunda útivist og heilsueflingu, verslun að einhverju tagi eða bara taka því rólega í fallegu og afslöppuðu umhverfi. Á sumrin er óvíða í bæjum landsins jafn fjölskrúðugur gróður og í Hveragerði, á veturna skarta garðyrkjustöðvarnar sínu fegursta, með geislandi fölgulri birtu sem ber við himinn.

HVOLSVÖLLUR / Rangárþingi eystra

Í Rangárþingi eystra búa um 1750 manns og nær sveitarfélagið frá Eystri-Rangá í vestri til Jökulsár á Sólheimasandi í austri. Sveitarfélagið er mikið landbúnaðarhérað en jafnframt er ferðaþjónusta vaxandi atvinnugrein og þar er að finna einstakar náttúruperlur, fallegar gönguleiðir og þekkta sögustaði. Áfangastaði eins og Seljalandsfoss, Skógafoss, Þórsmörk og Eyjafjallajökul má finna í sveitarfélaginu.

Hvolsvöllur er þéttbýlis- og þjónustukjarni sveitarfélagsins og þar búa um 900 manns. Helstu atvinnuvegir eru þjónusta fyrir landbúnað, almenn þjónusta fyrir íbúa, ferðaþjónusta og einnig má nefna að á Hvolsvelli rekur Sláturfélag Suðurlands stærstu kjötvinnslu landsins. Hvolsvöllur hefur það sérkenni að vera eina þéttbýlið á Íslandi sem ekki hefur verið byggt upp við sjó eða árfarveg heldur er þéttbýlið algjörlega byggt upp sem miðstöð fyrir þjónustu. Hvolsvöllur er aðeins 100 km. frá Reykjavík og því tilvalin staðsetning til að ferðast út frá um Suðurlandið og Suð-Austurland. Eftir góðar dagsferðir er hægt að finna góða gisti- og afþreyingamöguleika á Hvolsvelli og í öllu sveitarfélaginu. Aðeins 20 km. frá Hvolsvelli er svo Landeyjahöfn þaðan sem Herjólfur siglir til Vestmannaeyja stóran hluta úr árinu.

Á Hvolsvelli finnur þú til dæmis Sögusetrið sem að mestum hluta er tileinkað Brennu-Njálssögu og er það við hæfi þar sem sögusvið þessarar þekktu Íslendingasögu er að mestu leyti í Rangárþingi eystra. Í Sögusetrinu getur þú skoðað sýningu um Njálu, Gallerý Orm, Kaupfélagssafn og nýjasta hluta setursins sem er Refilstofan. Í Refilstofunni er verið að sauma Brennu-Njálssögu í 90 m. langan refil og geta allir sem viljað tekið þátt í verkefninu.

Á Hvolsvelli er hægt að finna gróið svæði í miðbænum þar sem hægt er að hvíla lúin bein, leyfa börnunum að skoða leiktækin og jafnvel fara í nestisferð. Þar má líka finna sýningu á sumrin þar sem áhugaljósmyndarar í sveitarfélaginu sýna verk sín.

Á Hvolsvelli er öll almenn þjónusta eins og banki, pósthús, upplýsingamiðstöð ferðamanna, hótel, gesthús, tjaldsvæði, veitingastaðir, kjörbúð, apótek, heilsugæslustöð, fullbúin íþróttamiðstöð, sundlaug, bílaverkstæði og bensínstöðvar.

KIRKJUBÆJARKLAUSTUR / Skaftárhreppi

Kirkjubæjarklaustur hét Kirkjubær til forna. Býli á Síðu. Þar bjuggu papar fyrstir manna, að sögn Landnámabókar og máttu heiðnir menn ekki búa þar. Síðar settist Ketill hinn fíflski að í Kirkjubæ. Hann "var vel kristinn" segir í Landnámabók og "nam land á milli Geirlandsár og Fjaðrár, fyrir ofan Nýkoma". Eftir Ketil vildi Hildir Eysteinsson úr Meðallandi færa bú sitt í Kirkjubæ og hugði að þar mundi heiðinn maður geta búið. "En er hann kom nær að túngerði, varð hann bráðdauður; þar liggur hann í Hildishaugi." Hildishaugur heitir klettahóll fyrir austan Kirkjubæjarklaustur.


Í Kirkjubæ var stofnað nunnuklaustur af Benediktsreglu árið 1186 og hélst það fram til siðaskipta. Talið er að klaustrið hafi staðið þar sem nú eru kallaðir Kirkjuhólar.


Kirkja var á Kirkjubæjarklaustri til 1859 er hún var flutt að Prestsbakka. Í kirkjugarðinum er leiði séra Jóns Steingrímssonar og á því er legsteinn hans, fimmstrendur blágrýtisdrangur. Séra Jón var sóknarprestur byggðarinnar þegar Skaftáreldar brunnu árið 1783. Sú trú lék á að hann hefði stöðvað hraunrennslið í farvegi Skaftár vestan Systrastapa með þrumuræðu sem hann hélt við messu í Kirkjubæjarklausturskirkju 20. júlí 1783. Hefur hún síðan verið kölluð Eldmessa. Og víst er að þegar kirkjugestir komu úr kirkju hafði hraunrennslið stöðvast í farveginum og fann sér síðan nýja leið vestar. Á 175. ártíð séra Jóns Steingrímssonar, sumarið 1966, var ákveðið að reisa minningarkapellu um hann á Kirkjubæjarklaustri. Kapellan var vígð 17. júní þjóðhátíðarárið 1974. Hún rúmar 80 manns í sæti. Arkitektar voru Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir.


Lárus Helgason (1873-1941) bjó á Kirkjubæjarklaustri um langt skeið. Hann vann ásamt sonum sínum að ýmsum umsvifamiklum framkvæmdum á staðnum, meðal annars dældu þeir jökulvatni úr Skaftá á sandana fyrir austan Kirkjubæjarklaustur og veittu einnig vatni úr Stjórn á þá. Einnig var plantað allmiklum skógi í brekkurnar fyrir ofan staðinn og hefur hann dafnað vel.


Á síðustu áratugum hefur kauptún myndast á Kirkjubæjarklaustri. Voru íbúar þar 143 1. des 1994. Barnaskóli hefur verið á Klaustri frá 1917 en nú er þar grunnskóli. Við hann er sundlaug. Prestur hefur setið á Kirkjubæjarklaustri frá 1931, læknir frá 1950 og dýralæknir frá 1974. Nokkur iðnaður er á staðnum og allmikil þjónusta við ferðamenn. Gistihús hefur starfað alllengi. Edduhótel hefur verið í skólanum frá 1970 og héraðsbókasafn er þar einnig til húsa.


Þjóðsögur er minna á klausturlífið eru tengdar nokkrum stöðum á Kirkjubæjarklaustri, þar á meðal Systrastapa, sem er vestan við túnið. Uppi á honum áttu tvær klaustursystur að hafa verið brenndar fyrir brot gegn siðareglum klaustursins og óguðlegt athæfi. Átti önnur þeirra að hafa selt sig fjandanum, gengið með vígt brauð fyrir náðhúsdyr og lagst með karlmönnum, hin átti að hafa talað óvirðulega um páfann. Eftir siðaskipti var seinni nunnan álitin saklaus og á legstað hennar óx fagur gróður en enginn á legstað hinnar. Uppi á fjallinu fyrir ofan bæinn er Systravatn en úr því fellur Systrafoss sem setur svip á staðinn.


Sérkennilegur blettur, sem kallaður er Kirkjugólf, er ekki langt frá bænum en þar sér ofan á stuðlaberg og lítur út eins og hellum sé raðað mjög vandlega og reglulega af mannahöndum. Kirkjugólf var friðlýst 1987 sem náttúruvætti og miðast friðlýsingin við 10 m breiða spildu umhverfis það.


Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1.0. Námsgagnastofnun 1995.

LAUGARÁS / Bláskógabyggð

Laugarás er þorp í nágrenni Skálholts og Vörðufells. Grundvöllur byggðarinnar er annars vegar heita vatnið og hins vegar að þorpið er í miðju uppsveitanna. Íbúarnir eru um 120 og flestir hafa lífsviðurværi sitt af garðyrkju. Allskyns grænmeti og blóm eru ræktuð í gróðurhúsum allt árið.Fyrir utan garðyrkjuna má nefna að ferðaþjónusta hefur farið ört vaxandi undanfarin ár og nú eru í Laugarási hótel, veitingasala, tjaldstæði og óhemju vinsæll "mini" dýragarður. Þar eru meðal annarra öll íslensku húsdýrinÞriðja aðal atvinnugreinin tengist Heilsugæslustöðinni, sem þjónar öllum uppsveitum Árnessýslu.

LAUGARVATN / Bláskógabyggð

Skólaþorpið Laugarvatn hefur verið vagga menntunar á svæðinu allt frá 1928, þar eru nú öll skólastig frá leikskóla til háskóla. Við Laugarvatn er Vígða laug, en margir trúa á lækningarmátt vatnsins. Við kristnitökuna árið 1000 voru heiðingjar skírðir í þessari volgu laug. Fjölbreytt þjónusta er í boði á Laugarvatni og nágrenni og ýmsir afþreyingarmöguleikar. Tjaldsvæði, farfuglaheimili, bændagisting, hótel og veitingastaðir. Hægt að leigja bát og sigla á vatninu, veiða í ám og vötnum eða bregða sér í golf eða sund. Fallegar gönguleiðir eru í nágrenninu og boðið er upp á hellaskoðun, kanóferðir og útiafþreyingu fyrir hópa. Fjölbreytt fuglalíf er í skóginum og við vatnið og fallegar gönguleiðir. Laugarvatnsfjall býður upp á víðáttumikið útsýni. Upp frá Miðdal, um 3 km frá Laugarvatni, er vinsæl gönguleið upp að Gullkistu.

Ölfus

Sveitarfélagið Ölfus er á suðvesturhorninu um 50 km frá Reykjavík. Það búa rúmlega 2000 manns í sveitarfélaginu og þar af um 1600 manns í Þorlákshöfn, sem er eina þéttbýlið í sveitarfélaginu.

Í Ölfusi er fjölbreytt landslag með svörtum sandfjörum, klettabjörgum, hraunbreiðum, hellum og háhitasvæðum svo eitthvað sé nefnt.

Frá Þorlákshöfn og sveitarfélaginu öllu er einstakt útsýni í allar áttir t.d. yfir Heklu, Eyjafjallajökul og til Vestmannaeyja.

Í Þorlákshöfn er einn af bestu brimbrettastöðum á Íslandi þar sem brimbrettakappar alls staðar úr heiminum koma til að prófa öldurnar. Fyrir byrjendur eru öldurnar í fjörunni tilvaldar en fyrir þá sem lengra eru komnir eru öldurnar við útsýnisskífuna hjá Hafnarnesvita meira krefjandi.

Lítil ljósmengun og víðáttumikið útsýni í Ölfusi gerir svæðið kjörið til norðurljósaskoðunar.

Upplýsingamiðstöð Ölfuss er staðsett á Bæjarbókasafni Ölfuss og er opin frá kl. 12:30 til 17:30 alla virka daga. Tjaldsvæðið er staðsett fyrir aftan Íþróttamiðstöð Þorlákshafnar, við hliðina á Þorlákskirkju.

Upplýsingamiðstöð Þorlákshafnar
Hafnarberg 1
815 Þorlákshöfn
Sími: 480 3830
Opnunartími: Alla virka daga frá kl. 12:30 – 17:30

REYKHOLT / Bláskógabyggð

Reykholt er lítið þorp sem byggðist upp í kringum jarðhitann sem fannst þar á fyrri hluta 20 aldar. Þar eru í dag garðyrkjustöðvar sem rækta grænmeti og blóm, skóli, leikskóli og félagsheimilið Aratunga. Einnig fjölbreytt þjónusta; verslun, sundlaug, veitingastaðir, gistiheimili, tjaldsvæði, hestasýningar og heimsóknir í gróðurhús.

SELFOSS / Árborg

Sveitarfélagið Árborg varð til við sameiningu Eyrarbakkahrepps, Sandvíkurhrepps, Selfossbæjar og Stokkseyrarhrepps eftir almennar kosningar meðal íbúa byggðarlaganna í febrúar 1998. Sameiningin tók formlega gildi í júní sama ár. 12 góðar ástæður til þess að heimsækja sveitarfélagið: http://arborg.is/upplysingar/frodleikur-um-arborg/ahugaverdir-stadir VERTU VELKOMIN Í HÖFUÐSTAÐ SUÐURLANDS !

Visit Árborg og Flóahreppur

Sveitafélögin Árborg og Flóahreppur á Suðurlandi deila merkilegri sögu, fallegri náttúru og vinalegum íbúum sem telja 8.817 manns. Stærsti bærinn er Selfoss og um 13 kílómetri suður af Selfossi eru þorpin Eyrarbakki og Stokkseyri sem eru staðsett á ströndinni.


Upplýsingamiðstöð Árborgar og Flóahrepps 
Austurvegur 2 (í bókasafni)
800 Selfoss 
tourinfo@arborg.is
www.visitarborg.is
sími: 480 1990

SÓLHEIMAR / Grímsnes- og Grafningshreppi

Sólheimar eru sjálfbært samfélag þar sem rúmlega 100 einstaklingar búa og starfa saman. Sólheimar eru stofnaðir árið 1930 af Sesselju Hreindís Sigmundsdóttur (1902 - 1974). Byggðahverfið Sólheimar leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Rekin er öflug félagsþjónusta á Sólheimum þar sem einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn er veitt tækifæri til atvinnu og starfsþjálfunar, búsetu, félags- og menningarstarfs. Fjölbreytt starfsemi fer fram á Sólheimum svo sem rekstur skógræktar- og garðyrkjustöðva sem báðar stunda lífræna ræktun. Verslun og listhús, kaffihús og gistiheimili. Fjöldi listvinnustofa er á Sólheimum svo sem kertagerð, listasmiðja, keramik, vefstofa, jurtastofa og smíðastofa. Í byggðahverfinu er kirkja, höggmyndagarður, trjásafn, hljómgarður, listsýningarsalur, umhverfissetrið Sesseljuhúsi auk íþróttaleikhúss. Íbúar Sólheima leggja metnað sinn í að taka vel á móti gestum og eru allir velkomnir að Sólheimum. Vakin er sérstök athygli á "Á döfinni" þar sem sérstaklega eru tilgreindir þeir atburðir sem á boðstólnum eru hverju sinni. * Vertu velkomin(n) á Sólheima *

STOKKSEYRI / Árborg

Um Stokkseyri: http://stokkseyri.is/web/sagan.php?expand=1

Þorlákshöfn í Ölfusi

Sjávarbær við Suðurströndina. Um 40 mínútna akstur frá Reykjavík og 15 mínútna akstur frá Hveragerði. Kauptúnið dregur nafn sitt af Þorláki helga Skálholtsbiskupi (1133-1193). Útræði hófst snemma frá Þorlákshöfn. Meðan gert var út á áraskipum var ekki óalgengt að róið væri á 20-30 skipum frá Þorlákshöfn og hafa íbúarnir þá verið um 3-400 yfir vertíðina. Núverandi þéttbýli myndaðist um og upp úr miðja síðustu öld í kjölfar uppbyggingar öflugrar útgerðar á vegum Meitilsins hf. Mikil fjólksfjölgun varð einnig á áttunda áratugnum í kjölfar eldgossins í Heimaey. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Þorlákshöfn á síðustu árum. Íþróttahús og sundaðstaða eru til fyrirmyndar og glæsilegir íþróttavellir í næsta nágrenni auk leikaðstöðu fyrir börn. Tjaldstæði er við íþróttahúsið en einnig er gisitheimili í bænum, upplýsingamiðstöð á bókasafninu, íþróttagolfvöllur og 18 holu sandgolfvöllur rétt utan við bæinn. Sett hafa verið upp nokkur söguskilti á svonefndu hverfisverndarsvæði þar sem enn er hægt að greina minjar frá fyrri tímum verstöðvarinnar. Hægt er að ganga á milli skilta frá Þorlákskirkju. Ferðaþjónusta er ung atvinnugrein í Þorlákshöfn en er mikið stunduð í dreifbýli Ölfuss. Þar eru ýmsir gististimöguleikar, veitingastaðir, kaffihús og boðið upp á hestaferðir. Gerðar hafa verið góðar reiðleiðir um Ölfusið. Víða er veiði í vötnum og í ósum Ölfusár. Selvogurinn vestan við Þorlákshöfn, jarðhitasýning í Hellisheiðarvirkjun og strandlengjan að veitingastaðnum Hafinu Bláa eru vinsælir viðkomustaðir fyrir ferðamenn.

ÞYKKVIBÆR / Rangárþingi ytra

Byggðahverfi við Hólsá og sunnan við Safamýri. Áður var Þykkvibær umflotinn á alla vegu og kýr bændanna varð að reka á sund til að koma þeim á haga. Fólk varð að vaða upp í mitti eða dýpra til að komast á milli bæja og erfitt var að fást við heyskap. Auk þess brutu vötnin landið. Árið 1923 var öflug fyrirhleðsla byggð þvert yfir Djúpós og er nú akvegur eftir stíflugarðinum.


Byggð er gömul í Þykkvabæ, fyrst getið um 1220. Áður var nokkurt útræði frá sandinum en oft urðu þar slys enda ill lending. Barnaskóli var settur í Þykkvabæ árið 1892 og var hann fyrsti sveitaskóli í Rangárvallasýslu. Eftir að hlaðið var fyrir Djúpós jókst þar mjög túnrækt og er Þykkvibærinn myndarbyggð í hvívetna.


Kartöflurækt er mikil í Þykkvabæ.


Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1.0. Námsgagnastofnun 1995.

VÍK / Mýrdalshreppi

Kauptún austan Reynisfjalls í Mýrdal. Í Vík hafa verið tvö býli, Suður- og Norður-Vík, austan megin Víkurár, í litlu dalverpi við ströndina, og féll sjór að berginu beggja vegna dalsins langt fram eftir öldum. Vikið austan að Reynisfjalli nefndist Þórshöfn. Samgönguleiðir lágu yfir Reynisfjall til vesturs og Arnarstakksheiði til austurs eða inn úr Víkinni, sem kallað var, norður með Reynisfjalli, eftir lægðardragi milli þess og Arnarstakksheiðar. Í Kötlugosinu 1660 færðist ströndin austan Reynisfjalls mikið fram og opnaðist þá leið til austurs með hömrunum. Í Suður-Vík bjó Sveinn Pálsson (1762-1840) læknir og náttúrufræðingur í meira en 30 ár. Vík fékk löggildingu sem verslunarstaður árið 1887. Árið 1895 stofnaði Brydesverslun útibú í Vík. Við þetta gerbreyttust verslunaraðstæður Vestur-Skaftfellinga. Losnuðu þeir við langar og erfiðar ferðir vestur á Eyrarbakka, út í Vestmannaeyjar eða austur á Papós en einnig tóku Öræfingar og Eyfellingar að sækja verslun til Víkur.


Upp úr aldamótum varð kauptúnið í Vík miðstöð sýslunnar en jafnhliða því sem verslunin jókst fluttist þangað ýmis opinber þjónusta svo sem læknir og sýslumaður. Íbúum fjölgaði ört og voru þeir orðnir 80 árið 1905. Töluvert var róið frá Vík fram yfir 1930 og vöruflutningar voru allir með skipum þar til bílfært varð milli Víkur og Reykjavíkur.


Aðalatvinna íbúanna er verslun og ýmiss konar þjónusta við nærliggjandi byggðarlög svo og smáiðnaður.

Bretar og síðar Bandaríkjamenn höfðu nokkur umsvif í Vík á heimsstyrjaldarárunum. Þeir reistu lóranstöð á Reynisfjalli og eftir stríðið tóku Íslendingar við rekstri hennar. Var stöðin snar þáttur í atvinnulífi kauptúnsins uns hún var lögð niður í árslok 1977.
Prestssetur í Mýrdalsþingum hefur verið í Vík frá 1911. Kirkja var reist í kauptúninu á árunum 1931-1934, steinsteypt hús með kór og turni. Tekur hún um 200 manns. Víkurkirkja á ýmsa góða gripi, meðal annars altaristöflu eftir Brynjólf Þórðarson. Í kirkjunni eru einnig ýmsir merkir munir úr Höfðabrekkukirkju, sem fauk 1920, m.a. kaleikur og patína úr silfri frá 1759 eftir Sigurð Þorsteinsson silfursmið í Kaupmannahöfn og oblátuöskjur úr silfri frá 1732.

Heimild: Íslandshandbókin útgáfa 1995.

Visit Hella

Rangárþing ytra er eitt af landfræðilega stærstu sveitarfélögum landsins og telur rúmlega 1.600 íbúa. Sveitarfélagið er eitt þriggja sveitarfélaga í Rangárvallasýslu, en sýslan liggur um miðbik Suðurlands og þar er að finna einstök náttúrugæði, hvort sem er á láglendi eða hálendi.

Gosbeltið liggur þvert um sveitarfélagið og þar er að finna eitt virkasta eldfjall Íslands, Heklu sem er í 1.491 m.y.s. og hefur á síðustu eitt hundrað árum gosið sex sinnum, árin 1947, 1970, 1980, 1981, 1991 og 2000. Í Rangárþingi ytra má einnig finna nokkra jökla, Torfajökul, Blesárjökul og þá liggur sveitarfélagið að hluta inn á Mýrdalsjökul. Nokkurn jarðhita má finna í Rangárþingi ytra, ekki síst Torfajökulssvæðið sem er eitt mesta jarðhitasvæði Íslands.

Ein mesta jökulá Rangárvallasýslu, Markarfljót, á upptök sín á Torfajökulssvæðinu í Reykjadölum og tvær af mestu laxveiðiám landsins, Ytri-Rangá og Eystri-Rangá eiga báðar upptök sín í Rangárþingi ytra, sú fyrrnefnda á Rangárbotnum á Landmannaafrétti og sú síðarnefnda í Rangárbotnum á Rangárvallaafrétti.

Veiðivötn eru á Landmannaafrétti og þangað sækja árlega þúsundir veiðimanna í stangveiði og vötnin afar gjöful af bleikju og urriða, en fiskirækt í Veiðivötnum er í höndum Veiðifélags Landmannaafréttar.

Margar vinsælar gönguleiðir má finna í Rangárþingi ytra, Laugavegurinn þeirra þekktastur en hann hefst í Landmannalaugum og liggur um Hrafntinnusker, Álftavatn og Hvanngil áður en gönguleiðin fer yfir á Emstrur og loks niður í Þórsmörk. Þá er Hellismannaleiðin að verða vinsælli með hverju árinu sem líður en hún hefst á Rjúpnavöllum í Landsveit og liggur um Áfangagil, Landmannahelli og inn í Landmannalaugar. Þá er önnur gönguleið á Rangárvallaafrétti að festast í sessi frá Fossi á Rangárvöllum um Dalöldur, inn í Hungurfit og þaðan ýmist inn á Krók eða yfir í Dalakofa.

Í Rangárþingi ytra má finna alla almenna þjónustu og er þjónustustigið afar hátt. Þar eru tveir leikskólar og tveir grunnskólar, heilsugæsla, tvær sundlaugar, verslanir, banki, bifreiðaverkstæði, og hjúkrunar- og dvalarheimili, svo eitthvað sé nefnt. En afar viðmikil ferðaþjónusta er einnig rekin í sveitarfélaginu öllu og um það ferðast milli 50-60% erlendra ferðamanna á veturna og í kringum 70% erlendra ferðamanna á sumrin.

Íslenski hesturinn er í öndvegi í Rangárþingi ytra og á Gaddstaðaflötum (Rangárbökkum) við Hellu er eitt besta keppnis- og sýningarsvæði fyrir hross á Íslandi, en þar hafa fjölmörg Landsmót hestamanna þegar verið haldin og þau sótt heim á bilinu 10-14 þúsund gestir og hundruð hrossa. Þá eru rekin í sveitarfélaginu gróskumikil kúabú og fjölmörg afurðahá sauðfjárbú.

Þá má loks minnast á nokkra sögufræga staði í sveitarfélaginu, Odda á Rangárvöllum, Keldur á Rangárvöllum og Gunnarsstein og Knafarhóla sem eru sögusvið eins frægasta bardaga Njálu þar sem Gunnar á Hlíðarenda og Hjörtur, bróðir hans, börðust hetjulega.

Suðurland

Þéttbýliskjarnar

Á Suðurlandi eru allmargir þéttbýlisstaðir, hver með sínu sniði og sjarma og allir bjóða upp á einhverskonar afþreyingu. Selfoss er þeirra stærstur og þar má finna ýmsar verslanir, þjónustu og marga veitinga- og skyndibitastaði. Flestir bæir eru í alfaraleið og því bæði hentugt og skemmtilegt að eiga þar viðdvöl.

Skoða meira

Map Höfn Kirkjubæjarklaustur Vík Vestmannaeyjar Hvolsvöllur Flúðir Laugarvatn Reykholt Laugarás Borg Brautarholt Hveragerði Árnes Selfoss Hella Stokkseyri Eyrarbakki Þykkvibær Þórlákshöfn